Þetta er allt saman eitt stórt samsæri!!

Það hefur oft vakið athygli mína hve áfjáðir margir virðast að telja sannleikann alla jafna hulinn, það sem fram komi í fréttum sé ekki sannleikurinn og um margskonar samsæri og sé að ræða og "leikrit" sett á svið til að villa um fyrir almenningi.

Nýjasta dæmið um þetta er auðvitað fullyrðingar um að handtökur á meintum hryðjuverkamönnum í Bretlandi og Pakistan sé aðeins blekkingarleikur, partur af stærra samsæri til að beina athyglinni frá þeim vandamálum sem umlykja þá félaga Bush og Blair, og jafnframt réttlæta áfram haldandi hernað gegn múslimum og svo til að skerða lýðréttindi almennings.

Þetta er líklega nýjasta samsæriskenningin í langri röð.  Þar er líklega fyrst að telja 9/11, en ekki eru síður til margar samsæriskenningar um t.d. morðið á Kennedy, andlát Diönu, AIDS (hef séð kenningar um að veiran hafi ýmist verið smíðuð af Bandaríkjamönnum eða Sovétríkjunum heitnum), að "fyrsta" tunglferðin hafi aldrei verið farin, morðið á Lincoln, svo er það líka bílvélin sem gengur fyrir vatni og bílaframleiðendur hafa "grafið" í gleymskunni, og ennfremur er vert að minnast á geimverurnar sem bandaríski flugherinn geymir í skýlum sínum. 

Þetta er auðvitað langt í frá tæmandi listi, og ekki má heldur gleyma öllum þeim samtökum sem stefna á heimsyfirráð, eða svo gott sem stjórna heiminum nú þegar.  Þar má nefna "gyðinga", frímúrara, Bilderberg og svo Illuminati sem hafa fengið "uppreisn æru" með bókum Dan Brown.

En um samsæriskenningar má lesa t.d. á Wikipedia.org  Síðan má finna aragrúan allan af vefsíðum, annaðhvort tileinkaðar einni ákveðinni samsæriskenningu, nú eða mörgum.  Samsæriskenningar hafa enda öðlast líf sem aldrei fyrr eftir tilkomu internetsins.

En hvað skyldi það nú vera sem gefur öllum þessum samsæriskenningum líf og fær fólk til að trúa á þær?  Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. 

Líklega er það þó oft vegna þess að sannleikurinn passar ekki inn í það sem fólk vill trúa. Einfaldur sannleikurinn styður ekki heimsmynd þess.  Stundum kann sannleikurinn að hljóma ótrúlegar en samsæriskenningar.  Ef til vill er fólk stundum líka áfjáð í að sjá eitthvað sem aðrir ekki sjá, vera gleggri en "illa upplýstur pöpullinn", láta ekki "blekkjast" af áróðri stjórnvalda og annara "illra afla".  Aðrir hafa illan bifur á stjórnvöldum og sumir virðast trúa því að ekkert illt hendi án þess að stjórn Bandaríkjanna (eða CIA) standi á bakvið það.

Ef allar þessar kenningar eru sannar er líklega staðan sú að u.þ.b. helmingur hinn vestræna heims er í fullri vinnu við að viðhalda "leiktjöldum" fyrir hinn helmingin.  Alla vegna þarf drjúgan starfskraft og fé til að viðhalda "blekkingunni" sem margir vilja meina að sé í gangi.  Það er líka ljóst að enginn "hlekkur" í þeirri keðju má bresta, þá kemur "sannleikurinn" fram.

En hvað sem veldur er það ljóst að samsæriskenningar eru ekki að hverfa.  Líklega eru þær sterkari nú um stundir en nokkru sinni fyrr.  Líklega má þakka það internetinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband