Skynsamleg ákvörðun

Ég held að það sé skynsamleg ákvörðun að hafa bólusetningu bæði val- og gjaldfrjálsa.

Ég held að slík barátta vinnist aðeins með fræðslu og uppýsingum, valdboð yrði málinu ekki til framdráttar.

Ég held sömuleiðis að það sé ekki góð hugmynd að "skilyrða" einhverja þjónustu við borgarana, eða önnur réttindi þeirra við bólusetningu.

Eins og gildir í svo mörgum öðrum málum, tel ég að best sé að byggja á fræðslu, ekki lagasetningum eða bönnum (í þessu tilfelli skyldu).

Einstaklingar fá þannig að taka upplýsta ákvörðun.

Það er langt í frá að vera óeðlilegt að um bólusetningu sem þessa séu að einhverju marki skiptar skoðanir, rétt eins og lesa má í þessari frétt mbl.is: "Segir ekki tímabært að bólusetja í Þýskalandi."

Öðru hvoru við áramótin má líklega búast við niðurstöðum frá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna og Lyfjastofnun Evrópusambandsins.

Neyðardreifing gæti þó verið leyfð fyrr. 

Eðlilega er mikið horft til þessara stóru stofnana og verður fróðlegt að heyra um niðurstöður þeirra.

Það er sömuleiðis líklegt að margir muni fylgjast með fréttum frá Bretlandi á næstu dögum og vikum, en bólusetning þar hefst í dag (þriðjudag).

 


mbl.is Bólusetning gegn veirunni ekki skylda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held það hafi aldrei staðið til að skylda þessa bólustningu frekar en aðrar með einum eða öðrum hætti, sérstaklega þegar það þarf ekki t.d. með mislingabólusetningu sem þarf a.m.k. 90% bólusetningarhlutfall til að ná hjarðónæmi. Það er eðlilegt að setja fyrirvara við lyf þegar menn hafa bara fréttatilkynningar lyfjafyrirtækja, þess vegna hafa menn aðila í vinnu fyrir sig til að sannreyna upplýsingarnar frá lyfjafyrirtækjunum. Þarna er líka fyrst og fremst verið að vísa í að Betar væru kannski að flýta sér full mikið.

ls (IP-tala skráð) 8.12.2020 kl. 08:24

2 identicon

Vertu ekki of viss Is, það er nú þegar eitt flugfélag í Ástralíu ef ég man rétt sem skilyrðir bóluefni til að fá að fljúga með þeim. Það kæmi alls ekki á óvart ef mörg flugfélög fylgja í kjölfarið.

Halldór (IP-tala skráð) 8.12.2020 kl. 09:46

3 identicon

Að einkaaðilar setji skilyrði fyrir viðskiptum er þeirra mál. Útaf fyrir sig gæti það tímabundið verið málefnaleg afstaða að gera einhverjar kröfur á farþega, en ekki víst að það sé gott markaðstrikk að gera kröfu um bólusetningu

Hins vegar gæti flugfélögum reynst erfitt að setja of þröng skilyrði vegna allskonar reglugerða. 

ls (IP-tala skráð) 8.12.2020 kl. 10:42

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sá einhverstaðar frétt um að 92% Íslendinga ætli í bólusetningu þannig að það er óþarfi að vera með opinbert valdboð - flest fólk ætlar að skylda sig sjálft. 

Kannski hefst núna hávær "umræða" fáeinna sem eru andvígir bólusetningum en á meðan mun yfirgnæfandi meirihluti leiða slíka "umræðu" hjá sér, fara í sprautu og ekki söguna meir.

Allt er þetta hinn eðlilegasti hlutur.

Kristján G. Arngrímsson, 8.12.2020 kl. 11:27

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta.  Ég hef enga hugmynd um hvort að stjórnvöld hafi velt því fyrir sér að skylda Íslendinga í bólusetningu eða ekki. Tek þó undir með þér að það er ekki líklegt miðað við sögu bólusetninga.

En heimildin er til staðar og þegar umræðan er farin af stað er einmitt nauðsynlegt að þessi afstaða komi fram fljott, þannig að umræðan "malli" ekki óáreitt.

Ég ætla ekki að dæma um hvort að Bretar hafi flýtt sér of mikið, en það má gera þetta með ýmsum hætti.  Ég hef ekki trú á að rannsóknir leiðið mikið nýtt í ljós á 2 eða 3. vikum, en það er ekki útilokað. 

Það hefur verið farið yfir rannsóknir jafn óðum, ef ég hef skilið rétt.

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Eins og kemur reyndar fram í athugasemd @ls, fyrir neðan þína, þá sé ég ekkert að þvi að einkafyrirtæki setji einhver skilyrði fyrir viðskiptum.  Persónulega hef ég aldrei litið svo á að eigi ófrávíkjanlega kröfu um að eiga viðskipti við eitthvað fyrirtæki.

Annað gildir um hið opinbera sem má segja að "neyði" mig í gagnkvæm viðskipti.

Ég get t.d. auðveldlega séð fyrir mér og gæti verið sniðugt fyrir sum fyrirtæki að krefjast bólusetningar, til að byrja með.

Þar mætti sem dæmi nefna t.d. "resorts" (man ekki hvað það kallast á Íslensku), skemmtiferðaskip og eins og þú nefnir flugfélög.

Ég sé reyndar enga ástæðu fyrir flugfélög að gera slíkt.

En fyrir staði eins og "resorts" og skemmtiferðakip sem byggja á býsna mikilli nánd, hlaðborðum o.s.frv., gæti slíkt verið lausn sem byggði upp traust og gerði auðveldara fyrir að ná í viðskiptavini.

Það gæti hugsanlega hjálpað flugfélögum að fá farþega til að sitja þétta og þannig lækka verð, en gæti reynst tvíeggjað sverð.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Sá þessa sömu frétt á mbl.is, ef ég man rétt.  Án þess að fullyrða hvað þessir einstaklingar eru að hugsa, reikna ég með að margir (ef ekki flestir) sjái einfaldlega þann "hagnað" sem þeir sjálfir hafi af bólusetningu.

Þeir (næstum)eyða þeim möguleika að smitast af sjúkdómi. Ég held að það sé "útgangspunkturinn".

G. Tómas Gunnarsson, 8.12.2020 kl. 14:20

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Efasemdir um þessa bólusetningu eru langtum meira áberandi í öðrum löndum. Hvers vegna veit ég ekki.

Skylda til bólusetninga er líklega sjálfsögð ef um alvarlega og hættulega sjúkdóma er að ræða. Og hún er víða til staðar, til dæmis í Frakklandi.

Hin spurningin er svo sú, hvort réttlætanlegt sé að í stað skyldu til bólusetninga verði mannréttindi með einhverjum hætti háð því að fólk láti bólusetja sig. Talsverð umræða hefur verið um þetta undanfarið. Það væri gaman að vita hvað mönnum finnst um slíkt. Hvort er til dæmis betri kostur að skylda fólk til bólusetninga eða taka af því ferðafrelsi, láti það ekki bólusetja sig, eða banna því að nota ýmsa þjónustu?

Þorsteinn Siglaugsson, 8.12.2020 kl. 20:29

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því að efasemdir um bólusetningu séu meiri í mörgum öðrum löndum en Íslandi. 

Íslendingar eru "minni" en flestar aðrar þjóðir, menntunarstig er hátt og almennt traust á yfirvöldum hátt.

Ég held að persónulegar frásagnir þeirra sem fengu "drómasýki" í kjölfar bólusetningar fyrir "Svínaflensu" 2009, sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi hafi einnig hafa áhrif víða, en sérstaklega í Skandínavíu.

Hver dæmir um hovrt að um "alvarlega og hættuega" sjúkdóma er að ræða?  Er það ekki nákvæmlega skilgreiningin sem margir vilja gefa Covid-19?

Persónulega er ég alfarið á mótí því að skylda bólusetningar eða skilyrða mennréttindi á þeim.

En það þýðir ekki að ég sé á móti bólusetningum.  Langt í frá. 

Það þýðir að ég virði sjálfsákvörðunarréttinn.

Ef heilbrigðiskerfið vill skylda mig til "einhvers", og ef til vill jafnframt að útiloka mig frá því að nota "þjónustu", verður það jafnframt að bjóða mér upp á möguleika til þess að "neita" slíkri þjónustu og hljóta samsvarandi "skattaafslátt".

Gott dæmi um slíkt er t.d. tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðsflokkins um að skylda yrði að bólusetja börn til að þau fengu pláss á dagheimilum.

Eiga þá foreldrar sem vilja ekki bólusetja börn sín, og yrði í framhaldi af því neitað um dagheimilispláss, ekki rétt á afslætti á útsvari (sem fer jú til að niðurgreiða dagheimilisgjöld), eða "valtar" sósíalmisminn einfaldlega yfir allt?

Persónulega tel ég að best sé að láta einstaklingunum ákvörðunina eftir. Það er vissulega gott að beita fræðslu og upplýsa eftir fremst megni um áhættu og ávinning.

Persónulega tel ég mannréttinindi ekki skerðast þó að einhver einkafyrirtæki ákveði t.d. að krefjast bólusetningar, því eins og ég ssgði hér að ofan tel ég engan eiga ótvíræða kröfu á viðskiptum við þau.

Um hið opinbera gegnir öðru máli.

Ég get ekki fundið nein rök fyrir því að Íslenska ríki tæki ferðafrelisi af Íslenskum ríkisborgurum.

Ef eitthvert ríki tæki upp á því að banna erlendum óbólusettum farþegum inngöngu, gilti annað.

Þar eiga Íslendingar ekki sjálfkrafa rétt.

En t.d. að neita eigin ríkisborgurum inngöngu, þykir mér vafasamt og líklega stangast á við stórnarskrá (í það minnsta víðast hvar).

G. Tómas Gunnarsson, 8.12.2020 kl. 21:39

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má ef til vill bæta því við hér að þó að ég efist ekki um að einhverjir nytu þess að sjá samborgara sína "ólaða niður á bekk" og sprautaða með bóluefni, hygg ég að meirihluta Íslendinga þætti það miður skemmtileg sjón.

G. Tómas Gunnarsson, 8.12.2020 kl. 21:44

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Rökin fyrir skyldu til bólusetninga eru að til að bólusetning við sumum sjúkdómum gagnist er nauðsynlegt að ná hjarðónæmi. Það eru því hagsmunir heildarinnar sem liggja að baki slíkri skyldu. Þeir hagsmunir liggja líka að baki ýmsu öðru sem við álítum sjálfsagt að skylda fólk til. Er til dæmis á endanum einhver munur á því að skylda fólk til að aka réttu megin á veginum og að skylda fólk til að lúta boðvaldi um bólusetningu þegar hún er nauðsynleg til að útrýma skæðum sjúkdómi? Ég er ekki sannfærður um það, en vitanlega tilbúinn að hlusta á mótrök.

Mér finnst hins vegar vafasamara ef farið er að skerða mannréttindi fólks vegna þess að það neitar að taka þátt í bólusetningu. Því munurinn er sá, að þá værum við líklega að skilyrða mannréttindi við einhverja tiltekna mannkosti eða siðferði. Við tökum þá "universal" út úr hugtakinu "universal human rights". Markmiðið er þá ekki lengur að ná hjarðónæmi, heldur að refsa fólki fyrir að skorta mannkosti. Og ef við byrjum á því er vandséð hvar við endum. Við gætum þá til dæmis allt eins meinað afbrotamanni um sanngjörn réttarhöld vegna þess að hann sé vondur maður, hafi til dæmis framið rán eða morð áður, eitthvað slíkt. 

Þorsteinn Siglaugsson, 8.12.2020 kl. 23:38

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Þarna erum við að hluta til að ræð um "aldarlanga deilu" um hvort að "þjóðfélagið" eigi einstaklinginn, eða hvort einstaklingurinn geti gert eitthvað á "skjön" við "þjóðfélagið", eða hvort við vilum reyna að finna milliveg.

Ef ég á ekki bíl, á að neyða "mig" til að borga fyrir vegina, sem þjóðfélagið svo aftur krefst að ég fylgi þeim reglum sem gilda?

Eða ætti allt að vera byggt á "notkun"?

Eða á aðeins að láta þá borga sem nota vegina, og með notkuninni fallast þá á að fylgja þeim reglum sem um notkunina gildir?

Ef "heilbrigðiskerfið" krefst þess að "ég" verði bólusettur, á þá "heilbrigðiskerfið" ekki að bjóða "mér" þann möguleika að taka ekki þátt í "heilbrigðiskefinu?

Ef ég ákveð að sameiginlegt heilbrigðiskerfi henti mér, hefur þá "heilbriðgiskerfið" rétt á því að banna mér að t.d. reykja, drekka, eða stunda áhættusport s.s. fallhlífarstökk, hestamennsku, kappakstur eða skíðamennsku, vegna þess að það kann að hafa aukin kostnað fyrir það sama "heilbrigðiskerfi"?

Hvað eru "universal human rights"?  Eru til einvher mannréttindi sem gilda alls staðar í heiminum (eins og hann er nú) án þess að nokkur efist og stjórvöld beygi sig ef að þeim er sótt, eða verndi þau sömu mannréttindi?

G. Tómas Gunnarsson, 9.12.2020 kl. 00:15

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Öll mannréttindi eru "universal" því að það eru réttindi sem hver einasta manneskja nýtur einfaldlega af því að hún er manneskja. Og manneskjur eru í grunninn allstaðar eins (þótt þær þróist og breytist).

Annað: Ef þú vilt ekki taka þátt í heilbrigðiskerfi geturðu jú alltaf flutt til Bandaríkjanna og verið þar alveg ótryggður. Enginn bannar þér það. En manneskjan er í eðli sínu hópdýr (enginn er eyland, eins og sagt er) og hvati hennar til að tilheyra hópi er ein sterkasta grunnhvötin í eðli hennar. Það snýst á endanum um að tryggja afkomu sína og sinna.

Að vísu eru einhverjir að reyna að halda því fram að manneskjan hafi ekkert eðli, en það er náttúrulega bull. Einn helsti boðberi eiginhagsmunasemi og sérgæsku, Ayn Rand, var meira að segja hluti af samfélagi.

Þeir sem vilja gera bólusetningu að þegnskyldu eru því á endanum að hugsa um sína eigin hagsmuni og sitt eigið öryggi, ekki reyna að hafa vit fyrir öðrum. Er ekki fullkomlega eðlilegt að hver og einn gæti hagsmuna sinna?

Kristján G. Arngrímsson, 9.12.2020 kl. 09:23

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er líklega rétt að mannréttindi séu alltaf almenn, annars er hugtakið merkingarlaust. Því er líklega nóg að tala um mannréttindi, óþarfi að bæta almenn framan við. Réttindi geta hins vegar verið ólík í ólíkum löndum og á mismunandi tímum - það njóta ekki allir alltaf mannréttinda. Til dæmis virðast margvísleg réttindi sem við teljum til mannréttinda háð hlýðni eða einhvers konar mannkostum í Kína. 

Ég held hins vegar að spurningin um þátttöku í heilbrigðiskerfinu og hvort það eigi að vera ríkisrekið eða einkarekið eða bæði sé allt önnur spurning en spurningin um skyldu til bólusetninga til að ná hjarðónæmi. Þá spurningu er alveg hægt að ræða og komast að niðurstöðu um, burtséð frá skoðunum á fyrirkomulagi heilbrigðismála að öðru leyti.

Bólusetningaskyldan snýst um að verja samfélagið sem heild þegar hjarðónæmi er nauðsynlegt. Ég er ekki sammála því að talsmenn skyldubólusetninga séu að hugsa um einkahagsmuni. Sá sem einungis hugsar um einkahagsmuni er þvert á móti vís til að víkja sér undan bólusetningu í trausti þess að flestallir aðrir taki þátt í henni. Það er hæpið að ætla að rekja allar ákvarðanir byggðar á heildarhagsmunum til einkahagsmuna þótt það sé kannski hægt með heimspekilegum loftfimleikum. Þarna er hins vegar augljós greinarmunur á og þessi greinarmunur er bæði merkingarbær og gagnlegur.

Áhugaverður valkostur við skyldubólusetningu, sem Alberto Giubilini minnist á í bókinni "Ethics of vaccination", er að þeir sem hafna bólusetningu greiði sekt eða skatt sem nemur mati á þeirri auknu áhættu sem þeir valda samfélaginu. Sú leið er byggð á málefnalegum rökum og ég get ekki séð annað en að hún sé skotheld siðferðilega.

En á endanum grundvallast þetta auðvitað allt á tveimur skilyrðum. Í fyrsta lagi að um sé að ræða sjúkdóm sem er nægilega hættulegur. Í öðru lagi að hjarðónæmi sé nauðsynlegt. Sé sjúkdómur ekki nægilega hættulegur getur samfélagslegur kostnaður af bólusetningaskyldu verið meiri en af afleiðingum sjúkdómsins. Og sé hjarðónæmi ekki nauðsynlegt eru samfélagshagsmunirnir sem af því leiðir ekki til staðar. Þá er einfaldlega nóg að bólusetja þá sem eru í hættu eða telja sig vera í hættu.

Þorsteinn Siglaugsson, 9.12.2020 kl. 12:39

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Punkturinn hjá mér var eiginlega sá (ekki nægilega vel útskýrður, skal ég viðurkenna) að þar sem manneskjan er í eðli sínu samfélagsvera (hópdýr) þá eru eiginhagsmunir oft um leið heildarhagsmunir og öfugt. 

Kristján G. Arngrímsson, 9.12.2020 kl. 13:53

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, það er alveg rétt. Það eru mörg dæmi um að heildarhagsmunir og einkahagsmunir fari alveg saman. 

Þorsteinn Siglaugsson, 9.12.2020 kl. 13:56

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, @Þorsteinn, þakka ykkur fyrir þetta. Hætta þess sem er bólusettur eykst ekki svo neinu nemur þó að einver annar bólusetji sig ekki.

Sá sem er bólusettur er jafn ónæmur fyrir sjúkdómnum eftir sem áður.

Hins vegar situr vissulega alltaf eftir hættan af því að "heilbrigðiskerfið" þurfi að glíma við sjúklinga, því fleiri óbólusettir, því fleiri hugsanlegair sjúklingar.

En "sáttmálinn" þarf að vera nokkuð ljós og liggja fyrir.  Hvað fellst í "sameiginlegu heilbrigðiskerfi" og hverju er einstaklingurinn að fórna með því að vera partur af því?

Í sjálfu sér er það ekkert sem æskilegt er a "hringla" með, því það er einmitt vegna réttinda og skyldu einstklinga og stöðu þeirra gegn ríkinu sem við viljum hafa stjórnarskrár.

Heildarhagsmunir og einstaklingshagsmunir geta alveg farið saman, þó að mjög garna gildi það ekki um alla einstaklingana.

Maðurinn er í eðli sínu ekki "hjarðdýr", þó að hann sé liklega að mörgu leyti "hópdýr". Um þetta má líklega rífast endalaust.

Því oft er þetta ekki síst spurningin um hvað "klanið" er stórt?

G. Tómas Gunnarsson, 10.12.2020 kl. 01:28

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má svo bæta hér við að það væri fróðlegt að heyra upptalningu á þeim mannréttindum sem talin eru "universal". 

Hver ákvað þann lista?

Er sá listi "endanlegur" eða má hugsa sér að bætt verði við hann?

Hefur mannkynið einhvern áhuga á því að fylgja þeim lista eftir og refsa þeim ríkjum sem ekki fylgja honum?

Ef svo, með hvaða hætti?

Bara svona til að bæta við vangavelturnar.

G. Tómas Gunnarsson, 10.12.2020 kl. 03:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband