Nú þegar ég var eitthvað að þvælast á vefnum, rakst ég inn á vefsíðu alþingismannsins Björgvins Sigurðssonar, www.bjorgvin.is . Þar rakst ég m.a. á eftirfarandi fullyrðingu:
"Til að framkvæma samanburð á því hvernig er að vera á húsnæðislánamarkaði á Íslandi og í Evrópu þá er það hægt með einföldum hætti í reikningsvél Frjálsa fjárfestingabankans.
Ímyndið ykkur að þið getið fengið evrópskt lán, merkið við jafnar afborganir efst til vinstri, setjið t.d. 15 milljónir í næsta reit og því næst 3% vexti (hægt að fá lægri vexti), veljið óverðtryggt lán og 480 gjalddaga. Neðst kemur upphæð íslenska lánsins sjálfkrafa. Veljið t.d. 3,5% verðbólgu, gætið þess að velja 40 ár, ýtið á reikna og þá blasir munurinn við:
Evrópskt lán Íslenskt lán
Meðalgreiðsla næstu 12 mánuði 68.321 kr. 75.092 kr.
Meðalgreiðsla yfir allan lánstímann 50.040 kr. 154.547 kr.
Afborgun 15.000.000 kr. 15.000.000 kr.
Vextir og verðbætur 9.018.990 kr. 59.184.215 kr.
Samtals greitt: 24.018.990 kr. 74.184.215 kr.
Það semsagt munar heilum 50 milljónum króna eftir því hvort verslað er húsnæði á Íslandi eða í Evrópu og hálfum mánaðarlaunum afborganirnar á mánuði að jafnaði yfir allan lánstímann. "
Greinina alla má finna hér.
Þetta eru sláandi tölur. Fyrir mig sem er einmitt nýbúinn að fjárfesta í íbúðarhúsnæði vekur þetta nokkra athygli. Hvar fæst húsnæðislán með 3% vöxtum eða lægri?
Frétt mbl.is, sem hér er tengd við þessa færslu, sýnir að stýrivextir á evrusvæðinu voru að hækka úr 2.75% í 3.00% nú stuttu eftir síðustu mánaðarmót. Eigum við þá að trúa að húsnæðisvextir hafi verið 3% eða lægri þann 27. júli, þegar þingmaðurinn ritar þennan pistil á heimasíðuna sína?
Ekki ætla ég að segja þingmanninn fara með rangt mál, til þess hef ég einfaldlega ekki næga þekkingu á evrópska húsnæðislánamarkaðnum. En hitt er alveg ljóst að ég hef hvergi getað fundið lánveitendur sem bjóða þessa vexti.
Það væri því ákaflega vel þegið ef einhver gæti vísað á þá.
Algengt er að bankar á evrusvæðinu bjóði t.d. upp á húsnæðislán með vöxtum sem eru ákveðið %stig yfir euribor vöxtum, t.d. 0.75% álag á euribor. En euribor (www.euribor.org) vexti má sjá hér, en það er nokkuð langt síðan það fyrirkomulag hefur boðið upp á vexti sem væru um eða undir 3%.
Ef lántakendur vilja síðan "frysta" vextina hækka þeir yfirleitt töluvert, enda eru bankar ekki áfjáðir í að tapa á lánum. Hér er t.d. tafla frá Bank of Ireland, yfir vexti sem þeir bjóða á húsnæðislánum. Takið sérstaklega eftir því hvernig vextirnir hækka, eftir því sem þeir eru bundnir til lengri tíma.
Hér má svo sjá Allied Irish Banks, ekki ósvipaður "strúktúr". Rétt er svo að vekja athygli á því að yfirleitt lána bankar á evrusvæðinu, ekki yfir 65 til 75% af verði fasteignar, án þess að annað hvort vaxtaálag eða kaup á endurgreiðslutryggingu komi til.
Hér má svo sjá upplýsingar um hvernig vaxtakjör hafa verið í Finnlandi undanfarin ár.
En þetta er auðvitað ekki nein hávísindaleg niðurstaða þar sem farið er yfir vaxtakjör allra banka á evrusvæðinu, og stundum hef ég séð banka bjóða betri kjör fyrsta árið eða svo.
En fullyrðing þingmannsins um að svona séu vaxtakjör almennt á evrusvæðinu stenst ekki, hvað þá að lántakendur geti verið fullvissir um að fá 3% vexti út 40 ára lánstíma. Þætti mér gaman að fá upplýsingar um hvar þannig lán fást. Auðvitað færist vaxtaprósenta upp og niður á evrusvæðinu eins og annarsstaðar, og eins og eðlilegt er þarf að borga hærri vexti eftir því sem % er fest til lengri tíma.
Hinu verður ekki mótmælt, að lánakjörin eru betri á evrusvæðinu en á Íslandi, í það minnsta akkúrat núna, en þar skiptir mestu máli hvað verðbólgan er há á Íslandi um þessar mundir. Raunvaxtastigið er hærra á Íslandi, en þar munar ekki eins miklu og ef að verðbólga er tekin með í reikningin.
Aftur vitna ég orðrétt í þingmanninn: "Þá er ótalin matarkarfan sem almennt er 40% ódýrari í Evrópusambandslöndunum en á Íslandi. Auðvital fylgja aðild ókostir og margt orkar tvímælis en ávinningurinn er ótvíræður einsog ofantalið dæmi sýnir."
Ekki þekki ég nákvæmlega hver munurinn er á matvælaverði á Íslandi og í ESB, en dreg 40% ekki í efa. Hins vegar er mjög ólíklegt að sá munur myndi jafnast út, ef Ísland gengi í ESB, en líklegast hyrfi af honum stærsti parturinn. Lega landsins yrði til þess að eitthvað af honum sæti eftir.
En hitt er staðreynd að til þess að ná þeim árangri, þarf ekki að ganga í ESB. Til þess þarf eingöngu íslenska pólítískan vilja. Vilja til að fella niður tolla, vörugjöld, kvóta og þar fram eftir götunum.
Því miður finnst mér þessi málflutningur nokkuð algengur þegar rætt er um aðild íslendinga að ESB, flest ef ekki öll tiltæk ráð eru notuð til að fegra aðildina fyrir almenningi, þá sérstaklega hvað allt verður ódýrara, en þegar betur er að gáð, reynist því miður margt af því vera "hálf sannleikur", eða jafnvel þaðan af meira útþynntur sannleikur.
Margir virðast ganga fram af meira kappi en forsjá, til að sannfæra almenning um að ESB, sé "óskalandið".
Vextir hækka á evrusvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:29 | Facebook
Athugasemdir
Hversu háa vexti við höfum á Íslandi eða hátt matarverð er
einungis pólitísk ákvörðun íslenzkra stjórnvalda hverju sinni og hefur nákvæmlega ekkert með Evrópusambandsaðild að gera. Allt annað er sósíaldemókratiskur áróður um að troða Íslandi inni í þetta Evrópusamband þar sem gallanir við aðild borið saman við kostina eru miklu fleiri. Svo einfallt er þetta nú!
Von Walter, 8.8.2006 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.