21.9.2006 | 18:15
Hvenær eru menn hlutdrægir og hvenær eru menn ekki hlutdrægir - Ómar hættir að vera "óhlutdrægur"
Þessi frétt er af vef Ruv:
Ómar hættir að vera óhlutdrægur
Ómar Ragnarsson gefur út blað, áttblöðung um umhverfismál sem verður dreift með Morgunblaðinu á sunnudaginn. Í því tekur hann afdráttarlausa afstöðu í umhverfismálum sem verður til þess að framvegis fjallar hann ekki um þau mál í fréttatímum Sjónvarpsins.
Ómar hefur boðað til blaðamannafundar eftir hádegi þar sem hann skýrir frá blaðinu og breytingum sem verða í starfi hans.
Sjá hér.
Þetta er til fyrirmyndar, fréttastofur þarfnast þess að hlutleysi þeirra sé eins mikið og kostur er. Það er því nauðsynlegt að fréttastofur hafi úr nægum mannskap að velja, þannig að hagsmunaárekstrar verði sem fæstir, helst auðvitað engir.
Ég bloggaði fyrir nokkru um þátt á NFS, þar sem 11. maður á lista Samfylkingar í R-Norður ræddi við 1. mann á sama lista. Að mínu mati veikir slíkt atvik trúverðugleika fréttastofa, er í raun gjaldfelling.
En hitt er svo annað mál, að þótt að sjálfsagt sé að fagna því að Ómar skuli ekki fjalla um fréttir tengdar umhverfismálum, vegna þess að hann hefur ákveðið að hann sé ekki lengur "óhlutdrægur" þá er auðvitað þarft fyrir hvern og einn að velta því fyrir sér hvort að hann hafi verið það hingað til? Sjálfsagt koma mismunandi svör við því.
Einnig er þarft að leiða hugann að því, hvort að fréttamaður sem berst hatrammlega fyrir einu málefni, geti verið hlutlaus gagnvart andstæðingum sínum eða samherjum í því máli, í öðrum málum?
Það væri líka fróðlegt að heyra skoðanir manna á því.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að fullkomið hlutleysi sé ekki til, en auðvitað eiga fjölmiðlamenn að berjast við að ná því.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Sjónvarp, Fjölmiðlar, Dægurmál, Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.