19.12.2020 | 20:32
Þegar atvinnugreinar losna úr helgreipum einokunar og hins opinbera
Það er líklegt að margir muni ekki hvernig var umhorfs á Íslenskum áfengismarkaði hvað varðar innlenda framleiðslu, fyrir t.d. 35. árum síðan.
Framleiðslan helgaðist af Brennivíni, Hvannarótarbrennivíni, Kláravíni og nokkrum tegundum til víðbótar sem ÁTVR þóknaðist að framleiða. Eitthvað var rembst við að flytja út og meira að segja hannaðr miðar á flöskurnar sem voru mun meira aðlaðandi en þeir sem brúkaðir voru á heimamarkaði.
Heima fyrir þótti það goðgá að hafa eitthvað heillandi við framleiðsluna.
Síðan fluttust málin hægt og sígandi í annan farveg. Mig minnir að "Icy" hafi verið framleiddur í Borgarnesi um miðjan 9unda áratug síðustu aldar. Framleiðsla ÁTVR var svo seld snemma á þeim 10unda að ég tel.
Stóra stökkið var svo þegar bjórinn var loks leyfður 1. mars 1989. Þá fóru framleiðendur eins og Ölgerðin og Viking brugg á fulla ferð.
En vegna sölufyrirkomulags var engin leið að smærri framleiðendur hæfu starfsemi.
Þetta hefur sem betur fer breyst.
Nú er svo komið að brugghús á Íslandi teljast í tugum og veita erlendum aðilum harða samkeppni. Brugghús á landsbyggðinni hafa ekki síst vakið athygli og náð vinsældum.
"Brennd" vín eru sömuleiðis framleidd hjá fjölda fyrirtækja og framleiðsla á vínanda úr mysu er hafin.
Framþróun hefur verið gríðarleg.
Viðtökur innanlandsmarkaðar hafa verið góðar og nú má kaupa Íslenskan bjór og einnig sterk vín í ótal löndum og þau hafa unnið til fjölda verðlauna.
Eftir hæga byrjun hefur þessi iðnaður sprungið út á undanförnum áratug.
En fyrst þurfti hann auðvitað að losna úr helgreipum einokunar og "drakónískra" laga hins opinbera.
Sem betur hafðist það í gegn.
Nú þegar Steingrímur Sigfússon er að hverfa af Alþingi, hverfur líklega síðasti þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að leyfa sterkan bjór á Íslandi.
En hann átti býsna mörg skoðanasystkyn og framan af voru þau í meirihluta.
Líklega má finna fleiri atvinnugreinar, þar sem ekki veitir af frelsisvindum.
Nýr ævintýralegur bjór frá Ölverki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:21 | Facebook
Athugasemdir
Það fer um mann pínulítill hrollur þegar maður minnist Kláravíns og Hvannarótarbrennivíns. Ætli þessir göróttu drykkir séu enn til?
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 20.12.2020 kl. 09:03
@Stefán, þakka þér fyrir þetta. Ég tek orðum þínum þannig að það sé ekki sæluhrollur minninganna sem hríslist um þig.
En ég held að hvorki Hvannarótarbrennivín eða Kláravínið hafi lifað að "markaðsvæðinguna".
Ég held að Brennivínið sé það eina sem er enn í framleiðslu og er enn flutt út að einhverju marki.
G. Tómas Gunnarsson, 22.12.2020 kl. 17:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.