25.9.2006 | 02:33
Hamagangur í prófkjörstíðinni - Eru kjördæmin of stór?
Nú þegar hillir undir lok "sláturtíðar" á Íslandi styttist óðum í aðra tíð, prófkjörstíðina. Sú tíð lítur út fyrir að verða meira spennandi en oft áður. Þegar hafa komið fram margir frambjóðendur, en það sem drífur þá af stað er að meira er af "lausum sætum" en oft áður.
Eins og oft áður beinist mesta athyglin að Reykjavíkurkjördæmunum, en það er útlit fyrir feykiharða baráttu í öðrum kjördæmum. Eitt af þeim kjördæmum sem spennan er að aukast í er Norðausturkjördæmið. Kjördæmið er ákaflega víðfemt, og gerir það uppstetningu lista frekar erfiða, þar sem ólík sjónarmið og byggðalög sækjast eftir áhrifum. Þessi togstreita á ábyggilega eftir að verða nokkuð sýnileg í þessari baráttu. Sérstaklega hefur mörgum akureyringnum þótt þeir bera skarðan hlut frá borði.
Það er því ekki að undra að það heyrist æ oftar að kjördæmið sé of stórt.
Það eru fyrst og fremst listar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem verið er að velta vöngum yfir þessa dagana. Sú tilkynning Halldórs Blöndals að hann sækist ekki eftir því að leiða listann , hefur opnað prófkjörið upp á gátt, ef svo má að orði komast.
Arnbjörg sækist að sjálfsögðu eftir því að leiða listann, en það má telja nokkuð víst að fleiri verði um hituna, og kemur þá að sjálfsögðu Kristján bæjarstjóri fyrst upp í hugann. Það má telja nokkuð víst að umræðan á eftir að fara inn á þá braut, í það minsta að hluta til, að það þurfi akureyring í efsta sæti. Vægi Akureyrar er svo mikið í kjödæminu, þar er atkvæðamagnið.
Það gæti því orðið verulega erfitt fyrir þingflokksformanninn að ná fyrsta sætinu.
Í síðustu byggðakosningum greiddu u.þ.b. 75% fleiri atkvæði á Akureyri en í öllum sveitarfélögunum á Austurlandi.
Það er að mörgu leyti það sama upp í teningnum hjá Samfylkingu, þar kljást núverandi leiðtogi Kristján Möller, frá Siglufirði og Benedikt Sigurðarson frá Akureyri (með afar sterka tengingu í Þingeyjarsýslur) um fysta sætið, og Einar Már (sitjandi þingmaður) og Lára Stefánsdóttir (frá Akureyri) um annað sætið.
En það eru vissulega hættur. Hvað ef Benedikt hefur fyrsta sætið og Lára annað?
Það er ljóst að það væri óskastaða fyrir Framsóknarflokkinn, sem sótti drjúgt af atkvæðum í síðustu kosningum með ungum frambjóðendum og vann stórsigur, fékk fjóra menn kjörna. Birkir (frá Siglufirði) og Dagný (frá Eskifirði) yrðu í mun vænlegri stöðu til að verja stöðu sína, ef frambjóðendum af "þeirra svæðum" hefði verið "hafnað" af öðrum flokkum. Ég held að það sé ljóst að þeir eiga verulega undir högg að sækja, mér þætti ekki ólíklegt að þeir enduðu í 2 mönnum. En veikleiki Framsóknarflokksins er líka Akureyri. Ég held að fáir Akureyringar líti á Valgerði sem "sinn" frambjóðenda þó að hún sé úr Eyjafirðinum. Framsóknarmenn hljóta líka að minnast þess skells sem þeir fengu í kosningunum á Akureyri, síðastliðið vor.
En það eru margir möguleikar í stöðunni og erfitt að spá. Enn er langt í að listarnir verði klárir og kosningabaráttan er öll eftir. Eins og ég met stöðuna núna, eru það Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sem hafa sóknarfærin. Samfylking á þó mikið undir því hvernig spilast úr "umhverfisstefnunni" fram að kosningum.
En hvernig sem útkoman verður og því lengur sem ég velti þessum málum fyrir mér, því rökréttara verður í mínum huga að hafa kjördæmin fleiri og smærri.
Benedikt Sigurðarson stefnir á fyrsta sætið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.