Að dæsa yfir Pfizer, bóluefni og siðferði

Í sjálfu sér þarf það ekki að koma neinum á óvart (og allra síst svona eftir á, lol) að Pfizer hafi ekki þótt það fyrirhafnarinnar virði að efna til rannsóknar á Íslandi.

Eftirspurnin eftir bóluefni er næg.  500.000 skammtar eru líklega nokkra miljarða (ISK) virði.

Þess utan, þegar framleiðslugetan er takmörkuð og ríki og ríkjasambönd allt að því hóta bóluefnaframleiðendum og "reida" verksmiðjur þeirra, þá verður að stíga varlega til jarðar.

Ég er einnig sammála því að því er líklega (ég er nú langt frá því sérfræðingur) lítið rannsóknargildi í því að bólusetja þjóð þar sem sárafáir hafa veikst og smit eru fá.  Hvernig leiðir slók rannsókn fram gagnsemi bólusetningar?

Ja, ekki nema að hugsunin hafi verið að flytja inn smitaða einstakinga gagngert til að sjá hvernig bólusetningin virkaði.

Sem félags- eða mannfræðirannsókn hefði það hins vegar líklega verið áhugavert, það er að sjá hvernig hegðun og upplifun heillar þjóðar hefði hugsanlega breyst.

En rannsóknin í Ísrael virðist ganga vel og þar má sjá beinan árangur af bólusetningum ef marka má fréttir.  Þó er merkilegt að lesa að smitum fjölgi samhliða því sem fjöldi bólusettra eykst.

Ef til vill má rekja það til bjartsýns atferlis í kjölfar bólusetningar, en um slíkt er erfitt að fullyrða.

Það sem ég á hins vegar erfiðara með að skilja (þó að ég sé meðvitaður um ýmis þau rök sem fram eru færð), er sá siðferðislegi "vinkill" sem mátt hefur heyra nokkuð víða, í fræðasamfélaginu og einnig í hinu pólítíska.

Þá er spurt hvort að réttlætanlegt sé að Íslendingar "fari fram fyrir í röðinni" og yrðu hugsanlega bólusettir á undan öðrum þjóðum.

Þá er ef til vill rétt að velta fyrir sér hvort að Íslendingar hafi hikað við að "fara fram fyrir í röðinni" hingað til?

Nokkurn veginn á sama tímabili og liði hefur frá því að einhver svakalegasti heimsfaraldur (Spænska vekin) geysaði, hafa Íslendingar stigið fram á við, frá því að vera á meðal fátækari þjóða heims til þess að vera á meðal hinna best settu.

Á þeim tíma hafa Íslendingar "farið fram fyrir í röðinni" og menntað íbúa sína betur en flestar aðrar þjóðir.

Íslendingar hafa fjárfest í heilbrgðiskerfi sínu sem hefur sett þá "framar í röðina" en flestar aðrar þjóðir.

Er það siðferðislega rangt?

Fjárfest hefur verið í menntun og tækjabúnaði sem margar aðrar þjóðir hafa ekki, sem t.d. hefur leitt af sér að ungbarnaadauði hefur snarminnkað og lífslíkur Íslensku þjóðarinnar hafa aukist.

Er að siðferðislega rangt?

Miklum fjármunum hefur verið varið til forvarna og lækninga á hinum ýmsu krabbameinum, sem hefur stórlega aukið líflíkur þeirra sem slík mein hrjá á Íslandi.  En vissulega standa krabbameinssjúklingum í mörgum öðrum löndum ekki til boða sömu úrræði.

Er það siðferðislega rangt?

Flestir Íslendingar eru bólusettir við fjölda sjúkdóma, jafnvel þó að íbúum ýmissa annara landa standi slíkt ekki til boða (og alls ekki án gjalds) sömu bólusetningar.

Er það siðferðislega rangt?

Auðvitað er það vinsælt (og Woke, lol) að tala í sífellu um sjálfan sig sem "forréttindapakk", en staðreyndin er sú að vissulega er gæðum heimsins misskipt.

Íslendingar (eins og margar aðrar þjóðir) hafa notað þann auð sem skapast í landinu til að setja íbúa sína "fram fyrir í röðinni" í mörgum efnum.

Er það siðferðislega rangt?

Að þessu sögðu er að sjálfsögðu eðlilegt að Íslendingar hjálpi fátækari þjóðum með að kaupa bóluefni.

En ég hygg að Íslendingar vilji flestir að Íslenskir hagsmunir séu settir ofar alþjóðlegum, ella væri jú rökrétt að Íslenskum fiskimiðum væri deilt út á milli þjóðanna eftir fólksfjölda eða efnahag.

 

 

 


mbl.is Rannsókn Pfizer í Ísrael lofar góðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað þýðir reida?

Björn S. Stefánsson (IP-tala skráð) 12.2.2021 kl. 09:13

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það er nú líka merkilegt að þessir lyfjaframleiðendur skuli "finna" meira bólefni á lagernum en þeir héldu að þeir ættu

Vaccinsamordnaren: Sverige får fler vaccindoser än väntat | SVT Nyheter

Astra Zeneca meddelar nu att man har hittat fler vaccindoser från andra anläggningar och kommer att öka sin leverans.

Grímur Kjartansson, 12.2.2021 kl. 09:20

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ástæðan fyrir þessari deilu er ólíkur skilningur á tilgangi bólusetninga. Hingað til hefur tilgangur þeirra verið að hindra veikindi og dauða. Þetta er sjónarmiðið sem skín í gegn í gagnrýni siðfræðinganna á þessi áform um að Ísland fari fram fyrir í röðinni. Áherslan eigi að vera á að bólusetja þá sem eru í hættu, hvar sem er í heiminum.

En aðrir virðast líta svo á að tilgangur bólusetninga sé ekki að hindra veikindi og dauða heldur að tryggja opið samfélag. Þessi hugsun grundvallast á þeirri villu að bólusetning sé yfirleitt einhver forsenda þess. Það liggur nefnilega fyrir að ef viðkvæmir hópar eru varðir, og það er enn einfaldara nú þegar bóluefni eru komin, er veiran í heildina alveg hættulaus.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2021 kl. 09:57

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef ég hef skilið Þórólf rétt taldi hann að siðferðisvinkillinn og spurningar heimspekinganna stöfuðu kannski af misskilningi og/eða skorti á upplýsingum.

Sjálfur get ég ekki gumað af því að hafa alveg áttað mig á þessu en ákvað eiginlega bara að treysta Þórólfi og Co. 

En að einhverju leyti stóð ekki til að Íslendingar myndu bara græða á þessu öllu saman heldur var áhættan okkar að einhverju leyti, þ.e. með því að gerast tilraunadýr. Og gagnsemin af því að bólusetja okkur átti jú að gagnast allri heimsbyggðinni - en eins og þú rekur þá sá Pfizer fyrirfram að sá árangur myndi ekki nást og því varð ekkert úr þessu.

Svo hefði bóluefnið sem Ísland var búið að kaupa verið gefið öðrum þannig að þetta hefði ekki orðið alveg "zero-sum".

Kannski var eðlilegt að heimspekingar leggðu áherslu á að ræða málin, þeir vinna jú við að ræða málin. En gallinn við þessa umræðukröfu er bara sá, að það eru alls ekki allir jafnir þegar kemur að "umræðuborðinu" - ýmist vegna tímaskorts, upplýsingaskorts, greindarskorts og guð má vita hvað. Úr getur orðið það sem annar heimspekingur nefndi einu sinni í öðru samhengi "alræði hinna orðhögu". Við minni spámenn hefðum orðið að leggja traust okkar á skynsemi annarra - eins og ég hef í þessu máli öllu fengið lánaða skynsemi Þórólfs.

En ég veit ekki alveg hvort hægt er að bera saman gæði eins og tiltekið bóluefni við tiltekinni veiki og svo hluti eins og uppbyggingu heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Bóluefnið er gæði af mjög skornum skammti sem fæst frá öðrum en heilbrigðis- og menntakerfi eru gæði sem ekki eru að sama skapi til í takmörkuðu magni. Til að bóluefnið nýtis sem gæði þarf það að fást hér og nú, en heilbrigðis- og menntakerfi eru gæði sem ekki missa gildi sitt þótt þau séu lengur að myndast og Íslendingar ekki farið fram fyrir í röðinni í sama skilningi og ef þeir hefðu allt í einu fengið helling af bóluefni.

Þannig að þetta er soldið að bera saman epli og appelsínur.

(Svo má ekki gleyma því að lífsgæðin eiga Íslendingar að stórum hluta öðrum að þakka - aðallega held ég Dönum og Bandaríkjamönnum.)

Kristján G. Arngrímsson, 12.2.2021 kl. 12:33

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Björn, þakka þér fyrir þetta. Akkúrat á meðan ég var að hamra þetta á lyklaborðið þá vantaði mér orð yfir Enska orðið "raid", þannig að ég stafsetti það upp á Íslensku og setti gæsalappir utan um.

Mér þótti ekki rétt að þýða þetta sem "árás" eða "áhlaup", hef verið að velta þessu fyrir mér og ef til vill væri besta Íslenska orðið "húsrannsókn", hef þó ekki komist að endanlegri niðurstöðu.

@Grímur, þakka þér fyrir þetta. Það hefur líka verið fjallað um að að mismunandi fjöldi "skammta" sé í bóluefnaglösum.  Mér skilst að í upphafi hafi Pfizer t.d. ekki rukkað nema fyrir 5 í hverju glasi en síðan aukið það upp í 6.

Bara það að "fíntjúna" hvaða magn fer í hvert glas gæti t.d. hugsanlega aukið "magn á lagernum", en ég þekki ekki nóg til þess að segja hvað er að gerast þarna.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég helda reyndar að býsna margir séu þeirrar skoðunar að "fjarvera" (að hindra veikindi og dauða) smitsjúkdóma sé forsenda fyrir opnu og heilbrigðu samfélagi.

Mér sýnist nú að staðan sé nú sú að ekki verði um "opið" samfélag að ræða fyrr en búið verður að bólusetja stærstan hluta hverrar þjóðir.

Fyrr mun ekki fást ró og traust í samfélaginu. Hræðslan er einfaldlega orðin slík.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það má að sjálfsögðu kalla það ákveðna bíræfni að bjóða fram heila þjóð sem tilraunahóp án þess að umræða hafi farið fram. En ég held að það hafi ekki verið vanhugsað.

En ég hugsa að margar þjóðir hefðu verið tilbúnar til að "fórna" sér fyrir tilraun sem þessa. En ég hygg að Íslendingar hefðu hentað ágætlega.

En heilbrigðiskerfið á Íslandi (sem og mörgum öðrum löndum) er að hluta til byggt með notkun tækja og lyfja sem eru dýr og oft er skortur á þeim.

Bara svo ég nefni tvö nýleg dæmi, þá glöddust að ég held flestir Íslendingar þegar í gegnum "sambönd" keyptu Íslenk fyrirtæki all nokkrar öndunarvélar og gáfu Íslenska heilbrigðiskerfinu. 

Þá var mikill skortur á öndunarvélum í heiminum og þær virði "þyngdar sinnar í gulli".

Ekki veit hvort að þær voru allar í noktun í einu á Íslandi, en vissulega má hugsa sér að þörfin hefði verið meiri fyrir þær í öðrum ríkjum.

Íslendingar eru einnig ný búnir að kaupa sér "risa" græju til að greina smit.  Hún kostar mikið fé og mér skilst að það sé "biðröð" eftir því að fá þær.

Sjálfsagt má halda því fram að þörfin fyrir slíka maskínu sé meiri hjá fátækari þjóðum þar sem smitin eru fleiri.

Hefðu Íslendingar frekar átt að senda hana til aðstoðar öðrum þjóðum?

Sjálfsagt má færa rök fyrir því að sá hlífðarbúnaður sem Íslendingar sóttu á breiðþotum hefði ekki síður, ef ekki betur, nýst á öðrum stöðum þar sem smit voru fleiri og þörfin meiri.

Það er fjöldi lyfja sem eru til í takmörkuðu magni og kosta of mikið til að fátækari þjóðir hafi í raun aðgang að þeim.

Epli og appelsínur eru jú bæði ávextir.

Reyndar eru bóluefnin frá Pfizer og Moderna þau lang dýrustu sem eru nú á markaðnum.  Þess vegna hafa flest fátækari lönd t.d. frekar veðjað á bóluefni frá öðrum framleiðendum.

Ég held að fáir hafi talið Íslendinga ríka þjóð þegar þeir urðu fullvalda og tæplega heldur þegar sjálfstæði var náð.

Hversu mikið Bandaríkjamenn hafa hjálpað Íslendingum er líklega umdeilanlegt, en heilt yfir hafa Íslendingar líklega hagnast á viðskiptum við þá. Ég held þó að það hafi ekki ráðið úrslitum.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2021 kl. 17:11

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta með Bandaríkjamenn, ég átti bara við það sem hefur oft verið bent á að "blessað stríðið" og eftirmálar þess færði Íslendingum talsverða auðsæld, sbr. að þá höfum við skroppið inn í 20. öldina.

Og ég veit ekki hvort þú manst eftir því sem Bárður Halldórsson sagði okkur sagnfræðinni hérna í gamla daga að Íslendingar hafi verið mjög heppnir með nýlenduherra þar sem voru Danir.

Það er gömul saga að á Íslandi hafi björgin komið að utan - án þess ég ætli að halda því fram að svo sé enn, en segja má að stoðir undir íslenskan uppgang hafi komið frá útlöndum. Til dæmis Marshallhjálpin blessuð, sem Íslendingar fengu þótt hér væri alls ekki "allt í rúst".

Kristján G. Arngrímsson, 12.2.2021 kl. 18:39

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hugsa að jafnvel þótt búið sé að bólusetja meira og minna alla hverfi hræðslan ekki við það. Hún er nú þegar algerlega úr takti við tilefnið, og það versnar bara. Eina raunverulega leiðin út úr vandanum er að fólk átti sig á því.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2021 kl. 19:34

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað man ég vel eftir tímunum hjá Bárði.  Þar var nú ekki töluð vitleysan eins og stundum er sagt.  En það má alveg taka undir að Íslendingar hafi verið "heppnir" með nýlenduherra.  En að það eða nýlenduherrarnir hafi gert Íslendinga ríka er allt önnur saga og ég held að það eigi ekki við.

Enda Íslendingar fátæk þjóð þegar slitnaði á milli.

Íslendingar högnuðust á hervernd Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöld, það skapaði vinnu og þeir keyptu kost.

En Íslendingar högnuðust fyrst og fremst á því að selja fisk, mest til Bretlands.  Margir lögðu sig í mikla hættu við koma fisknum þangað og það kostaði all nokkur mannslíf.

Vissulega var það stórmannlegt af Bandaríkjunum að aðstoða Evrópulönd og þar með Ísland.

Danir fengu einnig hluta af henni, án þess að þar væri "allt í rúst", þó vissulega hafi Danmörk þolað verri hersetu en Íslendingar.

En Svíar fengu einnig hluta af sðstoðinni, sama gildir um Portúgali sem og Írland og Tyrkland.

En Íslendingar nutu velvilja Bandaríkjanna og seldu þangað mikið af fiski.

En ætli megi ekki segja að það sem hafi lagt grunninn að lífsgæðum sem Íslendingar njóta nú, sé að hafa náð stjórn á fiskimiðunum í kringum landið en þau væru ekki almenningur.

Síðan er rafmagnið og orkunýting.

Ég hugsa að þetta sé grunnurinn sem síðan hefur tekist nokkuð vel að byggja ofan á, og þessu er auðvitað aldrei lokið.

En Ísland hefur orðið vel stætt af alþjóðaviðskiptum, enda væri lítils að hafa allan þennan fisk, ef ekki væri hægt að selja hann.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég er alveg sammála því að hræðslan er orðin of mikil, en ég hef ekki ráð við því.

Mér sýnist að jafnvel fleiri Íslendingar vilji herða á, frekar en að slaka til, en ég er í sjálfu sér ekki dómbær á "hugarfarið".

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2021 kl. 21:20

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það sem ég held að Bárður hafi átt við var að Danir hafi frekar verið tilbúnir til að virða sjálfsákvörðunarrétt Íslendinga en t.d. Bretar hefðu verið. Hann benti á að ef Ísland hefði orðið bresk nýlenda væru handritin örugglega ennþá í British Museum.

Kannski studdu Danir þá eftir alltsaman Íslendinga til sjálfsforræðis eins og góðum uppalanda er tamt. 

Varðandi meinta hræðslu þá er held ég almennur hljómgrunnur fyrir því að loka öllum "landamærum" (þ.e. Kef.) enn betur með það að markmiði að hægt verði að draga verulega úr t.d. grímunotkun í sumar og fara ferða sinna nokkuð rólegur. Er það óskynsamlegt og byggt á hræðslunni einni frekar en skynsemi?

Tja, ég er ekki frá því að þetta gæti alveg verið hræðslunnar virði.

Kristján G. Arngrímsson, 12.2.2021 kl. 21:41

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Röklaus ótti er aldrei góður leiðarvísir. Og sé manni ekki sama um þær tugþúsundir sem ganga atvinnulausar vegna lokana og hafta eru litlar líkur á að maður telji slíkt þess virði.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2021 kl. 12:34

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það halda því að ég tel fæstir fram að Danir hafi verið svo slæmir, allra síst sé litið til ýmissa annarra nýlenduherra. Danir höfðu heldur að ég tel engan áhuga á því að kæfa sjálfstæðisvilja íslendinga með valdi, þó settu Danir (einliða) lög sem skilgreindu Ísland sem "óaðskiljanlega hluta af Danmörku". 

En þú hefur ekkert sagt um hvers vegna Íslendingar ættu að þakka þeim fyrir að vera vel stæð þjóð.

Var ekki sama "söluræðan" flutt fyrir hálfu ári síðan þegar "tvöfalda skimunin" var tekin upp.  Átti það ekki að leiða til þess að Íslendingar gætu lifað "eðlilegu lífi"?

En eftir því sem ég kemst næst er engin á sjúkrahúsi, í sumum landsfjórðungum hefur ekki fundist smit svo mánðuðum skiptir, ætli megi ekki segja að í kringum 1. smit sé að meðaltali á dag á landinu í heild.

Samt sem áður eru alls kyns höft og þvinganir í gangi.

Hvað þarf til að svo að "eðlilegt líf" sé mögulegt?  Þrjá mánuði án smita? Meira? Minna?

Reyndar þykir mér að smit á landamærunum á Íslandi verðskulda sérstaka skýrslu, ef ekki rannsókn.

Það virðist með eindæmum hvað margir smitaðir koma til Íslands.  Allt að 10% farþega í einstaka flugvélum hafa reynst smitaðir. 

Þannig virðast á ákveðnum punktum flugvélar á leið til Íslands vera á meðal þeirra staða sem smit er útbreiddast í heiminum.

Það væri fróðlegt að sjá hvaðan þessir einstaklingar eru að koma, hvað þeir hafa dvalið lengi burt frá Íslandi (að meðaltali) og hvar.     Hvernig aldurskipting er, hvort að þeir hafi sýnt einhver einkenni við komuna,  hvort að þeir hafi eftir komuna orðið (mjög) veikir, hvort að einhver þeirra hefur þurft á sjúkrahúsvist að halda o.s.frv.

Gæti verið þörf rannsókn.

En hvort að "almennur" hljómgrunnur sé fyrir að "loka" öllum landamærum ætla ég ekki að dæma um heyri mismunandi skoðanir um slíkt. Gæti farið eftir "búbblum".

Hef reyndar áður minnst á það að stuðningur við aðgerðir virðist mér fara að eihverju marki eftir stöðu og  tekjumissi, en það er algerlega óvísindaleg niðurstaða.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Óttinn er til staðar, mætti segja að hann hafi markvisst verið bygður upp.  Hann hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu, nema með aðgerðum s.s. bólusetningu.

G. Tómas Gunnarsson, 13.2.2021 kl. 19:49

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta með blessaða Danina. Ég var nú ekki að meina að þeir hefðu einir og sér gert Íslendinga ríka - málið er að sjálfsögðu flóknara. Ég var bara að geta mér þess til, alveg óvísindalega, að þeir hefðu stutt Íslendinga til sjálfsbjargar, t.d. með því að arðræna þá ekki (mikið) eins og líklega flestir aðrir nýlenduherrar hefðu gert.

Hefði Íslendingum vegnað betur ef þeir hefðu aldrei orðið "órjúfanlegur hluti af Danmörku"? Um það verður auðvitað ekkert fullyrt, en mér er það til efs. En hef, aftur, ekki vísindalegar sannanir fyrir því.

En talandi um Danmörku - nú er það hugmynd að gera eins og þeir við landamærin, þ.e. krefjast þess að þeir sem hingað koma fái "bevís" uppá að vera Covid-lausir áður en þeir leggja upp áleiðis hingað.

En hvað áttu við með því að ótti hafi verið markvisst byggður upp? Hver hefur byggt hann upp og hvers vegna? (Þetta hljómar eins og efnileg samsæriskenning).

Kristján G. Arngrímsson, 13.2.2021 kl. 20:04

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég ætla ekki að blanda mér í hugsanlegt rifrildi ykkar félaga um óttann, en vil þó lýsa skoðun minni, bara til vonar og vara: Ég held að það sé ekki um neitt samsæri að ræða hér. Rétt eins og í galdrafárinu á sínum tíma magnast óttinn upp meðal almennings fyrst, í kjölfarið taka fjölmiðlar og samfélagsmiðlar við (þá var það prentlistin) og svo vindur þetta upp á sig eins og einhvers konar vítahringur. Það er að vísu rétt að sums staðar hafa stjórnvöld markvisst byggt upp ótta, til dæmis á Bretlandi, en ég efast samt um að það geri á endanum útslagið. Jarðvegurinn verður að vera til staðar, og samþykkið fyrir því að lög og réttindi séu sett í uppnám (iustitium) þarf einnig að vera til staðar. Óttinn dugar til þess.

Það er áhugavert að bera þetta saman við stríðið gegn hryðjuverkum í kjölfar 9/11.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.2.2021 kl. 21:03

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þú sagðir aldrei að Danir einir og sér hefðu gert Íslendinga ríka.  Þú sagðir: Svo má ekki gleyma því að lífsgæðin eiga Íslendingar að stórum hluta öðrum að þakka - aðallega held ég Dönum og Bandaríkjamönnum.

Ég held reyndar að það hafi í sjálfu sér ekki verið miklu að ræna. Þó var vissulega einhver auður í landinu. Einhver tilraun var gerð til að nýta brennistein.

Svo reyndar fengu Danir merkilegt tilboð um að skipta á Íslandi og Louisiana, en það komst að ég tel aldrei verulega á skrið.  En Frakkar höfðu þá hugmynd að nota Ísland sem flotastöð til að berja á Englendingum.  Louisiana skilaði þeim engum arði (það er ekki eins og allar nýlendur hafi í gegnum söguna gert það) og því kom þessi hugmynd upp.

Ef það hefði gengið eftir gengir þú líklega um með "beret" og drykkir ódýrar rauðvín en gerist í dag.  En þetta eru svona léttari strengir, eða ætti ég að segja "chansons"?

En það er engin leið að segja til um hvort að Íslandi hefði vegnað betur eða verr, hafði landið aldrei komist undir stjórn Noregs og svo Danakonungs og t.d. haldið sjálfstæði alla tíð.

Það er ekki eins og hægt sé að framkvæma samanburðarrannsóknir á því.

Það er t.d. vert að hafa í huga að fullveldið 1918 kom í kjölfarið á gríðarlegum þrengingum.

Í kringum fjórðungs þjóðarinnar hafði einfaldlega flutt á brott. Efnahagsástandið var einfaldlega hrikalegt.

Fullveldið kemur svo þegar fimbulvetur og faraldur geysar.

Ég reyndar að neikvætt test, sem má ekki vera nema fárra daga gamalt, sé skilyrði víða um lönd, t.d. í Kanada.

Hvað óttann varðar, þó finnst mér að víða (Ísland sker sig alls ekki úr í þeim efnum) hafi mikill mikill ótti verið byggður upp, jafnvel markvisst.

Ótti er enda gott og áhrifamikið "múgstjórnartæki".

Stundum er talað um "veiruna" eins og lifandi hugsandi veru, sem situr um einstaklinga og þjóðina alla.

Rétt eins og hún viti ef "þú" hegðar þér ekki almennilega og kemur þá "og hremmir þig".

Staðreyndin er sú að t.d. á Íslandi hafa flestir af þeim sem hafa látist smitast innan heilbrigðiskerfisins (ef við teljum hjúkrunarheimili með því).

Hvað skyldu margir af þeim sem hafa látist hafa smitast utan þess?

Sömu sögu má segja víða um lönd að um og yfir 70% af öllum dauðsföllum hafa orðið á hjúkrunarheimilum og svipuðum stofnunum.

Sömu sögu má reyndar segja um dauðsföll eftir bólusetningu, nema að þar er hlutfallið enn hærra.

Segir það einhverja sögu?

P.S. Er alls ekki að segja að dauðsföllin megi rekja til bólusetninga.

G. Tómas Gunnarsson, 13.2.2021 kl. 21:28

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég er alls ekki að segja að "evil  and synister plot" sé í gangi, ef til vill "cunning plan" eins og Balrick myndi orða það, en þó ekki víst.

En það er vel þekkt að nota ótta til að fá hópa fólks til að gera eitthvað eða ekki gera eittvað.

Líklega með þekktari "vopnum" í slíku.

Ég skrifaði um slíkt hér fyrir allnokkru og hafði þá eftir Kára Stefánssyni úr frétt á RUV:

Kári telur því enga ástæðu til að grípa til svipaðra aðgerða og önnur lönd hafa gert í dag og hann grunar að breska ríkisstjórnin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin séu að nýta þetta veiruafbrigði til að hvetja fólk og önnur lönd að fara varlega um jólin.

En auðvitað þurfa fræ að falla í frjósaman jarðveg.

G. Tómas Gunnarsson, 13.2.2021 kl. 21:55

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Spurningin er kannski hvort þessi markvissa uppbygging á ótta sé gerð í einhverjum vafasömum tilgangi og af óheilindum. Þ.e. vita þeir sem hafa byggt upp þennan ótta að hann er ástæðulaus í raun og veru?

Ef svo er, hver er þá hinn raunverulegi tilgangur með þessari óttauppbyggingu?

(Ég er kannski ekki að spyrja Þorstein að þessu þar sem hans afstaða er mjög skýr: hann hefur sagt að sóttvarnalæknir sé sýkópati og sekur um morð. Líklega ekki hægt að taka afdráttarlausari afstöðu.)

Kristján G. Arngrímsson, 13.2.2021 kl. 22:30

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ok, kannski komið svar við því sem ég var að spyrja um.

En hitt verð ég líka að viðurkenna að eftir því sem ég verð eldri átta ég mig betur á því að líklega er ég frekar bláeygur og auðblekktur. Hvernig mynduð þið telja að æskilegt væri að útskýra fyrir okkur sakleysingjunum, sem tökum vart rökum, að það sé verið að plata okkur? Þá meina ég útskýra það svo við trúum því og skiljum það? (Útskýringar sem ekki skiljast og ekki er trúað eru tilgangslausar - mætti jafnvel segja að það séu engar útskýringar).

Þorsteinn hefur argað sig hásan hérna á blogginu mánuðum saman og haldið málfundi með virðulegum útlendingum en samt virðist ótti íslensks pöpuls færast í vöxt og viðbúið að landinu verði skellt í lás. Hvað er til ráða?

Kristján G. Arngrímsson, 13.2.2021 kl. 22:35

18 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Að gefnu tilefni langar mig að vita hvort einhver hér hefur lesið frétt um að læknar fullyrtu að ekkert mál væri að lækna manneskjur sem sýktar væru af Covid 19. Ég er búin að fletta Mogganum seinustu 3 daga en finn hana ekki aftur. Þar með í hvaða landi og sjúkrahúsi,en þeir fullyrtu að kapphlaupið um lyfin þyrfti ekki. Ef það er rétt hljóta menn að hafa kynnt sér þetta;þetta er ekki "Rugla"hlaupin í mig.

Helga Kristjánsdóttir, 13.2.2021 kl. 23:19

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ótti getur verið eins og ég sagði áður stýringartæki. Ef ég væri yfir sóttvörnum einhversstaðar myndi ég ábyggilega í það minnsta hugsa um að beita því vopni.

Ég er ekki að saka neinn um "óheilindi", hvort að óttin er meiri en efni standa til er annað mál.

Persónulega hef ég ekki það markmið að breyta þessu, eða aetja mark mitt á heiminn, Ísland eða mitt nánasta umhverfi.

Ég hef hins vegar skoðanir (á aðskiljanlegustu hlutum) og set þær fram hér á blogginu mínu. Mér er í raun nákvæmlega sama hvort að einhverjir eru sammála þeim eða ósammála.

Þetta eru bara mínar skoðanir.

Miðað við athugasemdir eru þær mikið fleiri sem almennt telja mig hafa rangt fyrir mér. Það truflar mig ekkert.

Sé tekið tillit til hvað hlutfallslega margar þeirra neikvæðu eru frá þér, teiknast þó upp mynd sem er mér örlítið jákvæðari.  LOL

Ég sem er græneygður og líklega "sýnískari" en þið "bláeygðu og auðblekktari", er ef til vill vantrúaðri á það sem ég les og mér er "sagt".

Þó að ég t.d. viti að ég sé að eyða tíma mínum í tilgangsleysi, þá get ég sjaldan stillt mig um að leiðrétta þá sem ég hitti, hvort sem er í raun- eða netheimum sem fullyrða að Ísland hafi orðið gjaldþrota 2008-9.  Ég læt mig það engu skipta hvað oft eða hvar þeir segjast hafa lesið það í "blaðinu" eða á netinu.

Ef til vill ættir þú að segja frá því hverju þú ert svo óttasleginn yfir, hvað varðar "kórónuveiruna".

Ertu hræddur um að deyja?  Hræddur um að leggjast í rúmið í viku eða tvær? Hræddur um að smita aðra, verandi einkennalaus sjálfur?

Ertu hræddur við að fara í sund?  Matvörubúðina?  Þorirðu ekki að fara á barinn, eða í líkamsræktina?  Ertu hræddur við að fljúga?

Keyrirðu um með grímu, þó að þú sérst einn í bílnum, eða ertu jafn hræddur og þeir sem eru með grímu þó að þeir séu einir úti að labba með hundinn?

Persónulega fór ég mun varlegar í upphafi, því vissulega vissi enginn hvað var að gerast.  Ég fagna því að í fyrsta skipti í mörg ár eru flestar "kerrur" í búðunum þokkalega hreinar.

Mér finnst eiginlega jákvætt að fullt af fólki sem vildi faðma mig að mér forspurðum gerir það ekki í dag.

En ég set ekki upp grímu nema þar sem er slík skylda.

Ég fagna því að börnin mín fái að fara í skólann (þó að ég geti haldið þeim heima ef ég kysi svo).

Ég spjalla við ókunnuga ef þeir gera svo að fyrra bragði (geri það alla jafna ekki að fyrra bragði), segi við ókunnuga að þeir megi deila með mér lyftu hugnist þeim svo, en treð mér ekki inn í lyftu með ókunnugum).

En ég er ekki í "trúboði", ég sé enga ástæðu til að fela mínar skoðanir.

@Helga, þakka þér fyrir þetta.  Því miður hef ég enga hugmynd um hvaða frétt eða grein þú ert að tala.

En ég fylgist ekki það vel með Mogganum (alls ekki prent útgáfunni, sem ég sé aldri), en líklega ætti það ekki að vera svo flókið að leita 3. daga aftur í tímann.

Ólíklega hefur hún horfið.

G. Tómas Gunnarsson, 14.2.2021 kl. 01:36

20 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég myndi nú ekki segja að athugasemdirnar mínar hérna hjá þér séu neikvæðar, frekar að þær séu gagnrýnar. Þannig séð með það markmið að skilja betur hvað þú ert að meina - og stundum hvað aðrir eru að meina.

Og stundum leyfir maður sér að "tröllast" í fólki, það getur á sinn hátt verið hin besta skemmtun, en kannski ekki alltaf mjög fallega gert. En ég segi eins og maðurinn um árið: Í mér býr fól.

Varðandi óttann: Ég segi eins og þú að eftir því sem frá líður minnkar ótti manns og það er í beinu samræmi við það hvað þekking manns á "óvininum" og hegðun hans (smitleiðum) eykst. Þetta er nú bara venjuleg skynsemi, myndi ég halda.

En hvaðan hefur manni komið þessi aukna þekking á því sem við er að etja? Byggist hún að öllu leyti á manns persónulegu reynslu? Varla. Er ekki nær að halda að þessi þekking (og þar með minnkandi ótti) byggi á upplýsingum sem maður fær frá sóttvarnayfirvöldum og öðrum sem afla almennrar þekkingar með vísindalegum hætti?

Svo er við því að búast að óttinn sé einstaklingsbundinn eftir því hverjar aðstæður hvers og eins eru. Fólk er misjafnlega veikt fyrir, á ástvini sem eru misjafnlega veika fyrir og svo framvegis. En hvernig veit maður hvað það er að vera "veikur fyrir" í þessu samhengi? Er sú vitneskja ekki komin frá sóttvarnayfirvöldum?

Það eru jú dæmi um að fólk sé eitt í bíl með grímu. Hvers vegna það er er alveg ómögulegt að segja til um. Er það dæmi um "ástæðulausan ótta" sem á rætur að rekja til hræðsluáróðurs sóttvarnayfirvalda sem eru að reyna að stjórna fólki, eða einhverja aðra ástæðu sem maður hefur ekki hugmynd um hver er?

Ég myndi yfirleitt hallast að síðara svarinu. Sem er í rauninni það svar að ég geti ekki vitað rétta svarið við spurningunni um það hvers vegna þessi manneskja aki ein með grímu. En niðurstaðan er sú að það er ekki grundvöllur fyrir þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að umrædd manneskja sé fórnarlamb hræðsluáróðurs (og þar með múgstjórnunar) sóttvarnayfirvalda. Það getur verið fullkomlega skynsamlegur ótti sem ræður því að einhver er með grímu undir stýri, einn í bílnum.

Ég hef grun um - án þess að geta sannað það vísindalega - að ansi margir sem gagnrýna sóttvarnayfirvöld hvað harðast geri það í rauninni vegna þess að þeir geta ekki þolað óvissuna sem óhjákvæmilega fylgir ástandinu. Ýmsir hafa beðið um "meiri fyrirsjáanleika" og Þórólfur svarað því til að það séu ekki forsendur til að hafa hann meiri - þetta er mjög vísindalegt svar. En þetta er svar sem sumt fólk getur ekki. Og þá fer það í árásarham til að verjast. Bara eins og dýr gera. 

Mér sýnist að gagnrýni á sóttvarnayfirvöld eigi sér oftar en ekki rætur í vanþekkingu á vísindum. Fólk hefur snargalnar hugmyndir um hvað vísindi eru og hvað vísindaleg þekking er. Mjög oft sést gagnrýni á vísindin á þá leið að vísindamenn segi eitt í dag og annað á morgun, ergo: það er ekkert að marka vísindin. 

Þetta er firra. Vísindin segja eitt í dag og kannski annað á morgun. Já, einmitt þannig virka vísindi. Grundvallaratriðið í vísindalegri hugsun er "endurskoðun á núverandi vitneskju". Þannig er alltaf og óhjákvæmlega óvissa bundin í vísindalega þekkingu. En eins og ég segi, margir geta ekki óvissu og þá ráðast þeir á vísindin og vísindafólk og segja það "ólógískt". Alveg rétt, það er að sumu leyti ólógískt, en ekki þar með óvísindalegt. Vísindi eru að sumu leyti ólógísk.

Jæja, afsakaðu þennan langhund og takk fyrir lánið á blogginu þínu.

Kristján G. Arngrímsson, 14.2.2021 kl. 10:23

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján þakka þér fyrir þetta.  Þú mátt ekki misskilja mig hvað varðar athugasemdirnar.  Ég orðaði þetta ef til vill örlítið skringilega, en átti ekki við að sjálfar athugasemdirnar væru neivæðar, né í minn garð.

Heldur var ég raun að tala um hvernig þær skiptust á milli þeira sem "tækju" undir með mér (jákvæðar) og andstæðar (neikvæðar), en þetta var nú reyndar meira létt grín en nokkuð annað.

Enda er það sð umbera andstæðar skoðanir, algert skilyrði fyrir vitrænni umræðu.  Líklega verður það umfjöllunarefni næstu færslu, sem er farin að gerjast í höfðinu á mér (þegar ég les þetta yfir, hljóma ég eins og einhver fjölmiðill sem er að reyna byggja up spennu).

Þess vegna eru (svo gott sem) allar athugasemdir velkomnar hér, enda þó að bloggið sé undir minni stjórn, telst það líklega til deilihagkerfisins.  Slíkt vegur upp á móti raforkuneyðslu þeirri sem varðveisla þess krefst.

En að hinu.

Að ajálfsögðu verður (og flestir gera það) hver og einn að taka ákvörðun fyrir sig, innan þeirra marka sem þeim eru settar.

Ég fer t.d. í búðina einu sinni til tvisvar í viku og deili þar plássi með 548 öðrum einstaklingum. Persónulega finn ég enga ástæðu til þess að setja upp grímu, en geri það að sjálfsögðu.

Vegna þess að í fyrsta lagi krefst verslunin þess og í öðru lagi vegna þess að líklega líður hinum 548 örlítið betur að sjá mig með grímu alveg eins alla aðra.

Ekki hvarflar að mér að vera með einhvern uppsteit eða mótmæla þessu á einn eða neinn hátt.

Ég þvæ mér oft um hendur og nota spritt (hef reyndar gert það um langt árabil) ef svo ber undir.

Ég get ekki talað fyrir neinn nema sjálfan mig. En það sem ég tel að fari hvað mest í taugarnar á mörgum við sóttvarnaraðgerðir það sem þú kallar líklega "ólógík".

Þeim finnst skorta rökin á bakvið þær margar, sem og að það er að ég tel aldrei hægt að setja lög og reglugerðir þannig að vel á fari um allt. 

Því verður einfaldlega að treysta á "almenna skynsemi" (sumir álíta það líkleg oxymoron, en það geri ég ekki). 

Heilt yfir er fólk ótrúlega skynsamt og fullfært um að taka ákvarðanir sjálft.

Er hættulegra að fjölskyldan fari einn golfhring en að hún fari saman í göngutúr?

Er hættulegra að 3. 6 manna fjölskyldur komi saman en en 3. 3ja manna?

Er virkilega minni ástæða til að virða 2ja metra regluna í strætó en annars staðar?

Þess utan vekur það athygli margra hve mismunandi reglur gilda í mismunand löndum (núna vita margir allt sem er að gerast hér og þar) og velta því fyrir sér hvaða ástæður búa að baki.

Hvað vísindin varðar er það svo að yfirleitt má finna andstæðar skoðanir vísindamanna í flestum málum. 

Í sjálfu sér ekkert út á það að setja.

Til dæmis hvað grímunotkun þá mátti snemma á síðasta ári lesa mjög mismunandi skoðanair um grímunotkun.  Svo er enn.

Breyturnar eru einfaldlega margar, það má finna stuðning með og á móti.

Ég skrifaði hér um grímunotkun í apríl á síðasta ári, í sjálfu sér hafa skoðanir mínar lítið breyst hvað þær varðar síðan þá: https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2248977/

Persónulega held ég t.d. að viðhorf til grímunotkunar á Íslandi hafi eingöngu breyst vegna þess að viðhorfið breyttis hægt og rólega víðast hvar um heiminn.  Þó kom ekkert nýtt fram um grímunotkun, en það komu fram fleiri rannsóknir sem sögðu það sama og margar eldri.

Nú eru einhverjir farnir að kalla eftir því að notaðar verði tvær grímur í senn:  https://www.bbc.com/news/av/health-55877540

En hvað hefur t.d. í raun verið mikil hætta á þvi að smitast á Íslandi?  Hverjar eru líkurnar á því að smitast í Reykjavík?  Hvað er mikil hætta á því að smitast á Austurlandi?

En vissulega (sem betur fer) hefur þekkingin á veirunni aukist jafnt og þétt, að einhverju marki höfum við lært að lifa með henni.

Ég held líka að fleiri hafi áttað sig á því að það er enginn annar möguleiki. 

Einn kunningi minn fór ekki út fyrir hússins dyr (örlítið út í garð) ásamt fjölskyldu sinni í u.þ.b. 3ja mánaða skeið, snemma á síðasta ári.  En sem betur fer rjátlaðist þetta af honum og þau fóru að ferðast síðastliðið sumar og eru reyndar enn erlendis.

Læt þetta duga í bili.

P.S. Langhundar eru skemmtilegri en flest annað og velkomnir.  Hef aldrei skilið þá sem kjósa að ræða saman með "twitter orðafjölda".

Ég auðvitað lána þér ekkert bloggið mitt, en þú mátt alvega nota plássið á því.  LOL

G. Tómas Gunnarsson, 15.2.2021 kl. 17:51

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sýnist að það styttist í að Landlæknir þurfi að banna "Sprengidag" til þess að "vernda heilbrigðiskerfið".

https://www.visir.is/k/a6390dda-91af-4015-bdbd-ecb21e9d3df5-1613411721486

G. Tómas Gunnarsson, 16.2.2021 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband