Trú og þing

Mikið er ég sammála þeim sem hafa verið að skrifa um að það eigi ekki að hefja þing með messu.  Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að skilja eigi á milli ríkis og kirkju.  Einn liður í því væri að sjálfsögðu að fella niður þessa tengingu kirkjunnar og Alþingis.

Auðvitað væri alþingismönnum eftir sem áður frjálst að biðja kirkjuna að blessa störf sín, en það myndu þeir þá gera "prívat og persónulega", en messa væri ekki formlegur þáttur við setningu Alþingis.

Alþingi ætti ekki að hampa einum trúarbrögðum öðrum frekar, enda líta alþingismenn vonandi svo á að þeir hafi hagsmuni allra Íslendinga að leiðarljósi, burtséð frá því hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast eða séu trúlausir.

Ég get tekið undir með þeim sem segja þetta tímaskekkju.

Síðan er auðvitað löngu tímabært að skipta um Íslenska þjóðsönginn, enda hann illa fallinn til að höfða til allrar þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Á því líka að afnema þjóðhátíðardaginn, 17. júní, af því það eru svo margir útlendingar hérlendis og slíkur dagur myndi ekki höfða til þeirra?

Magnús V. Skúlason, 5.6.2007 kl. 13:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég get ekki séð að vera útlendinga komi þessari umræðu nokkuð við, en ég vona svo sannarlega að 17. júní sé haldinn hátíðlegur með því markmiði að það sé dagur allra Íslendinga, burtséð frá því hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast, rétt eins Alþingi á að hafa hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi án þess að trúarbrögð þeirra skipti máli.

Þjóðhátíðardagurinn, þjóðsöngurinn, Alþingi og aðrar stofnanir hins opinbera (að ríkiskirkjunni undanskilinni) eiga að vera fyrir alla Íslendinga, ekki eingöngu kristna Íslendinga, eða eingöngu fyrir þá sem tilheyra ríkiskirkjunni.

G. Tómas Gunnarsson, 5.6.2007 kl. 14:26

3 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

LOL Magnús, þetta var nú meira bjánakommentið hjá þér. GTG var að tala um trúarathafnir og þú tala um 17. júní eins og það sé trúarathöfn..... 

Ég er sammála þér GTG í öllu þessum atriðum.  Væri ekki samt bara sniðugast að skipta um þjóðsöng á 4 ára fresti, það væri merki um svona þjóð sem væri að þroskast og taka breytingum. Þetta væri eins og þjóðsöngva-idol......

Sigurður Karl Lúðvíksson, 5.6.2007 kl. 17:01

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er út í hött að skipta um þjóðsönginn, meðan vel yfir 90% þjóðarinnar eru meðlimir í kristnum söfnuðum (sjá http://www.kirkju.net/index.php/jon/2006/09/23/p729 ). Hitt er kannski annað mál með athöfnina í Dómkirkjunni fyrir þingsetninguna. En ef flokkarnir skipa ekki sínum þingmönnum með heraga að mæta þar (eins og mig grunar þó að sumir geri), þá sé ég ekkert að þeirri athöfn nema það eitt, að hún kann að stuðla að þeim afleita misskilningi, að Þjóðkirkjan sé ríkisstofnun og að það verkefni sé enn með öllu óleyst "að aðskilja ríki og kirkju"!

Jón Valur Jensson, 6.6.2007 kl. 16:59

5 identicon

En hvað ef einhverjir Íslendingar telja Jón forseta hafa verið hinn aumasta mann? Ef kirkjuganga alþingismanna brýtur á trúfrelsi einhverra annarra, sem þó munu ekki viðstaddir, brýtur þá almennur frídagur 17. júní þá ekki á skoðanafrelsi þeirra sem er uppsigað við Jón?

Þ.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 21:38

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Frekar finnst mér rök þau sem hér hafa komið fram skrýtin.  Persónulega hef ég aldrei litið svo á að 17. júní sé til að fagna Jóni Sigurðssyni sérstaklega, þó að ég taki fram að ekkert hef ég honum í mót.

Ég hef alltaf litið svo á að 17. júní sé til að fagna fullu sjálfstæði Íslands og Íslendinga, sem hófst þann 17. júní 1944.  Það að þeir sem þá ákvörðun tóku ákváðu að heiðra Jón með því að lýsa yfir sjálfstæði á afmælisdegi hans er í mínum huga ekki aðalatriðið.

Hvað þjóðsönginn varðar, þá verður því ekki mótmælt að lang stærstur hluti Íslendinga tilheyrir kristnum söfnuðum.  Þó lít ég ekki svo á að Ísland hafi verið stofnað, eða fyrir sjálfstæði þess barist guði til dýrðar.  Né heldur að tilvera og daglegt umstang Íslensks þjóðfélags sé einhverjum guði helgað. 

Þegar viðbætist að fæstir Íslendingar geta sungið þjóðsönginn svo vel fari (fáir eða engir sem ég þekki kunna öll erindi hans) þá tel ég að vel færi á að skipta um þjóðsöng.

Hvað varðar meintan aðskilnað ríkis og kirkju get ég ekki séð að hann sé til staðar.  Ríkið borgar stórar fjárhæðir til kirkjunnar, rekur að mig minnir ennþá kirkjumálaráðneyti.  Sóknargjöld eru ekki aðskilin á álagningarseðlum og þeir sem ekki tilheyra neinum trúfélögum borga sama gjald og aðrir.  Það gjald rennur að mér skilst til Háskóla Íslands. 

Það er að sjálfsögðu gróf mismunun að þeim sem ekki tilheyra trúfélögum sé gert að greiða aukalega til menntunar á Íslandi.

G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2007 kl. 02:30

7 identicon

Nújá, þjóðhátíðardagurinn til að fagna lúðveldinu frá 1944, gott og vel.

En þá er að orða spurninguna öðruvísi: ef að kirkjuganga alþingismanna skerðir trúfrelsi fjarstaddra landsmanna, skerða opinber hátíðahöld þá ekki skoðanafrelsi þeirra sem vilja konungsamband við Danmörk - eða eitthvert annað fyrirkomulag en lýðveldi?

Það þýðir einfaldlega ekki að vera sífellt að þessu dekstri við minnihlutahópa. Það er fullkomið trúfrelsi á Íslandi, öllum er frjálst að rækja trú sína eða þá tala um trúleysi sitt dag og nótt. Það að alþingismenn gangi til kirkju gerir engum neitt, gefur meira að segja pópúlistum í þeirra hópi færi á því sem þeim er kærast alls, að komast í blöðin, með því að láta vita að þeir hafi ekki mætt.

Þ.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 17:16

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alltaf lágmark að fara rétt með.  Ég hef ekki sagt hér að ofan að messa við setningu Alþingis skerði trúfrelsi eins eða neins, enda er ég ekki þeirrar skoðunar.  Hitt sagði ég að ég teldi að Alþingi ætti ekki að hampa einum trúarbrögðum umfram öðrum.  Á því er mikill munur.

Það er ekkert "dekstur við minnihlutahópa" að hlutleysis sé gætt gagnvart trúarbrögðum, nú eða þeim sem enga trú hafa.

Með sömu rökum má auðvitað segja að best færi á að senda stjórnarandstöðuna heim, enda ríkisstjórnin með stuðning yfirgnæfandi stuðning þjóðarinnar.  Minnihlutahópar sem kjósa VG, Framsókn eða Frjálslynda eiga líklega ekki inni neitt "dekstur".

Lýðræði felur í sér að meirihlutinn ræður.  En það þýðir ekki að minnihlutinn eigi engan rétt.  Auðvitað felur lýðræðið í sér að reglulega er gengið gegn skoðunum þeirra sem í minnihluta lenda, en sé þess nokkur kostur á jafnræðisregla að sjálfsögðu að gilda.

G. Tómas Gunnarsson, 9.6.2007 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband