31.5.2007 | 02:58
Góð spretta
Sprettan að Bjórá er góð. Hér er allt á leið upp úr jörðinni. Blóm eru í hverju horni, kryddjurtirnar stækka dag frá degi, baunir eru að skjóta upp kollinum, blóm eru komin á tómatplönturnar, knúppar á paprikurnar og rósirnar, nektarínu og plómutrén bæta á sig laufum daglega og kirsuberin eru orðnin býsna stór, þó að enn séu þau græn. Myntan plummar sig vel á nýjum stað og Lavender og alls kyns góss skartar sínu fegursta.
Veðrið hefur enda verið gott, "brakandi þurkur" flesta daga, með úrhellisrigningu þess á milli. Hitinn vel á þriðja tuginn og sól í "heiði" því sem næst alla daga.
Ef fram heldur sem horfir fer ég að grobba mig af því að hafa græna fingur. En það er rétt að taka það fram að það verða þá hægri grænir fingur.
En það eru ekki bara plönturnar sem hafa það gott að Bjórá þessa dagana, börnin hafa það svo ljómandi gott og nýta "ömmustundirnar" sem best þau geta, sérstaklega þó Foringinn sem ekki getur farið að sofa án þess að amma sé þar nálægt og lesi 2. til 3. bækur. Best finnst honum ef hann fær að lúlla aðeins hjá ömmu.
Systkinin duttu reyndar í lukkupottinn og eignuðust forláta sandkassa í síðustu viku. Stóran rauðan sandkassa í krabbalíki, með loki og öllu tilheyrandi. Vegagerð Foringjans í matjurtabeðunum varð þess valdandi að ekki þótti stætt á öðru en að kaupa sandkassa og reyna að veita athafnaþrá hans útrás á afmörkuðu svæði.
Jóhanna tekur þessu með öllu meiri ró, en kann þó vel við sig hjá ömmu, sýnir þá gjarna báðar tennurnar og segir "da da", býsna hátt og með nokkrum áhersluþunga.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.