12.11.2007 | 19:23
Jafnaðarstefna?
Ég ætla að vekja athygli á þessarri bloggfærslu minni og svo aftur þessarri frétt á ruv.is
Fréttin er hér eftirfarandi:
"Jafnaðarmenn hrósa ráðherra
Ungir jafnaðarmenn (UJ) fagna frumkvæði viðskiptaráðherra um endurskoðun á reglum um tollfríðindi og þeim upphæðum á vörum sem fólk má flytja með sér til landsins.
Aðflutningsgjöld séu barn síns tíma og óskiljanlegt að fólk megi ekki koma með vörur fyrir meira en 46.000 krónur án þess að borga toll og gjöld af því. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að upphæðirnar verði hækkaðar umtalsvert eða hreinlega felldar niður. Ennfremur að tími tollvarða og peningar skattborgaranna verði nýttir í eftirlit sem skipti máli, svo sem baráttu gegn innflutningi fíkniefna."
Setningin "Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að upphæðirnar verði hækkaðar umtalsvert eða hreinlega felldar niður.", vakti sérstaka athygli mína.
Þó að vissulega megi misskilja setninguna á þann veg að ef ekki verði um hækkanir að ræða, sé best að fella heimildir til tolls og virðisaukaskattslauss innflutnings niður, tel ég að það sé ekki það sem Ungir jafnaðarmenn séu að meina, heldur vilji þeir að hámarkið verði fellt úr gildi og ferðamenn megi taka ótakmarkað af varningi með sér til landsins án þess að greiða af honum tolla, vörugjöld eða virðisaukaskatt.
Má þá eiga von á því að næstu tillögur frá Ungum jafnaðarmönnum verði í þá veru að allir tollar, öll vörugjöld og virðisaukaskattur verði lagður niður á Íslandi?
Eða eru þeir búnir að teygja jafnaðarstefnuna í þá átt að sjálfsagt þyki að þeir sem ferðast njóti stórfelldra fríðinda en ekki þeir sem heima sitja? Að þeir sem ferðist geti keypt flest það sem þeir þurfi án þess að greiða til samfélagsins en þeir sem versla t.d. á netinu eða heima þurfi að greiða eftir sem áður?
Að mínu mati er best að sömu lög og skilmálar ríki, burtséð frá því hvar eða með hvaða máta menn kjósa að versla. Það á ekki að skipta máli hvort að verslað er í verslun í Reykjavík, frá netverslun í Portúgal, eða verslun í London, varningurinn á að bera sömu gjöld og sama virðisaukaskatt ef og þegar hann er fluttur til Íslands.
Ef að Ungir jafnarðarmenn eru hins vegar að hefja baráttu fyrir því að allir tollar, öll vörugjöld og virðisaukaskattur verði lagður niður á Íslandi, þá líst mér ágætlega á það.
Það myndi þýða verulegan samdrátt í tekjum ríkissjóðs og hefja yrði löngu tímabæran niðurskurð á útgjöldum hans, en það myndi án efa leysa úr læðingi mikinn kraft í samfélaginu og stórauka samkeppni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti | Facebook
Athugasemdir
Vörur eiga heima í búðum, föt og tannburstar í ferðatöskum. Þetta er augljóst.
Tollarar í öðrum löndum eru ekki að leita að myndavélum af því landsmenn þeirra þurfa ekki að smygla þeim -- vörurnar fást á eðlilegu verði út í búð.
Ef verðlag í íslenskum búðum kemst í lag, þarf ekki að breyta neinum lögum um smygl ferðamanna.
Kári Harðarson, 12.11.2007 kl. 21:35
Það er rétt að varningur er betur kominn í verslunum en ferðatöskum, enda má segja að það þekkist þegar maður er kominn í flugvél á leið til Íslands, vegna þess hve handfarangur farþegar er gríðarlega mikill, líklega vegna þess að allur varningurinn sem bera þarf heim, komst einfaldlega ekki fyrir í "farangri".
En það þarf að endurskoða álögur á Íslandi, en það er út í hött að mínu mati að veita ívilnanir eingöngu til þeirra sem ferðast erlendis. En þegar álögur eru orðnar slíkar að ef einstaklingur hefur í hyggju að kaupa sér t.d. Ipod þá geti það því sem næst borgað sig að skreppa frekar til London en að rölta út í verslun, þá er eitthvað mikið að.
Lausnin við því er ekki að auka fríðindi ferðamanna, heldur að stokka upp tolla, vörugjöld, virðisaukaskatt og aðrar álögur á Íslandi.
Ef einfalt og auðvelt er að kaupa af netinu á á þau kaup leggjast ekki ógrynnin öll af gjöldum og tollum, veitir það Íslenskum kaupmönnum gríðarlegt aðhald og veitir neytendum gríðarleg tækifæri.
G. Tómas Gunnarsson, 14.11.2007 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.