Af álhausum, kálhausum og viðskiptaráðherra

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að skiptar skoðanir hafa verið um uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi.  Hafa þeir sem hafa verið hlynntir slíkri uppbyggingu oft verið kallaðir "álhausar" svo að ég hafi séð.

En það hafa líka reglulega komið fram hugmyndir um að það þurfi að tryggja garðyrkjubændum hagstæðara orkuverð og er þá oft miðað við að það eigi að vera sambærilegt og er til álvera.

Jafnvel hefur heyrst slagorðið, "Sömu kjör fyrir ál og kál". 

Fylgjendur þess yrðu þá líklega kallaðir "kálhausar" ef sami stíllinn yrði notaður.

Fyrir nokkru kom svo fram að viðskiptaráðherra er mjög áfram um að tryggja garðyrkjubændum lægra raforkuverð.  Ráðherranum er líklega nokkur vorkunn þegar byrjað er að fjalla um þetta mál, enda garðyrkjubændur margir í hans kjördæmi, en persónulega get ég ekki skilið hvers vegna þetta sé mál sem ríkisstjórnin ætti að sjá um.

Raforkuverð er samningsatrið á milli seljenda (Landsvirkjun eða aðrir) og kaupenda (í þessu tilviki garðyrkjubændur).  Ef garðyrkjubændur vilja fá sama eða svipað verð og stóriðja fær í dag, þurfa þeir líklega að kaupa svipað magn og stóriðjuver.  Og ekki bara á daginn, eða aukið magn á veturna, heldur sama magnið, allan sólarhringinn allan ársins hring.

Nú veit ég ekki hver orkuþörf garðyrkjubænda er, eða hvort hún samanlagt slagar upp í orkuþörf eins stóriðjuvers, en ef svo er ekki er þetta auðvitað tómt mál að tala um.  En ef svo er er auðvitað lang best að garðyrkjubændur sameinist um að kaupa rafmagnið af frameliðenda.  Þeir geta svo annað hvort byggt upp sitt eigið dreifikerfi, eða samið um dreifingu við þá sem eiga kerfi fyrir.

En ríkið á ekki að koma að því að tryggja einum hópi neytenda betri kjör en öðrum.

Svo er það líklega umdeilanlegt hvort að það sé Íslenskum neytendum til hagsbóta að hvetja garðyrkjubændur til að framleiða meira, með því að tryggja þeim betri kjör.  Meiri framleiðsla gæti hæglegar endað með því að niðurgreiðslur á framleiðslunni þyrfti að auka, nóg greiðir almenningur samt.

Best væri fyrir neytendur að auka innflutning og lækka þannig verð, enda keppir jafnvel lágt raforkuverð seint við kostnað hjá þeim sem nægir sólarljósið.

Það væri sömuleiðis óskandi að viðskiptaráðherra beitti sér fyrir viðskiptafrelsi, jafnt í raforkusölu sem annars staðar, þar með talið grænmetissölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill!. Fólk gleymir því líka að stóriðjuver er ekki bara stórnotendur á orku, jafnt allt árið, heldur er einmitt dreifikerfið margfalt ódýrara á selda kw stund.

En svo eru líka fleiri atvinnugreinar sem nota töluvert rafmagn. Sjávarútvegsfyrirtæki = þorskhausar. Búfjárændur = moðhausar. Fiskeldis, minka og refabændur = klikkhausar....

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2007 kl. 03:44

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Það eru margir sem ekki virðast átta sig á þeim reginmun sem er á rafmagni til stóriðju annarsvegar og hinsvegar til annarra notenda.

Tryggvi L. Skjaldarson, 8.8.2007 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband