21.8.2006 | 20:28
Hæglát sumarpólítík - þriðji hluti
Enn eru menn að koma fram og lýsa yfir áhuga sínum á þingsætum, eða í það minnsta sæti á framboðslistum. Fyrir nokkrum vikum bloggaði ég um N-A kjördæmið og sagði erfitt að stilla þar upp lista svo að allir væru sáttir og einnig að flokkarnir myndu huga að akureyringum fyrir lista sína.
Á vef Samfylkingarinnar á Akureyri má sjá tvö nöfn sem komin eru í umræðuna þar á bæ. Varaþingmaðurinn Lára Stefánsdóttir búin að lýsa því yfir að hún sækist eftir öðru sæti listans, en Benedikt Sigurðarson (fyrrum stjórnarformaður og núverandi stjórnarmaður Kaupfélags Eyfirðinga) gefur ekki upp ákveðna stöðu, þó að hann neiti því ekki að til framboðs sé hann hvattur.
Það má líklega segja að það sé tímanna tákn, að sterkar líkur séu á því að stjórnarmaður í KEA skuli vera á leið í framboð fyrir annan flokk en Framsóknarflokkinn.
Alþingismennirnir Kristján L Möller og Einar Sigurðarson hafa enn sem komið ekki gefið út neinar yfirlýsingar um hvort þeir sækist eftir áframhaldandi setu, en þeir sem ég hef heyrt í töldu þó á því yfirgnæfandi líkur.
Kjördæmisráð flokksins hefur lagt til að haldið verði prófkjör (ekki tilgreint hvernig) þannig að það er ljóst að nokkur barátta er í uppsiglingu.
"Mínir menn" eiga ekki von á því að Lára nái að hrista upp í listanum, en sögðu að Benedikt Sigurðarson gæti farið langt ef hann ákveði að gefa kost á sér, jafnvel tekið 1. sætið, en hann myndi nær örugglega sækjast eftir því ef hann færi fram. Þeir bættu því svo við að margir biðu spenntir eftir því hvaða stefnu málflutningur Samfylkingarinnar tæki í þessu "stóra álverskjördæmi", þar sem er verið að byggja eitt fyrir austan og menn vonast eftir öðru á Húsavík.
Sjálfstæðismenn eru að sjálfsögðu einnig farnir að huga að sínum lista, en þar heyri ég oftast nefnt nafn Þorvalds Ingvarssonar, en hann var í 6. sæti listans á síðustu kosningum og segjast flestir reikna með því að hann verði ofar í þetta sinn. Mun hann hafa lýst áhuga sínum á að vera í 1 til 3. sæti listans í viðtali við eitthvert heimablaðið.
Önnur nöfn sem hafa "farið á flot" í umræðunni eru t.d. Davíð Stefánsson, fyrrverandi formaður SUS og Varðar FUS á Akureyri, Illugi Gunnarsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, en hann er fæddur á Siglufirði. Menn voru þó almennt á því að mjög ólíklegt væri að Illugi færi fram í "dreifbýlinu". Nöfn að austan hafa meðal annars verið Hilmar Gunnlaugsson, sem nú er varaþingmaður og Soffía Lárusdóttir, bæjarfulltrúi á Héraði.
Ekki þarf að endurtaka orðróminn um Kristján Júlíusson, bæjarstjóra, hann ætti að vera öllum þekktur.
Arnbjörg Sveinsdóttir sækist örugglega eftir áframhaldandi þingsetu og vill án efa hækka á listanum, í það minnsta í annað sætið.
Annars bíða sjálfstæðismenn víst margir eftir því að vita hvort Halldór Blöndal (Halldór verður 68 ára á fimmtudaginn kemur) ætli fram aftur eður ei, en um það eru menn alls ekki vissir. Menn sögðu að fjör færist ekki í leikinn fyrr en sú ákvörðun liggur fyrir. Ef Halldór ákveður að hætta, myndast tómarúm efst á listanum sem margir munu stefna í og verður það án efa nokkuð harður slagur.
Fundur kjördæmisráðs flokksins var ákveðin fyrir nokkuð löngu síðan og er 14. og 15. október.
Ekki eiga "mínir menn" von á breytingum hjá VG, þar verði Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Hlynur "bindislausi" Hallsson í efstu sætunum, en þó hefur nafn Valgerðar Bjarnadóttur verið nefnt í mín eyru, en hún hafnaði sæti í lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri síðastliðið vor, eftir að hafa lent í 2. sæti í prófkjöri.
Ég hef ekki heyrt mikið um framboðsmál Framsóknarflokksins í kjördæminu, en þó hafa flogið fyrir nöfn eins og Jakob Björnsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri. Jakob reyndi fyrir sér í prófkjöri 1999 með litlum árangri og endaði í 4. sæti, þykir það heldur vinna á móti honum. Sigfús Karlsson sem skipaði að mig minnir 9. sætið á framboðslistanum, er sagður stefna hærra í vor, og svo hafa einir 2. aðilar nefnt að gamli Tímablaðamaðurinn og "Framsóknarflokkssérfræðingurinn" Birgir Guðmundsson, gæti verið áhugaverður frambjóðandi fyrir Framsóknarflokkinn. Valgerður og Birkir Jón virðast nokkuð traust í sessi en spurningarmerkið er sem fyrr sett á hvort að Dagný hyggist halda áfram.
Svona að lokum er auðvitað rétt að setja hér "disclaimer". Lesendur bið ég að hafa í huga að hér er ég oft að hafa eftir "sögusagnir" og ber ekki að líta á þetta sem staðfestar fregnir. En auðvitað eiga svona vangaveltur rétt á sér, og geta verið til yndisauka.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.