20.3.2023 | 21:53
"Money For Nothing" ekki í spilun lengur og mikið tap framundan
Það virðist sem margir telja að "ódýrir peningar" og neikvæðir raunvextir séu sjálfsagður hluti af kjörum almennings og rekstrarumhverfi fyrirtækja og ekki síður ríkissjóða.
Slíkt gengur þó yfirleitt ekki upp sé horft til lengri tíma. Fyrr eða síðar kemur að skuldadögum og það er margt sem bendir til að þeir séu framundan.
Það er líklegt að margir bankar tapi umtalsverðum fjárhæðum, ekki vegna mikillar áhættusækni, heldur vegna fjárfestinga í skuldabréfum á "money for nothing" tímum, sem þeir gætu þurft að selja með tapi.
Það verða seðlabankar sem leiða tapið, bæði Seðlabanki Eurosvæðisins og Þýski Seðlabankinn (fyrsta tap í 40. ár) hafa tilkynnt tap, og líklegt að flestir seðlabankar Eurosvæðisins og í Evrópu muni einnig þurfa að þola slíkt.
Seðlabanki Bandaríkjanna er talinn tapa u.þ.b. 2 milljörðum dollara á viku. Svissneski seðlabankinn tilkynnti nýverið um mesta tap í 115 ára sögu sinni, en á síðasta ári tapaði bankinn í kringum 140 milljörðum dollara.
Margir telja að þetta sé einungis byrjun, sem muni halda áfram á komandi árum, jafnvel í áratug.
En auðvitað segir sagan að seðlabankar geti ekki farið á vonarvöl. Þeir einfaldlega prenti peninga. Það er rétt svo langt sem það nær.
En nú eru þó að hluta til breyttir tímar. Í fyrsta lagi er það ekki góð "latína" að prenta peninga í mikilli verðbólgu og svo hitt að seðlabankar Euroríkjanna hafa gefið frá sér "prentunarvaldið", það er einungis Seðlabanki Eurosvæðisins sem hefur það.
Mismunandi þarfir eigenda hans flækir svo málið enn frekar. Það er því ekki ólíklegt að einhverjir seðlabankar muni þurfa fjárframlag frá eigendum sínum.
En það eru all nokkur umskipti þegar vextir hækka og greiða þarf "eðlilegt" verð fyrir afnot af peningum. Það finnur almenningur, fyrirtæki og einnig hið opinbera og gera þarf mun meiri arðsemiskröfu til reksturs og fjárfestinga.
Stórfyrirtæki, ekki síst i tæknigeiranum, eru að segja upp starfsmönnum í þúsundatali, til að laga reksturinn.
Það mætti ef til vill orða það svo að "Money For Nothing" sé að baki, en "Dire Straits" framundan.
Vísitölur færast upp á við eftir þungan morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 21.3.2023 kl. 00:50 | Facebook
Athugasemdir
Hvað varð um gullfótinn? Man ekki í svipinn eftir lagi með gullfót, 007 var að kljást við gullhendi ef ég man rétt.
Prentaður pappír er eitt en rafrænn annar.
Sindri Karl Sigurðsson, 20.3.2023 kl. 23:01
@Sindri, þakka þér fyrir þetta. Ég helda ð "gullfótur" þekkist ekki í dag, nema sem verðlaun knattspyrnumanna. Ef til vill tímanna tákn.
Bond háði baráttu við "Gullfingur", "Goldfinger", en ekki alla hendina ef ég man rétt. Samnefnt lag með Shirley Bassey skratti gott.
Sem betur fer er ekki prentað svo mikið af pappírspeningum nútildags, við værum líklega að verða uppiskroppa með pappír ef svo væri. En mesti klassinn í dag er líklega peningar prentaðir á plast, en það þarf líklega olíu í það, þannig að spurningin er hve lengi það má.
G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2023 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.