Dagur sá er nú er að kveldi kominn hefur verið nokkuð dægilegur. Það rigndi, þannig að þar sem fjölskyldan hafði áætlað að fara til hindberjatínslu, var planinu breytt og í staðinn haldið til Kitchener, eins og nágrannaborgunum.
Upphaflega hét Kitchener, Berlin, ef eitthvað má marka það sem mér hefur verið sagt, en það þótti víst ekki tilhlýðilegt á árum fyrri heimstyrjaldar og því var nafninu breytt.
Í Kitchener ræktum við smá erindi fyrir tengdapabba, fórum í búðir og síðast en ekki síst á "bændamarkað", "Farmers Market", í St. Jacobs, litlu þorpi þar rétt hjá. Þetta var hin fróðlegasti markaður. Bæði var þar uppboð á lifandi nautgripum, uppboðshaldari mikill listamaður, þannig að ég skildi ekki orð af því sem hann sagði, og svo var líka hægt að kaupa í matinn, kjöt, grænmeti, ávexti og auðvitað maís.
Það sem vekur athygli á markaðnum er hvað hátt hlutfall mennonita er þar, bæði sem gestir og sölufólk. Það var ekki laust við að mér finndist hálf skringilegt að sjá mennonitana, alla klædda upp á gamla mátann, innan um "típískar" kanadískar unglingsstúlkir, "með naflann úti og alles", en allir virtust sáttir við lífið og tilveruna.
Við keyptum ekki mikið, keyptum þó ferskjur, pylsur, "ferskju og rjóma" maís (peaches and cream) og smá heimatilbúið sælgæti.
Síðan var meiningin að bruna heim, en það fór þó öðru vísi en ætlað var, sátum föst á hraðbrautinni í að verða 2. tíma. Skapið var þó það gott, að ég hafði þetta af, þó að heldur væri farið að síga á ógæfuhliðina undir það síðasta.
Þegar heim var komið voru soðnir maísstönglar, pylsur hitaðar í ofninum, opnaður einn kaldur og notið lífsins.
Seinnipart kvöldsins eyddi ég svo við þá miður skemmtilegu iðja að "dýrka" upp hurðina að skrifstofunni (þar sem tölvan okkar er), en foringinn hafði læst henni og lokað á eftir sér. Enginn lykill fylgdi hurðinni, en nú verður að drífa í því að skipta, ekki seinna en á morgun.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Bloggar, Menning og listir, Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.