1.8.2006 | 03:04
Auðlegð í iðrum jarðar
Var að lesa skemmtilega frétt á visi.is, rétt í þessu. Þar var fjallað um jarðhitann á Íslandi og hvað nýting hans sparaði mikinn innflutning á olíu.
Þar kom fram að til að hita upp þau hús sem íslendingar hita með jarðhita, yrði að flytja inn olíu að verðmæti u.þ.b. 30 milljarða króna. Það er því ljóst að jarðhitinn er risastór auðlind. Ekki er minna um vert að bruni olíunnar myndi orsaka að 2,5 milljónir tonna af koltvísoxíði færu út í andrúmsloftið, en til samanburðar segir í fréttinni að allur bílafloti íslendinga losi 700.000 tonn á ári hverjuj og þykir það mikið miðað við höfðatöluna margfrægu.
Orðrétt segir í fréttinni: "Ef hita ætti heimili landsins með rafmagni myndi þurfa 5800 gígavattstundir af raforku á ári. Til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun 4600 gígavattstundir af raforku árlega. Hins vegar væri hægt að framleiða rafmagn fyrir sex sinnum fleiri heimili en nú eru í landinu með jarðvarmanum einum. Þannig væri til rafmagn fyrir um 2 milljónir manna."
Sjá fréttina hér.
Það er einnig vert að hafa í huga að íslenskir jarðvísindamenn hafa gríðarmikla þekkingu á nýtingu jarðvarma, og hefur sú þekking og það hugvit sem íslendingar ráða yfir, orðið að vaxandi útflutningsvöru, nú þegar íslendingar koma að jarðvarmavirkjunum víða um lönd.
Það er því óhætt að segja að jarðhitinn sé mikilvæg auðlind, og rétt eins og segir í fréttinni líklega mikilvægari en flest okkar gera sér grein fyrir.
Við sem fáum heitavatnið okkar úr litlum tanki, sem hitar vatnið með gasi eða rafmagni, vitum líka hvers kyns lúxus það er að hafa óþrjótandi vatn úr krananum, þegar tekin er sturta eða farið í bað, sérstaklega ef margir eru í heimili.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Tölvur og tækni, Bloggar, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.