Blessað lambakjötið

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir lambakjöt ágætt, ef til vill ekki jafn gott og vel valinn nautavöðvi, nú eða hreindýrakjöt, eða kjöt af villigelti, en samt finnst mér lambakjöt ákaflega gott.

Íslenskt lambakjöt er fínn matur, en sérstaklega hef ég þó hrifist af því þegar búið er að láta það hanga í reyk af þess eigin skít.  Það er "árstíðabundið lostæti" ef svo má að orði komast, enda erfitt að halda jól án þess, vöntun á því á þeim árstíma veldur andlegum erfiðleikum.

Það voru því góðar fréttir sem ég las á visir.is, þess efnis að nú hafi náðst samningar þess efnis að flytja megi umrætt lambakjöt til Kanada.

Það fylgir að vísu með í fréttinni að engin framleiðandi hafi áhuga á því að sinna Kanadamarkaði, en ætli sér að fylgjast með.

Þetta er líklega vandi Íslensks landbúnaðar í nokkurri hnotskurn.  Flestum þykir afurðirnar ágætar, sumar verulega góðar aðrar að vísu síðri, en fáir eru reiðubúnir til að greiða það verð sem Íslenskir bændur þurfa.  Því hefur flest árin verið tap á sölu lambakjöts til Bandaríkjanna og því eðlilegt að afurðastöðvum þyki ekki álitlegt að leggja í markaðssetningu í Kanada.

Það eru þeir sem stendur lítið annað til boða, vegna verndartolla og innflutningshafta, sem kaupa framleiðsluna, borga hana í tveimur hlutum, fyrst með sköttunum sínum og svo "seinnihlutann" við kassann.

Hitt er þó ljóst að alltaf yrði einhver sala í Íslensku lambakjöti, bæði vegna þess að vissulega eru gæðin til staðar og margir yrðu til þess að gera sér dagamun með slíku.  En oft yrði það líka buddan sem myndi ráða, ef ekki væri slík ofur neyslustýring eins og á sér stað í dag.

En það verður ágætt að geta kippt með sér einu og einu hangikjötslæri, svona ef auðvelt verður að verða sér út meðfylgjandi pappíra.  Jafn líklegt er þó að það verði flutt hingað að Bjórá á gamla mátann, þ.e.a.s. smyglað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband