9.11.2007 | 16:42
Hvers vegna tollfríðindi?
Þó að ég sé ekki á móti tollfríðindum fyrir ferðamenn per se, þá þykir mér umfjöllunin sem ég hef séð á mbl.is og hjá bloggurum nokkuð merkileg og á villigötum.
Flestum virðist þykja það sjálfsagt að ferðamenn megi taka með sér tollfrjálsan varning og þykja núverandi upphæðir alltof lágar. Popúlískir stjórnmálamenn virðast svo taka undir, enda líklega hræddir við að segja nokkuð sem ekki er líklegt til vinsælda.
En er ekki nær að spyrja hvers vegna allir þessir tollar og vörugjöld eru lögð á og hvað er svona merkilegt við það að ferðast til útlanda að þeir sem það gera eigi að njóta betri kjara en þeir sem heima sitja?
Ef fluttir eru 20 geisladiskar til landsins þá eru greiddir af þeim tilhlýðileg gjöld og virðisaukaskattur af innflytjenda og verslun. Ef einstaklingur pantar sér 20 geisladiska af www.amazon.com þá innheimtir pósturinn af honum tilheyrandi gjöld og virðisaukaskatt (flutningskostnaður innifalinn í báðum tilfellum), en ef að sami einstaklingurinn flýgur til London og kemur heim með 20 geisladiska þá þykir öllum sjálfsagt að hann greiði engin gjöld og engan virðisaukaskatt (og ekkert hugsað um flutningskostnaðinn).
Hver eru rökin fyrir þessum mun? Hví skyldi sá sem þarf eða kýs að fara til útlanda oft á ári geta gert sín innkaup að stórum hluta án þess að þurfa að borga vörugjöld, tolla og virðisaukaskatt, en sá sem heima situr er gert að borga af öllu?
Þetta þýðir ekki að ég sé mikill aðdáandi tolla og vörugjalda, heldur finnst mér rétt að allir sitji við sama borð eins og frekast er kostur. Það er því nær að stefna að því að fella niður slík gjöld, lækka virðisaukaskatt og þar fram eftir götunum.
Þá er sanngjörn samkeppni á milli innlendra söluaðila, þess að kaupa inn af netinu og því að fara erlendis og versla. Einstaklingar geta þá valið þann kost sem þeim líst best á, án þess að hið opinbera sé að hygla einni aðferð umfram aðra með toll, vörugjalda og vsk fríðindum.
Ólíkar reglur um tollfríðindi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.