27.8.2006 | 14:44
Türkçe Sevindirmek
Ég get ekki neitað því að mér fannst tyrkneski kappaksturinn frábær skemmtun, úrslitin voru ekki alveg eins og ég hefði kosið, en það vantaði ekkert upp á aksturinn.
Það var frábært að sjá Felipe Massa vinna sinn fyrsta sigur, enda þótt hann væri reyndar miklu minna í mynd en hann ætti skilið, en skiljanlega var myndavélunum beitt meira á kappakstur þeirra Schumacher og Alonso, sérstaklega í lokin. En Massa var vel að sigrinum kominn og keyrði fantavel og án sjáanlegra mistaka.
Alonso var heppinn, náði 2. sætinu, en þannig er það oft með meistara, þeim fylgir einhver óútskýrð heppni. Ef öryggisbíllinn hefði ekki komið út, er mjög líklegt að Ferrari hefði unnið 1 - 2 og Massa hefði hleypt "Skósmiðnum" fram úr, þannig er það. En það þýðir ekkert að sýta þetta, öryggisbíllinn kemur út eftir ákveðnum reglum, stundum tapa ökumenn stunda græða þeir á því.
Það verður heldur ekki af "tígulgosanum" tekið að hann varðist vel, keyrði skemmtilega undir lokin þegar Schumacher sótti sem harðast að honum.
Það réði ekki síður úrslitum að Schumacher missti bílinn út af á mjög mikilvægu augnabliki, ef það hefði ekki komið til, hefði hann nær örugglega náð að fara fram úr Alonso í seinna þjónustuhléinu. Þessi keppni var því númer 2 í röðinni yfir "keppnir glataðra tækifæra" fyrir Schumacher.
Mistök hans í tímatökunum og svo aftur í keppninni í dag, kosta hann möguleikann á að sækja á Alonso, sem í staðinn eykur forskot sitt um 2. stig. Jákvæði punkturinn er að nú munar aðeins 2. stigum á Ferrari og Renault í keppni bílsmiða.
En ennþá er keppnin galopin, nú eru 4. keppnir eftir, en Schumacher verður að gera betur en um þessa helgi, ef hann á að hampa titlinum.
Að lokum sendi ég mínar samúðarkveðjur til aðdáenda Kimi "seinheppna" Raikkonen. Það er með eindæmum hvað óheppnin eltir hann. Mér lýst ekki nema mátulega á að fá hann yfir til Ferrari eins og oft er talað um, þessi óheppni er ekki einleikin.
En nú bíð ég bara eftir Monza eftir 2 vikur, þá er krafan Schumacher 1 og Massa 2, og engar refjar.
Massa vinnur jómfrúarsigur sinn í formúlu-1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.