2.4.2023 | 02:47
Ekki mun ég sakna Fréttablaðsins, en ....
Það yrði ákveðin missögn af minni hálfu ef ég segðði að ég myndi sakna Fréttablaðins eða Hringbrautar. En þrátt fyrir það verður auðvitað sjónarsviptir af þessum fjölmiðlum, því á þessu sviði eins og flestum öðrum er fjölbreytnin æskileg.
Það er enda svo að ekki kæra sig allir um sömu fjölmiðlana og öllum er hollt að lesa fjölmiðla sem þeir eru ef til vill ekki sammála "stefnu" hjá, í það minnsta kosti annað slagið.
En fjölmiðlar koma og fara, þróast og sumir hverfa. Það er engin skortur á fjölmiðlum á Íslandi og líklega ekki mörg, ef nokkur, ca. 370 þúsunda samfélög sem státa af fleiri.
Mér er það líka til efs að hærra hlutfall nokkurrar þjóðar starfi við fjölmiðla (jafnvel þó að mér skiljist að þeim hafi fækkað), en þar gildir eins og víðar að smæðin ýkir hlutföllin. Það gildir auðvitað um fleiri svið.
Persónulega fannst mér Fréttablaðið í raun ekki bera sitt barr eftir að slitið var á milli þess og Visir.is.
Vefur blaðsins náði sér ekki á strik (var ekki góður að mínu mati), og líklega hefur tilkostnaður, ef eitthvað aukist, en "snertingum" fækkað, og prentmiðlar eiga eðlilega undir högg að sækja, mikill dreifingarkostnaður og óljós ávinningur.
Að vera yfirtekið af Hringbraut varð blaðinu ekki til framdráttar, það var engin Viðreisn í því.
Það er hins vegar af hinu góða að umræða fari fram um fjölmiðlamarkaðinn á Íslandi og hvers vegna ríkið ætti að vera stærsti aðilinn á þeim markaði.
Tæknin hefur gerbreytt fjölmiðlastarfsemi, það hefur líklega aldrei verið auðveldara að koma fjölmiðli á fót, en það það þýðir ekki að auðveldara sé að ná fótfestu.
Þetta er bara ömurlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Vert að halda því til haga að umræða um það hvers vegna ríkið ÆTTI AÐ VERA stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði er ekki alveg sama umræða og um það hvers vegna ríkið ER stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði.
Ríkið ER stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði að ég held vegna þess að enginn annar aðili gæti haft fjárhagslegt bolmagn til þess að verða stærri. Að minnsta kosti ekki eins og markaðsumhverfið er hérna núna. Ríkið ER því stærsti aðilinn núna fyrst og fremst af praktískum ástæðum.
Það er svo aftur pólitísk spurning hvort ríkið ÆTTI AÐ VERA stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði. Vel má hugsa sér að einkaaðilar geri þjónustusamning við ríkið um fjölmiðlun, svona eins og sum fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu hafa gert og sumir skólar hafa gert. Þessir aðilar skuldbinda sig þannig til að veita ákveðna þjónustu skv. samningsbundnum skilmálum. Þetta væru því "einkafyrirtæki" að nafninu til en eiginlega í rauninni ríkisfyrirtæki. Til dæmis ekki ólíklegt að allir kjarasamningar yrðu þarna gerðir milli ríkis og stéttafélaga og þessi fyrirtæki yrðu að starfa í samræmi við þá. Held kannski að þá færi nú fljótt mesti glansinn af þessum "einkarekstri".
Kristján G. Arngrímsson, 2.4.2023 kl. 08:13
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Í raun er það að mestu leyti sama umræða hvort að ríkið eigi að vara stærsti aðilinn á fjólmiðlamarkaði, og hvers vegna ríkið er stærsti aðilinn á sama markaði.
Ríkið er stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði, vegna þess að ákveðið hefur verið að gefa ríkinu (RUV) gríðarlegt forskot í formi milljarða á þeim sama markaði.
Líklega hefur ákvörðunin um að setja nefskatt átt gríðarlega stóran þátt í þessari þróun. Þett er ekki "markaðsbrestur", heldur "ríkisafskiptabrestur".
Það sem meira er, þetta er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Líklega hefur fátt ef nokkuð stuðlað að þessari stöðu en sú ákvörðunn að taka upp nefskatt og leggja hann á alla "fullorðna" og alla lögaðila.
Stuttu eftir að þetta var ákveðið, skall "bankakrísan" á, allir "almennir" fjölmiðlar lentu í vandræðum, en Ríkisútvarpið mikið síður vegna nefskattsins, síðan kom uppgangstímsinn, þar sem tekjur Ríkisútvarpsins blésu út vegna, fólksfjölgunar og nýrra fyritækja. Síðan kom "kóvídvitleysan", þar sem áhrifan "bankakrísunnar" voru í raun endurtekin, og Ríkisútvarpið hélt mestu af tekjum sínum.
Svo kom annar uppgangstími, þar sem "nauðungaráskriftum" fjölgaði mikið og tekjm af þeim, vegna fólksfjölgunar og nýrra fyrirtækja.
Það þarf ekki að gera "þjónustusamning" við einkafyrirtæki, ,heldur fyrst og fremst að minnka umsvif ríkisins, eða fjarlægja þau með öllu.
Margir aðilar gætu náð "fjárhagslegu bolmagni" til að reka góða fjölmiðla ef ríkis gúknaði yfir stærsta hluta markaðarins.
Það þarf ekki "þjónustusamninga" til þess.
Hvað ef allir væru skyldaðir til að kaupa inneignarnótur hjá Hagkaup, nú eða Olís, hvort sem þeir nýttu þær eða ekki?
Hvað mikið myndi það skekkjs samkeppnisstöðu annara fyrirtækja á þeim markaði?
Væri rétt að tala um "markaðsbrest" þegar öðrum fyrirtækjum á þeim mörkuðum, færi eðlilega að ganga verr?
G. Tómas Gunnarsson, 2.4.2023 kl. 22:13
Nei, það er ekki sama umræðan. Þú heldur þig einfaldlega við umræðuna um hvort ríkið ætti að vera stærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði og sniðgengur eiginlega alveg spurninguna um hvort aðrir aðilar séu færir um það án ríkisstuðnings. Gengur einfaldlega útfrá því að svo væri. Sem ég dreg stórlega í efa.
Þannig erum við soldið að tala í kross. En gott og vel.
Kristján G. Arngrímsson, 2.4.2023 kl. 22:33
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að aðrir aðilar væru einfaldlega þess umkomnir að að verða stærstir, og reka góða fjölmiðla ef að ríkið væri ekki á þeim markaði og skammtaði sjálfu sér ekki milljarða forskot.
Rétt eins og gildir á öðrum mörkuðum. Það eru margir sem halda til dæmis að engin geti selt áfengi nema að þeir séu ríkisstarfsmenn. Sú trú hefur þó verið að molna niður og æ minna hlutfall áfengis er selt með þeim hætti.
Það er vel.
Það var líka trú margra, að á ákveðnum svæðum landsins væri hættulegt að selja mjólk nema í sérhæfðum verslunum. Þú ólst ekki upp við slíkar takmarkanir og hefur líklega ekki hugmynd um hvað slíkt getur verið hættulegt.
Það þótti líka forkastenleg hugsun að "dagvöruverslanir"; hvað sem svo það þýðir gætu selt lesgleraugu.
Að "kjörbúðir" gætu selt bækur þótti mörgum framandi hugsun, og ekki síður að bókabúðir gætu selt kjöt, en þetta er þróun sem hefur gengið í gegn, án þess að stór hætta hafi skapast fyrir almenning.
Það þykir heldur ekki nauðsynlegt að almenningur sé afgreiddur út um lúgu um helgar.
Allar þessar breytingar voru þó taldar fela í sér margar hættur á sínum tíma.
Hvað þá að leyfa útvarpsútsendingar einkaaðila, nú eða bjór.
Það er ekki margt, ef nokkuð sem stendur eftir af röksemdum andstæðinga þessara breytinga. Ef til vill ekki að undra að margir þeirra reyni að hanga á Ríkisútvarpi.
G. Tómas Gunnarsson, 2.4.2023 kl. 23:22
Eins og ég hef nefnt þá er það mér ekki hugsjónamál að útvarpið sé ríkisrekið. Margir bestu fjölmiðlar heimsins eru einkareknir.
Rökin fyrir Rúv eru praktískt, og þar er líka ásteytingarsteinn okkar, minn og þinn, þ.e. hvort einkarekinn fjölmiðill á pari við Rúv væri yfirleitt mögulegur á Íslandi þar sem helmingur allra auglýsingapeninga fer til erlendra miðla. (Ég hef ekkert á móti því að svo sé - það er bara veruleikinn). Einungis þeir sem gætu fengið styrki, þ.e. peninga, úr öðru en auglýsingum/áskrift gætu rekið góðan fjölmiðil á Íslandi nuna. Þetta hefur ekki alltaf verið svona.
Svo er hitt, líka praktískt atriði, að mér skilst að auglýsendur vilji helst Rúv, þar næst mest dekkun, og ef Rúv hættir myndu þessir auglýsendur örugglega fara til annarra íslenskra miðla? Myndi ekki bara enn meira af auglýsingapeningum fara til útlanda? Facebook, YouTube, Instagram og ekki síst TikTok (sem er reyndar hugsanlega kínverskur ríkismiðill!) Ég myndi hallast að því.
Sama gildir reyndar um áfengissölu. Rökin gegn afnámi ríkiseinokunar eru praktískt, þe. að rannsóknir benda eindregið til þess að ef aðgengi að áfengi yrði aukið myndi það einni auka áfengisvanda. Er þetta rétt? Ég veit það ekki, það eru bara þessar vísindarannsóknir sem segja það og ég trúi þeim. Mér væri alveg sama þótt einkaaðilar rækju allar vinbúðir.
Ég skil það að frá þínu sjónarhorni snýst þetta um hugmyndafræði - þ.e. að það eigi að vera markaðsfrelsi fyrir einkaaðila. Ég er ekki í prinsippinu á móti því, en mér sýnist veruleikinn vera sá að íslenskur fjölmiðlamarkaður er ónytur og það vegna tilkomu erlendu "tæknirisanna" (meðal annars kínverska ríkismiðilsins TikTok), ekki vegna Rúv. - Og væri eitthvað skárra að auglýst sé í kinverskum ríkismiðli frekar en íslenskum?
Aftur: ég held einfaldlega að ef Rúv nyti ekki lengur við yrði engin almennileg fréttastofa eftir á Íslandi. Það finnst mér hræðileg tilhugsun. Og þetta hefur nákvæmlega alls ekki neitt með pólitík eða hugmyndafræði að gera. Vara veruleikann. Það sem ER. Það sem kannski ÆTTI AÐ VERA er að ég held óraunhæft.
Kristján G. Arngrímsson, 3.4.2023 kl. 08:54
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þetta er seint, en ég hef haft allt öðrum hnöppum að hneppa.
Það er vissulega deilt um og umdeilanlegt hvort að RUV sé "almennileg" fréttastofa eður ei. En það verður líkleg ekki um það deilt að hún hefur mest fé á milli handanna.
Og vissuleg skiptir eignarhald máli.
Ef ríkisstjórnin fengi ný fyrir hjartað og óttaðist að ekkert dagblað yrði gefið út á Íslandi og ákveddi að svo mætti ekki fara, síðasta dagblaðinu yrði að halda á lífi.
Það yrði ákveðið að allir 16 ára á eldri yfir ákveðnum tekjumörkum yrðu að kaupa áskrift að Morgunblaðinu. Blaðinu yrði síðan dreift í öll hús og í öll fyrirtæki.
Áskriftargjald yrði ákveðið í fjárlögum og tekið af samhliða sköttum. Auglýsendur yrðu auðvitað kampakátir, enda "frábær dekkun". Morgunblaðið myndu tútna út og geta ráðið fjölda blaðamanna, flesta á Íslandi en jafnframt geta haft fréttaritara hér og þar í heiminum.
Ritsjórnin myndi eflast og dafna og þokkaleg almenn ánægja myndi ríkja með blaðið.
Síðan myndy "líða mörg ár" og ánægjan farin að minnka eitthvað og blaðið þætti dulítið staðnað og orðið stofnanalegt. Einhverjir færu að tala um að það væri þörf á öðru dagblaði og nýjum og fleiri sjónarhornum.
Heldur þú að einhver gæti keppt við dagblað sem væri rekið á slíkum grunni?
G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2023 kl. 14:59
Betra er seint en aldrei.
Mér sýnist þú eiginlega vera að lýsa Morgunblaðinu eins og það var á gullaldarárum sínum, með 50.000 eintaka upplag og dekkun um allt land. Það voru góð ár. Og gott blað. Lifði á fasteignaauglýsingum sem náðu yfir margar, margar blaðsíður. Enda ekkert net. Og Rúv bara Gufan.
Those were the days, my friend.
Sennilega þá sem einhver ónefnd kona sagðist vera alveg ópólitísk og kysi bara Sjálfstæðisflokkinn.
Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2023 kl. 17:20
Eitt af því sem einkenndi rekstur Mogga á þessum árum var tilfinning stjórnenda blaðsins (og Árvakurs) fyrir því að þeir hefðu skyldum að gegna við lesendur, samfélagið og Ísland yfirleitt. (Þess vegna börðust þeir svo heiftarlega gegn frjálsu framsali kvóta).
En núorðið held ég að stjórnendur frjálsra fjölmiðla telji sig eingöngu hafa skyldum að gegna við eigendur fjölmiðlanna, hvort heldur er moldríka útgerðarmenn eða einhverja óljósa hluthafa.
Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2023 kl. 17:37
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þú skautar alveg framhjá skylduáskriftinni sem ég nefndi í dæminu. Þú raunar hirðir ekkert um það sem ég skrifaði, en skýtur fram þínum eigin hugleiðingum.
Enginn var neyddur til að vera áskrifandi að Morgunblaðinu, enda margir sem voru það ekki og greiddu eðilega ekki til þess.
Lengi vel, var Mogginn í öðru eða þriðja sæti í útbreiðslu á Akureyri,svo dæmi sé nefnt og svo var að mér skilst víða um land.
En svo fór t.d Mogginn í átak í dreifingu og dreifðu t.d blaðinu á morgnana á Akureyri.
En Mogginn skilaði blaðinu, alltaf má deila um gæðin, til áskrifenda. Allir fengu það sem þeir höfðu gerst áskrifendur að.
Þannig er það ekki með Ríkisútvarpið. Þar borga þúsundir en nota ekkert, eða borga margfallt fyrir það sem þeir þó nota.
Þannig virkar nauðungin.
G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2023 kl. 20:07
Hvernig er með CBC, ertu með nauðungaráskrift að því? Eða er það bara fjármagnað með sköttunum þínum?
Mín vegna mætti fella niður útvarpsgjaldið hérna en þá myndu bara einhverjir aðrir skattar hækka í staðinn, eða önnur útgjöld ríkisins minnka. Skiptir sosum engu hvað skatturinn heitir. En það er nú bara eðli málsins samkvæmt sem ríkisrekinn (eða "publicly funded") fjölmiðill er fjármagnaður. Með opinberu fé. Maður getur svo eftir atvikum verið andvígur því að ríkið reki fjölmiðla, en það sýnist sitt hverjum með það. Hefur verið kannað hvort Íslendingar almennt vilji afnema ríkisútvarp? Ég bara veit það ekki.
En þegar ég talaði um að Mogginn hafi haft dekkun átti ég við fréttaritaranetið út um allt land, sem var mikið metnaðarmál fyrir blaðið. En nú er hún stekkur, Snorrabúðin sú. Enda áskrifendafjöldinn hruninn. (En reyndar ef ég man rétt varð áskrifendahrunið mest þegar DO varð ritstjóri - en þú veist þetta kannski betur).
Nú hefur enginn fjölmiðill svona fréttaritaranet, nema þá helst Rúv, af því að það hefur lögbundnum skyldum að gegna. Ég er alveg sannfærður um að "frjáls" fjölmiðill myndi aldrei setja peninga í fréttaritaranet um landið, peningarnir færu frekar í að greiða arð.
Aftur á móti er athyglisvert hvernig "lókalmiðlar" þrífast, t.d. á Akureyri þar sem fyrrverandi blaðamaður Moggans heldur úti fínum fréttavef.
Þú afsakar þessar nostalgíupælingar, ég gæti velt mér endalaust upp úr þeim en skal hlífa þér við því :)
Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2023 kl. 21:21
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. CBC er fjármagnað af "federalinu", en ekki er um beint gjald að ræða, nefskatt eða nauðung.
"CBC/Radio Canada received $1.24 billion in government funding in 2021-2022, and reported $651 million in revenue, the biggest proportion of which came from advertising."
En persónulega hef ég aldrei hlustað á CBC, eða horft á sjónvarpið hjá þeim. En einstaka sinnum nota ég vefinn þeirra.
Þannig er það, en ég veit ekki hvaða miðlar þeirra birta auglýsingar. Þannig var það reyndar mestan part þann tíma sem ég bjó á Íslandi á eigin spýtur, ég hafði yfirleitt ekki sjónvarp. Einhvern tíma hafði ég sjónvarp en tengdi það ekki við loftnet, en hafði videotæki.
Staðreyndin er sú að prentmiðlar láta alls staðar undan og reikna með að þeir hverfi að mestu leyti á næsta áratug eða svo.
En það þýðir ekki að áskriftarmiðlar hverfi, enda vex mörgum netmiðlum fiskur um hrygg á þeim grunni.
Einhvers staðar sá ég talað um að ríkisútvarpið hefði enga "fréttaritara" út um landið, en einhverja erlendis, en ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, það er ekki eins og ég hlusti. En það er líka orðið allt annað að nota síma, önnur samkskiptatól og síðast en ekki síst eru samgöngur allt aðrar.
G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2023 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.