Skilaréttur til fyrirmyndar

Það verður að segjast eins og er að mér þykir margt skemmtilegra en að versla.  Helst er að það kitli aðeins að kaupa einhver ný tæki og "gadgets", en að öllu jöfnu þykir mér ekki eftirsóknarvert að þvælast í verslunum, allra síst þar sem afgreiðslufólk er sífellt að bjóða fram aðstoð sína, spyrja hvernig mér líði (how are you today?) og þar fram eftir götunum.

Eitt verð ég þó að minnast á sem gerir það heldur betra en ella að versla hér í Kanada, en það er hvað kaupmenn eru liðlegir við að taka vörur sínar til baka, og það jafnvel þó að þær hafi verið notaðar örlítið.  Þetta er atriði sem íslenskir starfsbræður þeirra mættu athuga.

Ég keypti mér til dæmis rakaeyði fyrir u.þ.b. 10 dögum síðan.  Það var þessi hér.  Hann keypti ég í Rona.  Hann virkaði ágætlega, en þó var hann fullmikið í gangi að mínu mati, varla slökkti á sér.  Síðan rakst ég á þennan hér í Costco, bæði afkastmeiri og í þokkbót örlítið ódýrari.

Ég pakkaði þeim "gamla" saman, í upprunalega kassann, og skundaði í í Rona, sagðist hafa keypt þennan rakaeyði fyrir u.þ.b. 10 dögum, en ég þyrfti afkastameir og vildi skila þessum.  Sýndi kvittunina og ekkert mál, rétti yfir kreditkortið mitt (sem ég hafði borgað með) og þeir bakfærðu gripinn.  Keyrði yfir í Costco og keypti hinn, sem nú malar eins og köttur hér í kjallaranum.

Sömu sögu er að segja af reykskynjurum sem ég keypti í Home Depot.  Fyrir mistök þá keypti ég reykskynjara sem þurfti að beintengja í rafmagn, og það sem verra var, ég klippti plastið af öðrum þeirra.  Síðan fór ég að skila, tók þann sem var í ónýtu umbúðunum með og spurði hvort að þeir myndu taka hann til baka, t.d. fyrir hálfvirði?  Táningsstrákurinn sem var að vinna þarna spurði hvort að allir hlutirnir væru með og þegar ég gaf jákvætt svar við því, svaraði hann ekkert mál og endurgreiddi mér fullt verð.

Það sem meira er, ef að viðskiptavinurinn framvísar kvittun, er alltaf greitt til baka "í sama". Ef þú hefur greitt með korti er bakfærrt, ef þú hefur greitt með peningum færðu peninga til baka.  Ef þú hins vegar hefur ekki kvittun, þá gefa þeir þér kreditnótu sem gildir aðeins í viðkomandi verslun.

En þetta fyrirkomulag kann ég vel að meta, og það sem meira er, ég held að það skili sér í viðskiptavild, ég er t.d. óhræddari við að kaupa hlutina, þar sem ég veit að ég get skilað þeim.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband