30.8.2007 | 00:27
Að éta elginn
Það verður að segja það eins og er að það er ólíkt huggulegra að éta elginn en að vaða hann. En það var einmitt það sem fjölskyldan að Bjórá gerði í kvöld. Það er að segja át elginn.
En við Bjórárhjónin höfum verið á faraldsfæti undanfarna daga, verið að leita að borðstofuhúsgögnum. Þar sem hugurinn hefur helst staðið til massívra timburhúsgagna, þá höfum við keyrt hér um nærsveitir Toronto og skoðað húsgögn sem flest hver eru framleidd af Mennonitum, en þeir framleiða húsgögn upp á "gamla mátann", ef svo má að orði komast.
Við erum enn á "skoðunarstiginu" en höfum séð ýmis athygliverð húsgögn, en það sem skiptir þó ekki minna máli er að skondrið um sveitirnar og smábæina er harla skemmtilegt. Það þarf líka að stoppa reglulega, til að kaupa ís, nú eða synda í einhverju vatninu, það þarf líka að kaupa eitthvað að borða, nú eða bara pissa í vegarkantinn.
En hér og þar má finna "köntrí stors" og í einni slíkri rákumst við á elgskjöt ásamt ýmsu öðru góðgæti. Það voru keyptar tvær steikur sem eru búnar að bíða í ísskápnum þangað til í kvöld.
Í stuttu máli sagt, þá var þetta hið ljúfasta kjöt, fíngert og bragðgott. Hóflega kryddað með salti, pipar og olívuolíu og hent á grilið. Grillaður maís með, tómatsósa (gerð úr tómötum og kryddjurtum úr garðinum) og Franskt rauðvín. Ákaflega hugguleg blanda.
Í fyrsta skipti, en ábyggilega ekki að síðasta sem elgur verður á borðum hér að Bjórá.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.