8.8.2006 | 01:06
Alltaf í nógu að snúast - Ný miðstöð - Ný þvottavél
Það er búið að vera í nógu að snúast að Bjórá í dag. Stuttu eftir klukkan 8 komu menn til að hreinsa hér loftstokkana, rétt rúmum 2. tímum síðar komu svo menn til að skipta um miðstöð. Sú nýja á að vera sparneytnari, betri hitagjafi. Það á auðvitað eftir að koma í ljós, en við verðum að vona það besta. Ekki þar fyrir að ef boðið væri upp á hitaveitu hér, væri ég í þessum töluðum orðum að skrúfa upp ofnafestingar, hugnast það mun betur, en þó er sá galli að erfitt er að nota ofnana til kælingar.
Konan er hins vegar mjög ánægð með nýju miðstöðina, sérstaklega að nú logar enginn "pilot logi" þannig að gas er ekki logandi hér allan sólarhringin árið um kring.
En það varð vel heitt hér í dag, sérstaklega þegar nýja miðstöðin var prufkeyrð, ofan á þau 30 stig eða svo sem voru hér úti. Ekki hægt að hafa neina loftkælingu í gangi, þar sem þetta virkar allt saman. Síðan var ég önnum kafinn við að skúra og skrúbba eftir allt þetta um eftirmiðdaginn.
Fyrir þá sem hafa áhuga má sjá miðstöðina hér.
Fyrir nokkrum dögum tjáði konan mér að þvottavélin sem fylgdi íbúðinni, myndi ekki duga okkur, hún væri komin að fótum fram og þvoði ekki nægjanlega vel. Þá var auðvitað farið af stað að leita að þvottavél, fyrst aðallega á netinu, en síðan í nokkrum verslunum. Enduðum á því í gær að kaupa okkur Kenmore þvottavél. Hún verður send heim eftir viku, og þá taka þeir gömlu vélina okkar.
Annars er það með eindæmum hvað N-Ameríka er eitthvað forneskjuleg hvað varðar þvottavélar. Það er eins og þeir hafi uppgötvað það fyrir fáeinum vikum eða mánuðum hvað "framhlaðnar" þvottavélar eru mikið betri, skilvirkari og sparneytnari en "topphlaðnar" þvottavélar. Vinduhraði rétt um 1000 snúninga þykir einnig alveg frábært.
Þegar ég lét það flakka að mamma hefði keypt "framhlaðna" vél rétt um ´70, og toppvélar vindi með allt að 1800 snúningum eða svo, stara menn á mig, en segja ekkert. Halda líklega að ég sé galinn.
En svona er þetta, "high tech" æðið sem geysar á Íslandi hefur ekki náð hingað, ef menn vilja svo fá þvottavélar með "suðu", verður að kaupa "high end", ef til vill er ekkert að gera með það, ég þekki það ekki nógu vel, en alla vegna var konan sátt við "Kenmorinn". Það spilaði líka stóra "rullu" að "Consumer Report" gefur þessum vélum bestu einkunn.
Foringinn, konan og tengó, voru í burtu á meðan á öllu "miðstöðvarbaslinu" gekk, komu síðan heim um kvöldmatarleytið, ég grillaði svínalund, opnaði eina rauða, við skáluðum fyrir nýju miðstöðinni og all leit allt í einu betur út.
Á morgun sendum við tengdó í ferskjutínslu, það ber vonandi góðan ávöxt.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Viðskipti, Bloggar, Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 04:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.