2.9.2007 | 03:54
Horfir til framfara?
Það myndi verða stórt framfaraspor, fyrir bæði bændur og neytendur ef það tækist að efla heimaslátrun í Íslenskum sveitum, og bændur gætu unnið og selt kjöt sitt beint til neytenda.
Það væri án efa heillaríkt að samband bænda og neytenda yrði nánara, það myndi skila sér í auknum skilningi og líklegra betri og örari þróun á framleiðsluvörum bænda. Það að bændur myndu þannig standa þétt að baki sinni vöru og enginn væri í vafa um hvaðan varan væri upprunin væri líka líklegt til að skila árangri.
Persónulega gæti ég líka trúað því að þetta leiddi til lægra vöruverðs þegar fram liðu stundir, enda treysti ég bændum fullkomlega til að gera þetta á hagkvæmari hátt en milliliðakerfið býður upp á í dag.
Auðvitað má að nokkru leyti segja að þetta sé ekkert nýtt, heldur aðeins lögleg útfærsla á því sem hefur verið að gerast í sveitum landsins í mörg ár. Alla vegna var það svo að á meðan ég bjó á Íslandi keypti ég gjarna kjöt beint frá bónda og var ekki svikinn af þeim viðskiptum. Keypti enda af sama bóndanum haust eftir haust.
P.S. Ekki þekki ég vel til í reglugerðarfargani ESB, en mér þykir það nokkuð merkilegt að það sé spurning um að "endurtúlka" gildandi reglur til að heimaslátrun sé möguleg. Ef til vill þarf sambandið aðeins að fá sér fleiri "túlka", þá færi reglugerðirnar líklega strax að verða bærilegri.
Vilja slátra heima | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Kartoflubændur ættu einnig að gera meira af því að selja kartöflur beint, í stað þess að láta eingöngu stórmarkaði ráða verði.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 2.9.2007 kl. 16:21
Þetta er gott innlegg og umræðan þörf. Það er líklega groddalega að orði komist þegar mér verður það á að kalla eftir því að bændur vakni af þeim sofandahætti sem birtist í samþykki allra þeirra skelfilegu reglugerða sem settar eru til að tryggja milliliðakerfið.
Bein sala frá búum er þróuð atvinna í mörgum Evrópulöndum. Við höfum látið sem við vissum þetta ekki og kokgleypt hverja vitleysuna frá Brussel annari heimskulegri. Fyrir ekki mörgum árum gekk það fjöllunum hærra að taðreyking væri ekki reglugerðarþursum þóknanleg og spurning hvenær þessi ósómi yrði gerður refsiverður! Flestir trúðu þessu, þar á meðal ég. Fulltrúi heilbrigðis á Austurlandi stöðvaði konuna í torfbæ ævintýrisins í Sænautaseli við að selja ferðamönnum þjóðlegar veitingar! Reyndar var þetta bann afturkallað af fullorðnum embættismönnum.
Matreiðslukunnátta húsmæðranna og bændanna er á undanhaldi með nýrri kynslóð. Þessi kunnátta og það að varan er framleidd á upprunastað er heillandi markaðsvara og verðmæt. Og eins og þú bentir á er þarna vettvangur fyrir aukin tengsl milli framleiðenda og neytenda sem eru mikils virði í fjölmörgu tilliti.
Vonandi styttist í að það verði lygilegur brandari að litlum sláturhúsum í dreifðum sveitum Íslands hafi verið útrýmt. Útrýmt til að skapa atvinnu fyrir Pólverja í sláturhúsi K S á Sauðárkróki. Og sláturlömbunum ekið á þriggja hæða gripavögnum austan frá Breiðdalsvík og vestan úr Ísafjarðardjúpi.
Umræða af þessu tagi er nauðsynleg og hana þarf að efla.
Árni Gunnarsson, 2.9.2007 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.