12.10.2007 | 05:25
REIf meirihlutann
Þá er það orðið ljóst að REI varð meirihlutanum að fjörtjóni. Að mörgu leyti er lítil eftirsjá af gamla meirihlutanum, alla vegna hefur framganga hans ekki verið heillandi á undanförnum misserum, sérstaklega þó hvað varðar ýmis klaufaleg smáatriði.
En eins og máltækið segir, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Því ég verð að segja að nýji meirihlutinn virkar ekki traustvekjandi á mig, þvert á móti.
En það verður fróðlegt að fylgjast með á næstu vikum hvert hinn nýji meirihluti stefnir, því enn sem komið er virðist hann ekki hafa komið sér saman um neitt - nema að vera í meirihluta.
Það verður ekki hvað síst áhugavert að sjá hvert verður stefnt með REI. Ætla Svandís og Margrét að kyngja því að samruninn við GGE verði að veruleika? Verður stefnt á fulla ferð með fé OR í áhættufjárfestingar erlendis?
Þetta verður líka athygliverð prófraun fyrir Dag, það reynir á hann sem stjórnmálamann að halda saman fjögra flokka meirihluta, og það með aðeins einn fulltrúa umfram.
En það verður ábyggilega engin lognmolla þessi tvö og hálfa árið sem er fram að næstu kosningum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.