Ritstýring og hliðvarsla

Þegar kunnugt varð að Fréttablaðið og Hringbraut væru að hætta útgáfu og móðurfélag þeirra stefndi í gjaldþrot, upphófst all nokkur umræða um Íslenskan fjölmiðlamarkað.

Að sjálfsögðu var umræða um samkeppnisstöðu og fjármál fyrirferðarmikil, sem vonlegt er, enda tekjur undirstaða fjölmiðla eins og annara fyrirtækja.

En það var líka rætt um "hliðvörslu" og nauðsynlega ritstýringu fjölmiðla og hversu "óheflað" hið "villta vestur" á samfélagsmiðlum og á víðáttum netsins, gæti verið.

Það er vissulega þó nokkuð til í því, því oft finnst mér ég finna það besta og versta á netinu, en samfélagsmiðla nota ég ekki.

En vinsældir netsins koma líklega ekki síst vegna þess að hluta almennings líkar lítt við "hliðvörsluna" og ritstýringuna (það getur verið stutt á milli ritstýringar og -skoðunar), finnst hún "röng" og jafnvel misnotuð. 

Enda þunn lína þar eins og víða í lífinu.

 

 

 

Vidreisn og hringbraut

 

 


mbl.is Torg lýst gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, um að gera að hafa enga vörslu og engin höft - leyfa hverjum sem er að ljúga upp á hvern sem er hverju sem er. Let them deny it, eins og Clinton sagði (eða ekki).

Áttu við að það sé ekki til neinn hlutlægur sannleikur í flestum málum og allt sé spurning um hvernig litið er á málin? Að "minn sannleikur" sé jafngildur "þínum sannleika" þótt þessir "sannleikar" séu ósamræmanlegir? 

Það má jú alltaf bjóða upp á "alternative truth" eins og konan sagði. Og hvernig orðaði Giuliani það? "Truth isn't truth ... "

Flest fjölmiðlafólk veit að til er sannleikur í hverju máli, meira að segja fólkið á Fox News sem vissi að það var að flytja "fréttir" sem voru haugalygi, éta upp bull úr Trump. Og það vissi að þetta var gert af "virðingu" fyrir "sannleika áhorfenda". 

Ef maður afneitar ekki sannleikshugmyndinni þá hlýtur maður að telja hliðvörslu og ritstýringu nauðsynlega. En ef maður afneitar sannleikshugmyndinni þá er maður bara stanslaust að bulla. Það er einmitt skilgreiningin á bulli - þegar "sannleikurinn" er settur innan gæsalappa og talinn vera afstæður m.v. hvern og einn einstakling.

Ég hef persónulega engan áhuga á svoleiðis "fjölmiðlun" - þess vegna segi ég eins og Sigmundur Ernir að hliðvarsla og ritstýring er nauðsynleg. En það er bara mín persónulega skoðun - ef þú ert ósammála þá er það þitt vandamál. 

Kristján G. Arngrímsson, 13.4.2023 kl. 17:08

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Reyndar má í þessu samhengi nefna þetta, sem nýlega kom upp. Sjá tengil. Þarna er engin hliðvarsla, engin stýring og enginn sem hægt er að fara í meiðyrðamál við og enginn sem getur dregið orðin til baka og leiðrétt - og jafnvel beðist afsökunar.

Hvaða "agenda" getur legið þarna að baki?

Eða er þetta bara spurning um að hver og einn ákveði fyrir sjálfan sig hvort þetta sé satt eða ekki?

https://www.washingtonpost.com/technology/2023/04/05/chatgpt-lies/

Kristján G. Arngrímsson, 13.4.2023 kl. 19:12

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Svo er annað: mér skilst að því hafi verið haldið fram, í fullri alvöru, að hugmyndin um "hlutlægan sannleika" (objective truth) sé í rauninni ekki annað en tæki til að tryggja "white supremacy". 

Það er svo aftur spurning hvort það að svo sé geti þá talist "objective truth" - eða erum við þarna komin með vítarunu?

Kristján G. Arngrímsson, 13.4.2023 kl. 19:20

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég mæli með þvi að þú lesir færsluna aftur og bendir svo á hvar ég er að tala um allt þetta sem þú fleygir hér, inn, ef til vill til að afvegaleiða umræðuna.

En ég er að tala um að margir afþakki í raun hliðvörsluna og ritstýringuna, m.a. hliðvörslu þar sem sjónvarpsstjórinn sendir skeyti á formann stjórnmálaflokks til að spyrja hver sé góður í umræðuþátt.

Hitt er svo að umræðan fer víða út af sporunum, ég man reyndar ekki betur en þú fyrrtist við þegar ég reyndi að setja svolittla "hliðvörslu" á orðalag hér á síðunni og taldir slíkt part af leiknum, ef svo má að orði komast.

Það er einnig vert að hafa í huga að Íslenskir dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttmætt að kalla nafngreinda (eða myndbirta) einstaklinga nöfnum eins og "rapist bastard" og "barnaríðara", enda sé um "opinbera einstaklinga" að ræða.

Það er ekki nema von að "pöpullinn" haldi að sér leyfist ýmislegt og þarf ekki gervigreind til.

En auðvitað er öllum frjálst að bjóða fram hliðvörslu sína og ritstýringu, í smæstu hugsanlegri mynd geri ég það hér á síðunni.

En að sjálfsögðu er næsta eðlilegt að margir kjósi að hafna slíku, og ekkert undan því að kvarta.

P.S. "Let them deny it", er yfirleitt eignað Lyndon B. Johnson, þó að uppruninn sé á reiki.  Slíkt gengur gjarna undir nafninu "pigfucker politics"

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2023 kl. 02:36

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég var alls ekki vísvitandi að reyna að afvegaleiða umræðuna. En stundum kveikja bloggin þín hjá mér pælingar sem eru kannski ekki alveg á sömu slóðum. Ég kann reyndar vel við það.

Ég er annars hlynntur eins miklu málfrelsi og framast er unnt. Að fólk beri sjálft ábyrgð á afleiðingum orða sinna. En það eru sannarlega takmörk á því hvað má leyfast, og sumt þarf líklega að banna. Ég held að þetta sé óumdeilanlegt. Hitt er svo aftur önnur umræða hvað nákvæmlega eigi að banna (og stýra) og hvernig eigi að ákvarða hvað þurfi að takmarka (með hliðvörslu).

Varðandi dæmið um Sigmund Erni þá myndi ég treysta honum til að taka svarinu frá pólitíkusnum með gagnrýnum huga en ekki gleypa það hrátt. Ég hef sjálfur átt orðastað "off the reckord" við pólitíkusa og treysti mér alveg til að vega og meta sem fjölmiðlungur (er þetta ekki gott orð?) réttmæti/nytsemd þess sem þeir segja.

Talandi um að víkka sjóndeildarhringinn - ég þarf að athuga pigfucker politics.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2023 kl. 07:36

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Perónulega finns mér það í besta falli "óheppilegt" þegar ritstjóri fjölmiðils sendir formanni stjórnamálaflokks beiðni um "tilnefningu" um hver sé hentugur í umræðuþátt i aðdraganda kosninga.  Aðeins er leitað til eins stjórnmálaforingja um "tilnefningu".

Í versta falli er þetta..  ?  Það er er hins vegar ekkert að því að fjölmiðlar séu reknir til þess að styðja við stefnu ákveðinna stjórnmálaflokka eða manna, en það þarf ekkert að koma á óvart að margir afþakki slíka "hliðvörslu".

Ég held reyndar að flestir sem ég hef heyrt í, hafi á þessum annan skilning en þú, og beri minna traust til Sigmundar Ernis í þessum efnum.

Þetta er allt annað en "off the record" samtal.

En mál- og tjáningarfrelsi er almennt séð af hinu góða þó að sjálfsagt sé að menn þurfi að svara fyrir orð sín, ef svo ber undir.

En það eru býsna margir sem telja einmitt að þessi réttindi eigi undir högg að sækja, ekki eingöngu í "alræðisríkjum", heldur einnig mörgum "vestrænum" löndum.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2023 kl. 13:36

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held kannski að ég hafi ekki alveg áttað mig á því hvað þú ert að meina, ef til vill þess vegna sem þér fannst ég afvegaleiða samtalið.

Fyrir mér snýst ritstýring og hliðvarsla fjölmiðla fyrst og fremst um að hafa í hávegum það sem satt er og gæta þess að enginn spilli viljandi fyrir því að sannleikur málsins komi fram (sbr. það sem ég sagði um Fox News þar sem fréttafólkið fór vísvitandi með ósannindi). Ég er auðvitað ekki að segja að það sé einfalt mál að framleiða fréttir með sannleikann að leiðarljósi en það er engu að síður prinsippið sem alvöru miðlar vinna út frá. 

En mér sýnist að þú teljir kannski að allir fjölmiðlar - eða kannski bara þeir sem eru ríkisreknir? - og allt fjölmiðlafólk hljóti óhjákvæmilega að koma í veg fyrir að almenningur geti fengið fréttir "ómengaðar" (eða beint af kúnni, eins og þú segir).

Veistu um einhvern "meginstraumsmiðil" sem talist gæti flytja ómengaðar fréttir?

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2023 kl. 16:22

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Við höfum nú átt keimlík samtöl áður og hvort að fjölmiðlar séu, eða geti verið fyllilega óhlutdrægir, nú eða jafnvel oft á tíðum með "agenda".

Ég hef haldið því fram að hlutleysi fjölmiðla sé almennt ekki til staðar.  Það þýðir auðvitað ekki að þeir séu síljúgandi.  Ef ég man rétt hefur þú sveiflast svolítið til í þessum efnum.

En það eru auðvitað mýmörg dæmi um "umdeilanlegar "tilklippingar"", á viðtölum og orðið ágreiningur um slíkt.  Þar með er ekki sagt að viðkomandi hafi ekki sagt þetta eða hitt, en stundum tekið dulítið úr samhengi.

Það er erfitt að segja hvort að einhver meginstraumsmiðill flytur ómengaðar fréttir, enda hef ég svo sem enga yfirsýn yfir þá.

En í vaxandi mæli er það þó þannig að lengri (stundum óklippt) viðtöl má finna á netinu, þó að styttri útgáfur séu þar einnig og hafi fengið meira vægi, eða verið notaðar á prenti eða útsendingu.

Þetta á sinn hluta í vinsældum þátta eins og Silfur Egils og Sprengisands (að mínu mati, engin vísindaleg rannsókn að baki því), beinar útsendingar, efnið komið óstytt á netið skömmu síðar, en oft fleiri en einn fjölmiðill sem síðan vinnur fréttir úr þeim. Sprengisandur og Visir keyra t.d. oft vel saman á þennan hátt og styðja hvort annað.

Ég held að þetta eigi stóran þátt í uppgangi "hlaðvarpa", sem eru að af fjölbreytilegum uppruna (sem þeirra eru vissulega klippt til, en gefa af sér "beint af kúnni" tilfinningu.

Enda eru fleiri og fleiri fjölmiðlar með meira og meira af "hlaðvörpum" á vefsíðum sínum og er það vel.

Það er ekki síst þetta sem ég var að meina með að "hliðvarsla" sé oft afþökkuð.  Það er þó ekki svo að hún sé í reynd horfin, því vissulega hefur t.d. góður stjórnandi mikið að segja, og sama gildir um val á viðmælendum og hvernig þeir eru valdir saman ef það á við.

En þetta er svo ódýrt að "það sprettur upp eins og gorkúlur", vissulega stundum dálítill "vilta vesturs" bragur, enda samkeppnin um athyglina hörð.

Tiltrúin á "hliðvörðunum" hefur minnkað, oft verðskuldað, þó að slíkt sé vissulega deiluefni.

Persónulega sé ég hana ekki aukast á næstunni, og held reyndar að sjaldan hafi hún minnkað jafn hratt og á undanförnum árum.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2023 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband