Vandmeðfarið

Það er gott að verið sé að vinna í málefnum aldraðra, en allar bætur og tekjutengingar eru vandmeðfarnar.

Ég hef aldrei getað mótað mér fastar og óbreytanlegar skoðanir hvað þetta varðar.  Það sama gildir um þessa tillögugerð.

Það er ágætt að hvetja þá sem starfsorku hafa til að nýta hana með því að afnema allar skerðingar á bótum sem yrðu vegna atvinnutekna þeirra.  Sérstaklega þegar árar eins og nú og næg eftirspurn eftir fólki til starfa.

En það má samt spyrja hvort að markmið almannatrygginga sé ekki komið nokkuð langt frá markmið sínu, ef að fólk með fullar tekjur nýtur samt fullra bóta?

En ég ætla ekki að gera lítið úr því að tekjutengingar eru vandmeðfarnar.

Annað sem vakti athygli mína í fréttinni var eftirfarandi: 

 "Til viðbótar því sem felist í frumvarpinu segi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar."

Því verður ekki á móti mælt að þessar breytingar hvetja vissulega til tekjuöflunar, en mér virðist frekar hæpið að þær hvetji til sparnaðar, því ef ég skil málið rétt er eingöngu verið að tala um að "aftengja" atvinnutekjur, en ekki fjármagnstekjur.

Það hvetur ekki til sparnaðar að mínu mati.

Líklega er það því svo að hress og hraustur ellilífeyrisþegi sem getur unnið fulla vinnu verður án skerðingar.  Ellilífeyrisþegi sem ekki treystir sér til að vinna vegna heilsubrests, en ákveður t.d. að selja stórt einbýlishús sem hann á og flytja í minna og hentugra, lendir hins vegar í skerðingu ef hann ávaxtar mismuninn sem verður til við að flytja í minna húsnæði.  Sólundi hann hins vegar mismuninum heldur hann líklega fullum ellilífeyri.

Þetta er eins og ég sagði áður vandmeðfarið og mýmargar "jarðsprengjur" þegar farið er út á þessi svæði.


mbl.is Tekjur 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband