4.5.2021 | 17:24
Er gott fyrir vín að eldast í geimnum?
Vín batnar með aldrinum, því eldri sem ég verð því betra finnst mér það. En að öllu gamni slepptu þá hefur lengi verið leitað að leið til að "elda" vín við ýmsar aðstæður.
Það er áríðandi að vínið eldist við bestu aðstæður og auðvitað æskilegt að það sé drukkið sem næst toppi gæða þess (þar geta verið skiptar skoðanir).
En nú á víst að fara að bjóða upp eina af vínflöskunum frá Petrus, sem voru sendar út í geiminn, til Alþjóðlega Geimstöðvarinnar og geymdar þar í þyngdarleysi í kringum ár.
Margir sérfræðingar segja að það sé enginn vafi á því að gæðin hafi aukist umtalsvert við geimdvölina og búist er við að flaskan seljist fyrir metfé, jafnvel allt að milljón dollurum.
Með í kaupunum fylgir samskonar flaska (Petrus 2000 árgangur)sem aldrei hefur ferið í geimferð, alveg ókeypis, þannig að væntanlegur kaupandi mun geta borið gæði vínsins fyrir og eftir geimferð, fari svo að flöskurnar verði opnaðar. Reyndar mun "jarðbundna" flaskan kosta allt að 10.000, dollara, þannig að ef "lífsreynda" flaskan selst á milljón, má líta á það sem 1% afslátt.
Hér er svo grein frá Decanter, sem segir frá smökkun á annarri "geimferðarflösku" og þar er talað um að hún sé 2 til þremur árum á undan "á þróunarbrautinni".
Það er reyndar ekkert minnst á kolefnissporið, sem kom mér nokkuð á óvart.
En svo fór ég að velta því fyrir mér hvernig þetta hljómar á Íslenskunni. Myndi ég segja að verið sé að bjóða upp "geimelt" vín?
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.