30.7.2006 | 15:43
Bjartara yfir
Eftir frekar leiðinlegan og erfiðan föstudag, var gærdagurinn allur annar, allt virtist stefna í rétta átt. Nokkuð skemmtilegar tímatökur í "múlunni", síðan hringdi verkstæðið, þeim hafði tekist að fá dekk og skipta út undir bílnum okkar.
Síðan kom hér maður í heimsókn til að selja okkur nýja miðstöð, enduðum á því að taka tilboðinu, ný miðstöð, hreinsun á öllum stokkum, nýtt termóstat og þar fram eftir götunum. Miðstöðin sem er hér nú er 17 ára gömul, þannig að við vissum að komið væri að endurnýjun á næstu árum, þær endast sjaldnast mikið yfir 20 árin. Þannig að fyrst að tilboðið var gott, nýja miðstöðin á að vera mun betur nýtin á gasið, og það sem konunni fannst líka skipta máli, er að hún er tendruð með rafmagni. Ekkert "pilot light" lengur. En henni er frekar illa við að hafa logandi gas hér allan sólarhringinn, allt árið um kring.
Síðan var haldið í smá verslunarleiðangur. Fórum í pólskan stórmarkað hér. Mikið af pólskum og evrópskum vörum á boðstólum. Keypti mikið af alls kyns pylsum, líka nokkur Prince Polo, og svo rakst ég á lífræna mjólk í glerflöskum. Það var eitthvað sem ég varð að kaupa, þó að líterinn væri nokkuð dýr. Það er eitthvað svo dásamlega gamaldags að kaupa mjólk í gleri. Flaskan er þó ekki brún eins og ég ólst upp við, heldur glær, en sama kerfið er enn við lýði, allar flöskur eins, og þú þekkir vöruna á litnum á tappanum. Er ekki enn búinn að smakka mjólkina en bind við hana miklar vonir.
Dagurinn í dag hófst svo með sigri "Skósmiðsins" í morgunsárið, góð byrjun á deginum. Eftir hádegið verður svo haldið í samkvæmi þar sem hver kemur með hluta af mat og drykk, okkar framlag verður pólsku pylsurnar, eistneskur bjór, jafnvel eitthvað af tékkneskum og svo hvítt eða rautt. Líklega frekar hvítt, það er svo skrambi heitt hér þessa dagana að það hálfa væri nóg, því fer líklega betur á að hafa vel kælt hvítvín við hendina.
Þess vegna lítur allt út fyrir góðan dag og óska ég öllum þess sama.....
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Bloggar, Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:44 | Facebook
Athugasemdir
Ef til vill ekki skrítið að miðstöðin hjá mér er ekki alveg að virka. Hún er 50 ára gömul :)
Við hjónin þurfum að skipta ehnni út fyrir nýja við tækifæri.
Ég vona að dagurinn ykkar hafi verið góðuuuuur....
Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 30.7.2006 kl. 16:49
Bestu þakkir fyrir það, en dagurinn okkar er ekki nema rétt að byrja, klukkan núna rétt ríflega 1.
En að hinu, já 50 ára gömul miðstöð fer ábyggilega að þarfnast endurnýjunnar, en þó er rétt að hafa í huga að hún er það gömul, að hún er frá þeim dögum er hlutum var ætlað að endast, ekki framleidd með því markmiði að vera á "sérstöku tilboði".
Slíkt býðst ekki í dag, en við keyptum þó aðeins dýrari "græju", sem á að endast betur, henni fylgir 20 ára ábyrgð, en vissulega á eftir að koma í ljós hvernig hún reynist. Líklega verður hún þó sett upp í vikunni.
Bestu kveðjur....
G. Tómas Gunnarsson, 30.7.2006 kl. 17:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.