23.10.2007 | 21:06
Til fyrirmyndar
Ég rakst á stutta en sérlega ánægjulega frétt á vef RUV í dag, en fréttina má lesa hér. Þar segir af þeirri ákvörðun Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrrum bæjarstjóra í Mosfellsbæ og núverandi alþingismanns að segja sig úr bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það fari illa saman að sitja í sveitarstjórnum og á Alþingi og því fagna ég þessari ákvörðun Ragnheiðar og tel hana reyndar alveg hreint til fyrirmyndar.
Fréttina í heild má svo lesa hér að neðan.
"Ragnheiður hættir í bæjarstjórn
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður hættir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á morgun. Hún var áður bæjarstjóri þar til hún var kjörin á þing í vor. Ragnheiður segir það ekki fara saman að sitja á báðum stöðum; skyldur í þingi og bæjarstjórn skarist of mikið.
Alls sitja 3 þingmenn Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórnum: Kristján Þór Júlíusson er forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Björk Guðjónsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Ármann Kr. Ólafsson er í bæjarstjórn Kópavogs. Gunnar Svavarsson, Samfylkingu er í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þingmaður Framsóknar, Birkir Jónsson, situr í bæjarstjórn Fjallabyggðar."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Varmá, fréttariti Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ, segir að RR hafi tilkynnt um ákvörðun sína á samkomu flokksmanna í bænum. Haft er eftir þingmanninum:
,,Það hafi verið ætlun sín að sinna báðum störfum enda fordæmi fyrir slíku. Það hefði hins vegar komið í ljós að fundir bæjarstjórnar og þingflokks séu á sama tíma svo það gangi ekki upp að sinna bæði þingmennsku og störfum bæjarstjórnar. Því geri hún það með trega að segja sig frá bæjarstjórn."
Eiríkur St. Eiríksson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 22:04
Í mínum huga skiptir það ekki mestu máli á hvaða forsendum Ragnheiður tók þessa ákvörðun, heldur að hún tók hana. Það er að segja að hún fann að þessi tvö störf sköruðust og erfitt var að vinna þau á sama tíma. Þó get ég sagt að ég hefði frekar viljað sjá aðrar ástæður en nefndar eru í athugasemdininni hér að ofan.
En svo geta menn líka velt því fyrir sér hvort að skyldur hinna sem nefndir eru í frétt RUV stangist aldrei á tímalega séð, svo að maður byrji nú ekki að hugsa um hagsmunaárekstra.
G. Tómas Gunnarsson, 24.10.2007 kl. 03:01
Alveg ótrúlegt að horfa uppá Kristján Þór Júlíusson stjórna öllu hérna á Akureyri þó svo að hann sé alþingismaður, Ragnheiður ætti að lesa aðeins yfir honum um þetta mál. Held að allir Akureyringar yrðu frelsinu fegnir ef Kjúlli sinnti bara alþingi og gerði það ábyggilega vel en hans tími er liðinn í bæjópólitíkinni hérna.
Rúnar Haukur Ingimarsson, 24.10.2007 kl. 08:53
Það er með ólíkindum hve miklir dugnaðarforkar sumir þingmenn eru: Sitja á Alþingi, sitja í sveitarstjórn og stunda meistaranám við háskóla. Vonandi verður ekkert útundan.
Einn að austan (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 20:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.