Ný framvarðarsveit

Þá er það orðið ljóst hvernig ný forysta Framsóknarflokksins eru skipuð.

Jón Sigurðsson er formaður, Guðni Ágústsson er varaformaður og Sæunn Stefánsdóttir er ritari.  Það er rétt að óska þeim öllum til hamingju með kosninguna.

Ekki var spá sú sem ég setti fram hér fyrir nokkru, nema 33.3% rétt.  Ég spáði réttilega að Jón yrði formaður, en gaf þeim Jónínu og Birki Jóni hin embættin.  Það er því ljóst að sú spá er ekki til að stæra sig af.

Ég er þó ekki frá því að það hefði verið gæfuríkara fyrir framsóknarmenn að fara eftir minni spá.  Jónína hefði sómt sér betur sem varaformaður en Guðni.  Á hitt ber þó að líta að kosning Guðna tryggir líklega meiri frið innan flokksins og gamla bændaafturhaldið (sem ég tel Guðna til) fær "bein að naga" og getur sæmilega unað við sitt.

Þetta verður því líklega að teljast ósigur fyrir hinn almenna neytanda, ólíklegt verður að teljast annað en að Guðni telji sig hafa fengið umboð til að berjast með "kjafti og klóm" gegn nútímavæðingu verslunar með landbúnaðarafurðir.  En Halldór gaf ádrátt um slíkt í kveðjuræðu sinni, en það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða stefnu Framsóknarflokkurinn tekur í þessu máli.

Það var lítið annað hægt í stöðunni fyrir alþingismennina Kristin og Birki Jón, en að draga sig í hlé, þeir enda líklega talið að það liti afleitlega út fyrir flokkinn ef forystusveitin hefði verið skipuð 3. karlmönnum.  Það hlýtur líka að teljast gott fyrir Jón að fá eindreginn stuðningsmann sinn í framvarðarsveitina.

Ég efa ekki að við eigum eftir að sjá vinstri væng stjórnmálanna tala um að konum hafi verið hafnað og þar fram eftir götunum.  Bæði Siv og Jónínu hafi verið hafnað af Framsóknarfólki og og tveir karlar valdir.  Persónulega gef ég ekkert fyrir svona málflutning.  Ég lít svo á að Jón og Guðni, ásamt Sæunni auðvitað hafi verið valin.  Hér sem allsstaðar annarsstaðar stendur valið á milli einstaklinga, kjörið er ekki á milli kynja.  Hefði Siv eða Jónína unnið kjörið, hefði líklega engin staðið upp og sagt að þær hefðu verið kjörnar af því að þær eru konur, það er jafn órökrétt að halda því fram að þeim hafi verið hafnað vegna þess.

Sjálfur er ég ekki sammála vali framsóknarfólks (en ég er ekki framsóknarmaður og hef því einungis umsagnarrétt um málið) en það gildir sem áður, kjósendur hafa alltaf rétt fyrir sér.  Í þessu tilfelli þeir sem höfðu atkvæðisrétt á flokksþingi Framsóknarflokksins.

 


mbl.is Guðni Ágústsson endurkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband