8.5.2021 | 14:26
Fyrirtæki í opinberri eigu með forskot í samkeppni við einkageirann?
Það er áhugavert að lesa þessa frétt. Hér eru fyrirtæki í opinberri eigu að keppa við einkafyrirtæki og hefur betur.
Fyrst er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að um aðstöðumun er að ræða og ef svo er í hverju er hann fólginn?
Er hann fólginn í betri og ódýrari aðgangi að lánsfé vegna þess að fyrirtækið er opinberri eigu?
Hefur fyrirtækinu verið lagt til fé af eigendum sínum (t.d. í upphafi), útsvar borgarbúa notað til að tryggja starfseminni ódýrt fjármagn?
Fær fyrirtækið viðskipti frá eigenda sínum án útboðs?
Hyglar eigandi fyrirtækinu á einhvern annan hátt?
Greiðir fyrirtækið arð í borgarsjóð?
Eða er þetta allt "fer og skver"?
Það er þarft að velta því fyrir sér hvar samkeppni hins opinbera á sér stað og hvernig er brugðist við henni.
Eitt af því fyrsta sem kemur auðvitað upp í hugann er Ríkisvútvarpið og forskot þess á samkeppnismarkaði.
En ekki síður er vert að velta fyrir sér ásókn Kínverskra ríkisfyrirtækja inn á markaði víða um heim.
Mörg ríki, ekki síst Bandaríkin og ríki innan Evrópusambandsins vilja fara að grípa til aðgerða gegn ásælni og hugsanlegra undirboða Kínverskra ríkisfyrirtækja.
Ekki er ólíklegt að til einhverra lagasetninga komi til að tryggja samkeppnisgrundvöll innlendra fyrirtækja.
En er nema stigsmunur á opinberum fyrirækjum og opinberum fyrirtækjum?
Nema að því leiti að ég held að þjóðaröryggi sé ekki í húfi hvað varðar malbikunarstöð borgarinnar.
Samþykktu tilboð með óbragð í munni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
En skiptir eignarhald fyrirtækja nokkru máli? Er þetta ekki fyrst og fremst spurning um að neytendur (í þessu tilviki Kópavogsbúar) fái sem ódýrasta þjónustu og vöru?
Ég held að yfirleitt þyki markaðsfrelsisfólki eignahald fyrirtækis vera aukaatriði, amk. ef þau eru í einkaeigu. Þá skiptir engu máli þótt fyrirtækið njóti t.d. stuðnings fjársterkra aðila eða jafnvel vafasamra aðila, sem skapar auðvitað aðstöðumun og skekkir samkeppnisgrundvöllinn fyrir minni aðila með engan bakhjarl. Sem dæmi má nefna að Morgunblaðinu er haldið uppi með gjafafé frá útgerðarmanni. Er það eðlileg samkeppnisaðstaða?
Reyndar fannst mér frekar slappt af Ármanni frænda mínum og hinum í bæjarstjórninni að skrifa undir samninginn. Ef þetta vakti þeim svona mikinn viðbjóð af hverju tóku þau þá ekki bara aðeins hærra tilboði? Stjórnast þau svona algerlega af peningunum að öll önnur gildi eru sjálfkrafa sett til hliðar? (Eða ber þeim reglum samkvæmt að taka alltaf lægsta boði, ég veit það sosum ekki).
Kristján G. Arngrímsson, 8.5.2021 kl. 15:26
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Skiptir eignarhald einhverju máli, af hverju er verið að reka Samkeppnisstofnun o.s.frv?
Út af hverju er verið að meta fyrirtæki markaðsráðandi?
Það er ekki bannað að reka fyrirtæki með tapi, og alls ekki óeðlilegt að það sé gert um eitthvert skeið, ef það er talið lífvænlegt til lengri tíma.
En ég þekki ekki nóg til þessa "malbiks" til þess að dæma um hvort að óeðlilega hafi verið staðið að uppsetningu þess eða reksturs af hálfu borgarinnar.
Þess vegna setti ég fram nokkrar spurningar í upphaflega pistlinum.
En það er vert að hugsa til þess til hvers útsvar borgarbúa er notað. Er eðlilegt að þínu mati að það yrði notað til þess að setja á stofn alls kyns fyrirtæki sem svo keppa við fyrirtæki sem þegar starfa í borginni og greiða til hennar fasteignaskatta o.s.frv?
Ætti borgin að setja á stofn veitingastaði, fataverslanir, bankaþjónustu, steypustöð?
Borgin eyddi hundruðum milljóna í að gera upp húsnæði fyrir veitingastaði. Samt er borgin með "kvóta" á fjölda veitingastaða í næsta nágrenni við þessa veitingastaði?
Útboðsreglur gera almennt ráð fyrir að lægsta tilboði sé tekið, nema tilboðsgjafi uppfylli ekki skilyrði sem sett eru í útboði t.d. hvað varðar gæði eða annað.
Það er ekki hægt að bjóða út verk eða innkaup og svo "handvelja" þann sem á að skipta við.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 16:58
Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að borgin skuli eiga og reka malbikunarstöð. En því ekki það? Það angrar mig sosum ekkert. Fínt ef Kópavogsbúar (sem ég mun brátt teljast til) fá ódýrara malbik.
Þetta með Rúv á auglýsingamarkaði er svipað, síðast þegar ég vissi vildu auglýsendur óðir og uppvægir hafa það þar þannig að þetta er sjálfsögð viðbrögð við eftirspurn. Og hver er kominn til með að segja að ef Rúv yrði tekið af auglýsingamarkaði myndu fyrirtæki fara að auglýsa í öðrum, íslenskum miðlum? Eru ekki meiri líkur á að þá færi peningurinn úr landi í facebook og önnur risafyrirtæki?
Kristján G. Arngrímsson, 8.5.2021 kl. 17:32
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Hef heyrt því fleygt "að það sé gott að búa í Kópavogi", en það hef ég aldrei reynt á eigin skinni.
En voru útsvarspeningar Reykvíkinga notaðir til að byggja upp fyrirtæki sem tryggir Kópavogsbúum lægra verð?
Það er ef til vill lykilspurningin og ef útsvar var notað, eiga þá önnur fyritæki að þurfa að eiga við slíka samkeppni?
Hvað RUV varðar þá kemur eftirspurnin líklega ekki síst til vegna þess forskots sem RUV nýtur með þvingaðri skattheimtu, sem við skulum vona að leiði af sér betri og öflugri dagskrá.
Það er heldur ekki hlutverk hins opinbera (að mínu mati) að tryggja auglýsendum vettvang til að ná til almennings.
Hvað varðar að auglýsingafé fari erlendis, er ef til vill ekki rétt að setja þá umræðu í 1. pott.
Þó nokkuð af því fé er líklega komið til vegna þess að innlendir aðilar vilja ná til útlendinga.
Google, ef ég hef skilið rétt, skilar svo þó nokkrum hluta af tekjum sínum til Íslenskra vefmiðla og vefsíðna, sem nota Google til að selja auglýsingar á sínar síður. Er það ekki bara jákvætt?
Svo er aftur spurning hvort að það sé eitthvað óeðlilegt að fjölmiðlun þurfi að búa við erlenda samkeppni eins og fjöldi annara starfsgreina?
En, þar eins og í öðrum tilfellum, á þarf auðvitað að gæta að umhverfiu, laga og skatta, og innlend fyrirtæki eiga að sjálfsögðu að njóta jafnréttis.
Það eiga "hinir" malbikararnir líka að gera. Hvort á þá er hallað veit ég ekki fyrir vissu, en um þær vangaveltur snerist upphaflega færslan.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 18:39
Þú átt við að spurningin sé hvort Reykvíkingar séu að niðurgreiða malbikið fyrir Kópavogsbúa?
En sem Reykvíkingi finnst mér allt í lagi þótt útsvarið mitt hafi farið í að byggja upp fyrirtæki sem skilar borginni arði. Ég hef svona ídeólógíst ekkert á móti því að hið opinbera reki fyrirtæki. Síst af öllu ef það tryggir þjónustu sem annars fengist ekki (sbr. Rúv). Nú og ef útsvarið mitt kemur til baka í formi arðs af fyrirtækinu þá er þetta hið besta mál, ekki satt?
Það er svo held ég ekki nokkur vafi á því að hin þvingaða skattheimta (er ekki öll skattheimta þvinguð?) Rúv skilar sér í besta fjölmiðli landsins. Svo fyndist mér líka harla undarlegt ef hið opinbera gengi í það að svipta íslensk fyrirtæki möguleikum á að auglýsa vörur sínar á þann hátt sem þau kjósa sjálf.
En þessi deila um Rúv á auglýsingamarkaði er svolítið kjánaleg vegna þess að þeir sem eru eindregið á móti veru Rúv þar eru það eingöngu á einhverjum hugmyndafræðilegum ástæðum. Ekki vegna þess að brotthvarf Rúv af auglýsingamarkaði myndi skila einhverjum jákvæðum afleiðingum fyrir nokkurn mann. Þetta er dæmi um það þegar ídeólógía og sannfæring um hvað sé hið eina rétta ber alla skynsemi og praktíska hugsun ofurliði.
Soldið eins og stóra berjarunnamálið sem þú hefur eflaust heyrt um - en enginn getur tjáð sig um því að það er svo ævintýralega vitlaust.
Kristján G. Arngrímsson, 8.5.2021 kl. 19:53
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ef eðlilega hefur verið að málum staðið alla tíð, "malbikið" keppir á nákvæmlega sama grunni og önnur fyrirtæki o.s.frv. þá getur rekstur hins opinbera verið ágætur.
En ef fyrirtækin skila ekki raunverulegum arði? Finnst þér eðlilegt að útsvar borgarbúa sé notað í áhættufjárfestingar?
Ættu fyritækjaeigendur að geta beðið borgina um smá hlutafé, ef talið er líklegt að fyrirtæki skili einhverjum arði, sem borgin fengi þá af í réttu hlutfalli við fjárhæðina.
Ég hef ekki verið talsmaður þess að taka RUV af auglýsingamarkaði. Ég myndi frekar vilja afnema skylduáskriftina, væri svo sem sama þó að RUV væri lagt niður. Sbr, þess færslu: https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2259850/
Einn af spekingum VG helt því líka fram að RUV væri starfrækt til að tryggja aðgengi almennings að auglýsingum óháð efnahag, ef ég hef skilið málið rétt.
Ég hugsa að hvarf RUV af auglýsingamarkaði yrði mjög jákvætt fyrir aðra ljósvakamiðla, sérstaklega útvarp.
Útvarp er jú með stærsta bitann af kökunni á Íslenskum auglýsingamarkaði, og að mörgu leyti í sókn. Það er líka síður hætta á því að slíkt færist yfir á "samfélagsmiðla".
Samkeppnin á hljóðmarkaði er þó mikil og "köst" alls konar í sókn.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 20:12
Miðað við reynsluna munu Kópavogsbúar fá lélegra malbik og ver noðurlagt en undanfarið.
En það bara mín skoðun. Hugsanlega eru einhverjir í bæjarstjórn Kópavogs sammála mér þar.
Hins vegar mega opinberir aðilar ekki ekki taka öðru en lægsta tilboði ef það uppfyllir skilgreinda útboðsskilmála. Það er víst til að koma í veg fyrir það sem kallast spilling.
ls (IP-tala skráð) 8.5.2021 kl. 22:02
@ls, þakka þér fyrir þetta. Ég hef einfaldlega ekki vitneskju um "gæði" malbiksins, en það getur auðvitað verið "tóm tjara".
Þó á ég erfitt með að trúa að ekki hafi verið einhver ákveðinn gæðastaðall sem miðað hefur verið við í útboðinu, og jafnframt verði viðhaft gæðaeftirlit af hálfu Kópavogsbæjar.
En það verður fróðlegt að fylgjast með hvort að einhver áfamhaldandi umræða verði um þetta mál.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 22:25
Vandinn er að það er erfitt að setja í útboðslýsingu að menn eigi að gera þetta almennilega og bara hana nú.
Einkaaðilar geta sagt að þeir treysti einfaldlega þessum betur en hinum, en ef opinber aðili gerir það er hrópað: Spilling! Auðvitað stundum með réttu en stundum ekki.
En fyrirtæki í einkaeigu hefur alltaf forskot. Stundum eru sett skilyrði í útboð um fjárhagsstöðu, og í öllu falli getur fyrirtækið í opinberri eigu alltaf leitað í vasa eigendanna (skattgreiðenda).
Annars væri athyglisvert að vita hversu mikill rífandi hagnaður er af þessu fyrirtæki, og Reykvíkingar eru að fá í arð.
ls (IP-tala skráð) 9.5.2021 kl. 09:38
Ármann frændi minn kveðst klóra sér í höfðinu yfir þessu og þykir þetta allt með ólíkindum. Hann útskýrir sosum ekki hvers vegna, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hann segði ekki orð ef flokksbræður hans væru við stjórnvölinn í Reykjavík.
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 13:08
@ls, þakka þér fyrir þetta. Þó að ég hafi einstaka sinnum unnið við útlagninu á malbiki fyrir einhverju áratugum, verð ég að viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um gæðin. Ég gerði bara eins og mér var sagt :-)
Ef ég man rétt hefur Malbikunarstöðin Höfði, fengið á sig mikla gagnrýni fyrir gæði malbiks, m.a. síðastliðið sumar, en ég þekki ekki hvernig það stendur í samanburði við önnur slík fyrirtæki.
Því tel ég einsýnt og vona að Kópavogur muni viðhafa strangt gæðaeftirlit og fylgja því eftir að öll skilyrði útboðsins séu efnd.
Svo er hitt að það getur verið eðlilegt að opinberir aðilar starfsrækji fyrirtæki, sérstaklega til að sinna eigin hlutverkum.
Til dæmis i sorphirðu, gatnagerð, dagheimilisrekstri o.s.frv.
En væri t.d. eðlilegt ef að Reykjavíkurborg byggði upp dagheimili í Hafnarfirði, ræki það og þæði þær niðurgreiðslur sem Hafnarfjarðarbær greiðir til dagheimila (bæði sinna og "einkarekinna").
Væri þá Reykjavíkurborg að starfrækja "einkarekið" dagheimili og væri það hið "besta mál"?
Fær Höfði til dæmis öll viðskipti Reykjavíkurborgar án útboðs? Ég þekki það ekki til að fullyrða. Það auðvitað tryggir ákveðið magn, sem auðveldar líklega rekstur og lækkar meðalverð, ef svo má að orði komast.
Er það eðlilegur grunnur til að byggja upp fyrirtæki og sækja fram á markaðnum?
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég þekki ekki söguna, en ég fékk það á tilfinninguna að þetta væri í fyrsta sinn sem þetta gerist, en ég er ekki að fullyrða neitt þar um.
Það væri varla mikið fréttaefni ef þetta gerðist reglulega, eða hvað?
G. Tómas Gunnarsson, 9.5.2021 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.