8.8.2007 | 05:03
Stækkandi skattstofn
Meðfylgjandi frétt birtist á mbl.is fyrir nokkrum dögum. Þó að það sé vissulega ástæða til að gleðjast yfir því að eignir Íslendinga í íbúðarhúsnæði hafi aukist mikið þá er líka þörf á að velta fyrir sér öðrum hliðum.
Þó að ekki komi fram í fréttinni hversu mikið af eignaaukningunni eru nýjar eignir og hvað mikið hún skýrist með hækkun eigna, þá held ég að óhætt sé að segja að hækkun á íbúðarhúsnæði hefur verið veruleg á undanförnum 5 árum.
Þó að vissulega sé ástæða til að gleðjast þegar eignir manns og annara aukast, þá fylgir þeirri aukningu nokkur óþægindi, því að ekki mega fasteignir auka verðgildi sitt án þess að sveitarfélög telji sig eiga rétt (sem þau eiga lögum samkvæmt) til að auka álögur á eigendur þeirra.
Það má segja að þó að íbúðarhúsnæði hafi því sem næst tvöfaldast í verði á sumum svæðum á síðastliðnum 5 árum, hafi notagildi þess ekki aukist að sama skapi, heldur staðið í stað (ja, nema auðvitað til veðsetningar). Þess heldur búa margir því miður ekki svo vel að launatekjur þeirra hafi tvöfaldast á sama tíma. Þjónusta sem íbúar njóta frá sveitarfélaögunum hefur að öllu jöfnu ekki tvöfaldast heldur.
Það væri fróðlegt að sjá útreikninga um hve fasteignagjöld hafa hækkað á undanförnum 5 árum, borið saman við launahækkanir á sama tíma.
Sem betur fer felldi síðasta ríkisstjórn niður eignaskatt, því ella hefði skattheimtan af eignaaukningunni verið ennþá meiri. Það er í það minnsta ástæða til að gleðjast.
P.S. Einhverra hluta vegna vildi fréttin ekki tolla við þessa færslu, en hana má finna á þessari slóð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.