Bláber - Júgóslavar ei meir - Ný heimasíða ISG - Icarus

Fór með foringjanum og tendamömmu til bláberja í dag. Skyldum mæðgurnar eftir heima að Bjórá. Ef til vill ekki besti dagurinn til þessa arna, alltof heitt, en við skelltum okkur samt.  Reyndar er þetta ekki alveg sama stemmningin og á Íslandi.  Hér förum við á bóndabæ, og borgum svo kílóverð fyrir það sem við tínum.  Þetta eru svo "high bush" ber, sem eru að mínu mati ekki alveg sambærileg við þessi bláber sem við þekkjum að heiman.

Hitastigið var eitthvað ríflega 30°C, þannig að jafnvel berjatínsla kallaði fram dágóðan svita.  En við tíndum samt eitthvað um 4. kíló af bláberjum.  Það var því nauðsynlegt að stansa á heimleiðinni og kaupa rjóma og smá jógúrt sem ég er í þessum töluðum orðum að reyna að breyta í eitthvað sem líkist skyri í ísskápnum.

Við stönsuðum svo í króatískri kjötbúð á leiðinni heim, ég keypti pylsur, smá þurkað/saltað svinakjöt og pítubrauð.  Ekki svo sem í frásögur færandi nema það að konan hringir í mig á meðan ég er vafra þarna inni.  Ég segi henni að við séum á leiðinni heim, ég sé bara að versla í júgóslavnesku búðinni.  Afgreiðslukonan starði á mig á sagði með þungri áherslu:  Króatísku búðinni.

Síðan lauk ég samtalinu við konuna.  Þá sagði ég við konuna, að ég hefði hreinlega ekki vitað betur og bæðist afsökunar á fáfræði minni.  Þá bættist í hópinn karlmaður sem var klæddur í slátrarsvuntu og sagði að það væri minni móðgun að vera kallaður serbi en júgóslavi.  Ég ítrekaði afsökunarbeiðni mína, sagðist nú vera saklaus sveitadrengur ofan af Íslandi og ég vissi hreinlega ekki betur. 

Það lifnaði yfir þeim þegar ég minntist á Ísland.  Lofuðu bæði Ísland fyrir að hafa verið fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu og sögðu að fáfræði mín væri ekkert til að æsa sig yfir  og þeim hefði alltaf langað til að heimsækja Ísland. 

Sögðu mér þó að það færi alltaf í skapið á þeim að vera kölluð júgóslavar og þeim gengi illa að koma kanadabúum í skilning um að það væri munur á.  Ég sagði að þau hefðu gert rétt í að koma mér í skilning um þennan misskilning og það væri fyrsta skrefið.  Ef þau leiðréttu ekki fólk, breyttist aldrei neitt.  Við skildum sem bestu vinir.

Fékk senda í pósti slóðina á nýja heimasíðu ISG - Íslenskra Skatt Greiðenda.  Veit ekki hverjir standa að síðunni, en þetta er ágætis framtak.  Fékk mig alla vegna til að brosa út í annað.

Var latur í gærkveldi og glápti á sjónvarpið. "Sögu rásin" varð fyrir valinu sem oft áður.  Datt þar inn á heimildarmynd um langanir þýskra nazista til að ráðast gegn Bandríkjunum í seinni heimstyrjöldinni.  Þeir höfðu víst sterka löngum - vel umfram getu - til að ráðast á New York með sprengjuregni og drepa og limlesta sem flesta þar til að sá hræðslu í hinn almenna borgara.

Var farið yfir hin margvíslegustu plön, Messerschmitt 264 fékk auðvitað mikla umfjöllun, sem og skemmdarverkaáætlanir og þeir þýsku hryðuverkamenn sem voru gripnir.

Hitt vakti þó mesta athygli mína, þegar fjallað var um áætlanir þjóðverja til að hernema Ísland og fá þannig aðstöðu til að senda sprengjuflugvélar vestur um haf.  Þó ég hafi áður heyrst minnst á áhuga nazista til að hernema Ísland, man ég ekki eftir því áður að hafa heyrt "codenamið" fyrir þessa áætlun, en henni gaf þýski herinn nafnið "Icarus".

Ég var eitthvað að reyna að "googla" þetta í dag, með afskaplega litlum árangri.  Þannig að ef einhver getur bent mér á eitthvað lesefni um "Icarus" væri það afskaplega vel þegið, sérstaklega ef það væri nú aðgengilegt á netinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband