Frelsið er yndislegt

Frelsi þýðir, raunverulegt tjáningarfrelsi, frelsi til að safnast saman, gera samninga og eignaréttur.  Ekki frelsi til þess að nota fyrrgreind réttindi til samþykktra athafna.

 

 

"Liberty means genuine freedom of speech, association, contract and property. Not freedom to use them for approved purposes.”

John Robson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hmm... held þú verðir að útskýra þetta eitthvað aðeins.

Kristján G. Arngrímsson, 16.7.2021 kl. 22:22

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað þarf ég ekki að útskýra eitt né neitt, enda ekki að segja nokkurn hlut hérna.  LOL

Ég er aðeins með beina tilvitnun í grein sem þú getur lesið ef þú fylgir hlekknum.

Auðvitað má deila um hvort að þýðingin mín sé rétt, o.s.frv., og ég er meira en reiðubúinn til að taka á móti leiðréttingum í þá átt.

Til dæmis má deila um hvort niðurlagið hefði átt að vera "samþykktra athafna", eða "í samþykktum tilgangi".

En að mörgu leyti talar þetta inn í "samtal" nútímans.  Hvert er frelsi einstaklingins?  Hvað er búið að taka í burtu?

Er málfrelsi enn til staðar?  Frelsi til að safnast saman? Gera samninga eða nota eigur sínar?

Ekki það að svarið sé einhlýtt, en það er þarft að velta þessum spurningum fyrir sér eins og mörgum öðrum.

G. Tómas Gunnarsson, 17.7.2021 kl. 02:26

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

P.S.  Ég hef verið frekar upptekin við hvolpauppeldi og önnur "sumarstörf", þannig að ég hef ekki skrifað mikið hér, sem vonandi stendur til bóta.  En mér þótti þesi setning allra athygli verð. 

Svona á þessum "síðustu og verstu".

G. Tómas Gunnarsson, 17.7.2021 kl. 02:28

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, þetta er athyglisverð setning og þess vegna ástæða til að fá hana aðeins betur útskýrða. 

Mér sýnist að "approved" þarna merki það sem einhver annar - væntanlega stjórnvöld - hafi ákveðið fyrir mann að maður eigi að gera eða megi gera, í stað þess að maður ákveði þetta sjálfur.

Gott og vel. En ef út í það er farið þá setja nú lögin manni ákveðinn ramma um hvað á að gera og hvað má gera með frelsið. Og annað fólk setur manni líka þannig ramma og ef umrætt fólk er í þannig stöðu getur það borgað sig fyrir mann að "hlýða". Annars verður maður afbókaður.

Kannski er kjarni málsins sá að þessi rammi (approved purposes) er alltaf óhjákvæmilegur (það þarf alltaf að vera kerfi) og mikilvægt að hann sé ákvarðaður á lýðræðislegan hátt, þ.e. sem lög sett af lýðnum (væntanlega gegnum þing). Allan annan ramma er manni í raun og veru heimilt að fara út fyrir ef maður vill, og ef maður tekur afleiðingum þess.

Auðvitað getur maður verið ósammála lýðræðislegum niðurstöðum (lögunum) en þá nátturulega mætir maður löggunni.

Kristján G. Arngrímsson, 17.7.2021 kl. 09:26

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

PS: til hamingju með hvolpinn.

Kristján G. Arngrímsson, 17.7.2021 kl. 09:28

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég verð að biðjast afsökunar á því hvað ég er seinn að skrifa þetta.

Það er ekkert að því að vera ósammála lýðræðislegum niðurstöðum, það getur jafnvel verið heilbrigt.  Það er ekkert sem segir að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér, þó að eðlilegt geti talist að hann ráði frekar en minnihhlutinn.

Nú er tildæmis yfirvofandi ef ég hef skilið rétt, þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort að fræðsla um samkynhneigð til ungmenna í Ungverjalandi sé réttlætanleg eður ei.

Er rökrétt að einfaldur meirihluti ráði í málum sem slíku?  Og ef niðurstaðan verður sú að meirihlutinn ákveður að ungmenni hafi ekkert að gera með slíka fræðslu, þá kemur einfaldleg til kasta löggunnar.

Lengi vel var t.d. samkynhneigð ólögleg og þeir sem fannst það óeðlilegt "mættu löggunni".

Fullt af Kúbumönnum (sem upphaflega greinin fjallar að miklu leyti um) eru einmitt að "mæta löggunni" þessa dagana enda hafa þeir lögin á móti sér.  En hefur "löggjafinn" eitthvert raunverulegt vald þegar hann er ekki valinn af einum eða neinum?

Fjöldi fólks er einnig að "mæta löggunni" vegna sóttvarnaraðgerða víða um lönd þessa dagana og víða er deilt um vald valdhafanna til þess að beita þeim, reyndar hafa "lög og reglugerðir" hvað varðar sóttvarnir verið dæmdar ólöglegar eða í trássa við stjórnarskrá af dómstólum.

En það hefur ekki alls staðar stöðvað stjórnvöld í því að beita "löggunni" gegn þeim sem hafa mótmælt.

Hvað margar "sóttvarnarreglugerðir" hafa verið samþykktar af Alþingi á Íslandi?

P.S. Hvolpurinn Victoria vex stöðugt.  Sömuleiðis baráttan um hvort hún stjórni heimilinu, eða heimilið henni.

Hægt og rólega virðist hún þó reyna að sætta sig við "meirihlutaveldið", en reynir þó að brjótast undan því ef tækifæri gefst.

G. Tómas Gunnarsson, 25.7.2021 kl. 22:33

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég var sosum ekki að halda því fram að þeir sem stjórna löggunni hafi alltaf rétt fyrir sér, bara að ef maður gengur gegn lögunum þá megi maður búast við henni. Þannig er það í praxis. Teoretískt gæti það verið alrangt.

Hefur löggjafinn raunverulegt vald ef hann er ekki valinn af neinum?

Í praxís er svarið afdráttarlaust já. Einræðisherra sem rændi völdum hefur svo sannarlega raunverulegt vald. Sá sem stjórnar löggunni eða hernum hefur mjög raunverulegt (í merkingunni áþreifanlegt) vald. 

Teoretískt er þetta spurning um hvað "raunverulegt vald" þýðir. Þá áttu líklega við réttlætanlegt eða "lögmætt". En er til afdráttarlaust svar við þeirri spurningu? Sennilega ekki, við verðum að grípa til rökræðna og velja það sem sterkustu rökin kveða á um.

Sama, gamla sagan.

Kristján G. Arngrímsson, 26.7.2021 kl. 08:08

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þetta var illa eða klaufalega orðað hjá mér.  Ég átti eins og þú segir við að lögmætt í andstöðu við "illa fengið" vald.

Áþreifanlegt vald hefur alltaf fylgt stjórvöldum, hvort sem þau eru "lögmæt" eður ei.

Það deila líklega fáir um að eðlilegt sé að meirihlutinn hafi "vinningin" þegar um slíkt mál er að ræða að ekki getur verið nema "ein niðurstaða".

Það má líklega einnig deila um hvar nauðsynlegt er að "ein niðurstaða" ráði.

Þess vegna er spurning um hvort ekki sé rétt að ríkið dragi sig út úr mörgum málum.

Ég nefndi fræðslu um samkynhneigð í Ungverjalandi  hér að ofan.  Er það mál sem er eðlilegt að eingöngu sé þörf á "einni niðurstöðu"?

Annað sem ég sá nýlega, var niðurstaða skoðanakönnunum um hve lengi skemmtistaðir ættu að vera opnir á Íslandi.

Meirihluti vildi stytta opnunartímann.  En það var aferandi munur eftir aldri.

Er réttlætanlegt að þeir sem ef til vill sjaldan eða aldrei fara út að "skemmta" sér, skammti þeim sem vilja nota þjónustuna "opnunartíma"?

Er ekki rökréttara að hver og einn velji sér stað og opnunartíma eftir þörfum?

G. Tómas Gunnarsson, 27.7.2021 kl. 20:34

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ja, þetta með opnunartímann er orðið svolítið flókið. Covid smitast mikið á skemmtistöðum, skv. rakningum, og breiðist svo þaðan út um allt þjóðfélagið. Þannig káfar það upp á ekki bara þá sem fara út að skemmta sér, sem er væntanlega að mestu leyti ungt og hraust fólk, heldur líka á gamla og veikara fólkið. Þannig að þarna eru komin ákveðin rök fyrir því að gamla fólkið megi skammta unga fólkinu skemmtunartíma. Að minnsta kosti í Covid.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi ekki að vera í þeim málum sem einstaklingar geta séð um. En þegar í ljós kemur að þeir geta það ekki þá gerist það óhjákvæmilega að ríkið tekur við ef um er að ræða nauðsynlega þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu og bankaþjónustu. Það er nú enn frekar stutt síðan einkavæðing íslenskra banka endaði illa. Ég myndi aldrei treysta banka einum og sér fyrir peningunum mínum. Hann þarf að vera í ríkiseigu eða að minnsta kosti þarf allt sparifé að vera ábyrgst af hinu opinbera. Íslensku bankabjánarnir (þessi ungu og áhættusæknu strákbjálfar í bláum jakkafötum og með gul bindi) líða manni seint úr minni. Ég mun líklega ekki meðan ég lifi bera traust til banka.

Kristján G. Arngrímsson, 27.7.2021 kl. 21:59

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Skoðunarkönnunin um opnunartíma skemmtistaða var um hvort stytta ætti hann til frambúðar.

Er það "meirihlutamál"?

Eins og svo margt annað eru líkega skiptar skoðanir um slíkt, en persónulega tel ég ekki svo vera.

Hvað einstaklingar geta séð um og hvað ekki er ekki hægt að segja að hafi skýrar línur.

Geta einstakingar ekki rekið "poppútvarp" s.s. Rás2?

Blandað kerfi í heildbrigðismálum hefur gefist afar vel víða.  Það þarf ekki að leita lengra en til Kanada, þar sem mest allt heilbrigðiskerfið (víðast hvar) er rekið af einkaaðilum, en greiðandi er að stórum hluta einn, það er hið opinbera.

Ég held ég hafi ekki komið inn á ríkisrekna heilbrigðisstofnun hér.

En eins og alls staðar annars staðar er misjafnt hvað hið opinbera greiðir og hvað einstaklingar þurfa að punga út og skiptar skoðanir um slíkt eins og gengur og gerist.

Síðan eru margir með tryggingar sem þeir ýmist kaupa sjálfir eða fá frá vinnuveitenda.

En "tvöfallt" heilbrigðiskerfi hefur alltaf verið til staðar víðast ef ekki alls staðar.

Ég sé það ekki breytast.  Líklega hefur Ísland þó komist nærri því að vera með eitt kerfi hér í "den".

En þó að margir Evrópubúar hafi í gegnum tíðina talið eitt heilbrigðiskerfi ríkja, á hafa t.d. efnaðir Evrópubúar í gegnum tíðina sótt sér heilbrigðisþjónustu til Sviss.  Það var enda ákaflega hentugt fyrir þá, því þar geymdu þeir mikið af aurunum sínum. 

Bankar eru eins og önnur fyrirtæki, og bæði einkabankar sem og ríkisbankar hafa í raun orðið gjaldþrota á Íslandi og ríkið skorist í leikinn í flestum tilfellum.

Ég held að tveir litlir "svæðisbankar" hafi orðið gjaldþrota í Kanada síðan 1923, eða álíka, man það þó ekki nákvæmlega.

Þar er enginn ríkisbanki.

Það er hægt að líta á málin frá ýmsum sjónarhornum.

G. Tómas Gunnarsson, 28.7.2021 kl. 20:01

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, eins og ég sagði þá gilda þessi rök um ákvörðunarrétt gamla fólksins að minnsta kosti í Covid, en svona almennt myndi ég halda að það væri réttara að notendurnir fái að ráða.

Svona eins og þegar kosið var um framtíð Reykjavíkurflugvallar, eiginlega hefðu Reykvíkingar átt að ráða minnst um það þar sem þeir nota völlinn sennilega minnst allra landsmanna. Eða hvað?

Þetta með heilbrigðiskerfið snýst aðallega um að tryggja jafnan aðgang, þar er jú grundvallaratriðið sennilega greiðsla á kostnaði. Hvort ríkið beinlínis er rekstraraðili eða einkaaðili gerir þjónustusamning við ríkið getur verið útfærsluatriði. En ríkið þarf líka að tryggja að þjónustan sé viðunandi, það þýðir "eftirlitsiðnað". En um leið og auðmenn geta keypt sig framfyrir röðina er þessi jafni aðgangur farinn.

Þótt það hafi löngum tíðkast, t.d. í Sviss, segir sú staðreynd ekkert um hvernig æskilegt væri og réttlátt að haga aðgangi að heilbrigðisþjónustu. Og ekki heldur neitt um það að hverju skuli stefnt í þessum málum.

En ég held ég eiginlega biðjist undan frekari rökræðum um heilbrigðisþjónustu.

Varðandi bankana þá var ég hér á árum áður í viðskiptum við Royal Bank of Canada og síðar Bank of Montreal og velti aldrei fyrir mér eignarhaldinu á þeim. Sennilega eru það bara Íslendingar sem eru orðnir ofurviðkvæmir fyrir eignarhaldi á bönkum. Sporin hræða, eins og sagt er.

Kristján G. Arngrímsson, 28.7.2021 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband