3.12.2020 | 01:51
Eitthvað sem áhugavert er að hlusta á
Þó að ég hafi haft lítinn tíma til að þvælast um netið að undanförnu, hef ég rekist á ýmislegt sem ég hef reynt að hlusta á, aðallega fyrir svefninn á síðkvöldum.
Hér eru nokkur hlaðvörp/fréttir/viðtöl sem ég held að vel sé þess virði að hlusta á. Ekki vegna þess að ég sé 100& sammála því sem þar kemur fram, heldur vegna þess að það er þörf að hlusta það sem hvetur til umhugsunar og að líta á málin frá sjónarhornum sem eru ekki endilega í daglegri umræðu.
Hér fyrst er umræða á milli Brynjars Níelssonar og Sölva Tryggvasonar. Virkilega fróðlegt samtal sem ég hvet alla til að hlusta á. Sölvi stendur sig vel og Brynjar sömuleiðis.
Brynar er reyndar einn af fáum þingmönnum sem ég tel vera "nauðsynlega", vegna þess að hann er einn af þeim fáu sem "fjölgar sjónarhornunum"
Hér er svo erindi sem Arnar Þór Jónsson flutti á 1. desember fundi. Erindi er hans fullt af hugsunarvekjandi atriðum sem allir hafa gott af því að velta fyrir sér.
Loks er eru hér tvö viðtöl úr Harmageddon sem eins og svo oft áður koma með athyglisverð sjónarmið í umræðuna.
Hér er athyglisvert viðtal við Tryggva Hjaltason um stöðu drengja í Íslnenska menntakerfinu. Virkilega fróðlegt viðtal sem vert er að hlusta á.
Svo er hér annað viðtal úr Harmageddon, við Arnar Sverrisson, sálfræðing, sem hefur skrifað margar greinar um "jafnréttisiðnaðinn". Það er virkilega umhugsunarvert að vísir.is, hafi neitað að birta greinar hans. En líklega er "takmarkað pláss á internetinu".
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 02:06 | Facebook
Athugasemdir
Ljótt ef satt er að visir.is hafi ekki pláss fyrir greinar Arnars. Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið lesið eftir hann, eina grein held ég og hún var ekki mjög áhugaverð. Og soldið illskiljanleg. Ef ég man rétt fannst mér eins og hann væri kannski fyrst og fremst að reyna að egna fólk upp á móti sér. Frekar en hann hefði fram að færa eitthvað sem þokaði umræðunni áfram. En kannski bara botnaði ég ekki nógu vel í þessu eða þetta var of fjarlægt mínum eigin raunveruleika.
Það sem Tryggi segir um strákana er eins og hann segir ekkert nýtt. Endalausar tölur og rannsóknir og allskonar en enginn veit hvað eigi að gera. Í þessari umræðu er alltaf stutt í ásakanir um að konur ráði öllu í menntakerfinu og vinni gegn strákum. Sem er auðvitað bull. Spyrjandinn reyndi að egna hann til að segja eitthvað sem gæti orðið umdeilt og skapað hlustun, reyndi að fá hann til að ásaka einhvern, en gott hjá honum að bíta ekki á. Af hverju er alltaf verið að reyna að finna sökudólga?
Það er svo gömul saga og ný að það fer kannski minna fyrir aga í íslensku samfélagi en þeim samfélögum "sem við berum okkur saman við". Ég hef persónulega orðið vitni að nákvæmlega þessu. Það var mjög afgerandi og magnað. Almennt séð þurfa strákar kannski strangari aga en stelpur og því fer sem fer.
Kristján G. Arngrímsson, 3.12.2020 kl. 10:18
En kannski er "agi" eitthvað sem ekki þykir heppilegt að tala um því að þá er stutt í orðið "hlýðni" og það þykir æði mörgum vera "dirty word." Samanber hávaðasaman minnihluta sem hefur risið upp á afturlappirnar gegn því að "hlýða Víði."
Kristján G. Arngrímsson, 3.12.2020 kl. 10:40
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég hef eitthvað lesið eftir Arnar. Gat ekki séð að skoðanir hans væru hættulegar, en ég get alveg skilið að þær séu umdeildar. En ég get ekki séð að það ætti að vera ástæða til að neita þeim um "vefbirtingu".
En auðvitað hefur Vísir fullan rétt að ritstýra sínu svæði, en þetta vakti athygli mína.
Tryggvi (sem ég þekki ekki) vakti athygli mína fyrir skelegga framsetningu á þeim gögnum sem hann hefur safnað saman.
Ég held ekki að nokkur sé á "mission" við að "eyðileggja" Íslenska drengi. En það virðist nokkuð ljóst að skólakerfið er ekki að þjóna þeim sem skyldi.
Það getur varla verið rétt að enginn viti hvað skal gera, þó að það sé örugglega ekki neinar einfaldar lausnir.
Margir tala t.d. afar vel um "Hjallastefnuna" í mín eyru, en ég veit ekkert hvernig hún hefur virkað "til lengri tíma", eða hvort einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar hvað það varðar.
Ég hef enga reynslu af því að eiga börn í Íslenskum skóla, en heyri frá kunningjum og hef lesið eitt og annað.
Hef mjög góða reynslu af ólíkum skólakerfum í tveimur löndum. Mjög ólík kerfi, en þau lönd raða sér hæst í "PISA" af "vestrænum" löndum. Ekki það að ég sé að segja að það sé hin endanlegi dómur um gæði, en vissulega samanburður sem hægt er að líta til.
Líklega má taka undir að agi mætti vera meiri á Íslandi, en agi (discipline) er í mínum huga ekki nauðsynlega það sama og hlýðni (obedience), þó að vissulega skarist hugtökin.
Sjálfsagt þætti einhverjum æskilegt að skólinn kæmi inn hjá nemendum hlýðni gagnvart tilmælum stjórnvalda, en ég er ekki í þeim hópi.
G. Tómas Gunnarsson, 3.12.2020 kl. 15:05
Það er æskilegast að skólinn innræti nemendum hlýðni við þeirra eigin skynsemi.
Annars er ég orðinn leiður á Brynjari og nenni ekki lengur að hlusta á hann eða lesa það sem eftir honum er haft. Hann er alltaf að segja sama hlutinn og slá sig til riddara með einhverjum meintum "óvinsælum skoðunum." Þessari skoðanir eru ekkert óvinsælar, fólk er bara ósammála þeim. Leyfum manninum endilega að þusa um sínar "óvinsælu" skoðanir ef honum finnst hann maður að meiri.
Hann er reyndar ekki sá eini sem hefur gripið á lofti frasann "verðum að þora að taka umræðuna". (Þetta er einhver ofnotaðasti frasi síðari tíma). Málið er ekki að fólk þori ekki, það er frekar að fólk nenni ekki. Ekki myndi ég nenna að taka "umræðu" við Brynjar.
Kristján G. Arngrímsson, 3.12.2020 kl. 17:46
PS: ég hef samt fullan skilning á því að fólk eins og Brynjar er himnasending fyrir fjölmiðlafólk sem vantar viðmælendur sem tala út í eitt.
Kristján G. Arngrímsson, 3.12.2020 kl. 17:49
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Of mikil "hlýðni" við "eigin skynsemi", ef svo má að orði komast, hefur leitt marga í vandræði.
Það getur hins vegar stundum verið gott, rétt eins og allt annað.
Ég held það það skipti ótrúlega litlu máli í "stóra samhenginu" að þú sérst búin að fá "leið á Brynjari". Nema fyrir þig auðvitað. Þar skiptir það megin máli sem eðlilegt er.
En þó að ég þykist nú ekki hafa "puttann á púlsinum" á því sem Íslendingar hafa áhuga á, eða vilja vilja ræða, hygg ég að það sé meiri eftirspurn eftir skoðunum Brynjars en margur hyggur. Sú eftirspurn kann ekki að vera á ruv.is, eða á Twitter, en ég tel þó að hún sé til staðar.
Það er þess vegna sem fjölmiðlarnir líta á hann sem "himnasendingu", vegna þess að það er hlustað á hann.
Það er jú það sem fjölmiðlar vilja, að það hlusti einhverjir á útsendinguna (þó að það skipti hugsanlega minna máli hjá RUV).
Ef einhver frasi er meira ofnotaður en sá "að við verðum að þora að taka umræðuna", er það líklega sá frasi að sá frasi sé algerlega ofnotaður.
Hvaða umræður eru svona óþarfar?
Auðvitað er engin skyldugur til að taka þátt í þeim. En hví eru þær "ekki nauðsynlegar"?
Hvaða málefni eru það sem "ekki er nauðsynlegt að ræða"?
Þeir sem "nenna" ekki að taka þátt í umræðunni eiga auðvitað lítið erindi í hana.
Aðrir taka þátt.
Og það er fullt af "umræðum" sem bæði er þarft og nauðsynlegt að séu "teknar", oft og stundum stöðugt.
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2020 kl. 02:02
Mitt áhugaleysi á Brynjari og orðum hans skiptir auðvitað engu í stóra samhenginu. Ég held ég hafi aldrei talið mín orð mikilvæg í stóru samhengi, ef ég héldi það væri ég líklega kominn út í pólitík eða búinn að gera mig gildandi sem álitsgjafa í fjölmiðlum.
Ég átti ekki við að umræðan væri óþörf, það sem ég reyndi að koma á framfæri, með feitletrun, var að þetta sé ekki spurning um að þora ekki að taka umræðuna heldur að nenna því ekki. Af hverju ætti nokkurn mann að skorta þor í umræðuna, er hún eitthvað ógnvekjandi? Þeir sem ekki þora eru væntanlega hræddir við eitthvað - en hvað ætti maður að vera hræddur við?
Því segi ég að Brynjar sé að slá sig til riddara með því að þykjast vera að þora einhverju sem aðrir þora ekki - þ.e. eru hræddir við. Ekki er þar með sagt að umræðan sé endilega óæskileg, þannig að beinlínis þurfi að koma í veg fyrir hana. Alls ekki. Það er svo líka auðvitað bara mín skoðun að það sem Brynjar hefur fram að færa sé "redundant" þus. En ég á alls ekki við að það ætti að koma í veg fyrir að hann tjái sig.
Kristján G. Arngrímsson, 5.12.2020 kl. 16:00
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Vissulega getur þetta snúist um "nennu" og svo getur þetta líka snúist um "þor" og stundum sambland af þessu tvennu eða jafnvel fleiru.
Víða um heiminn og mér sýnist það hafa teygt sig til Íslands, er vaxandi "óþol" gagnvart "andstæðum skoðunum".
Það gengur það langt að reynt (og stundum með árangri) að koma í veg fyrir að t.d. opinberir fundir séu haldnir, vegna þess að "mótmælendur" telja að skoðanirnar "eigi ekki rétt á þvi að heyrast".
Persónulega er ég fylgjandi mótmælum.
Það er sjálfsagt að mótmæla skoðunum annara og jafnvel standa fyrir utan fundnarstað og sýna eigin skoðanir.
En að koma í veg fyrir að fundur sé haldin eða að reyna að hleypa honum upp er að mínu mati ekki ásættanlegt. Reyndar velþekkt í baráttu ýmissa "öfgahópa" s.s. kommúnista og fasista.
Undir slíkum kringumstæðum getur þurft "þor" til að setja fram skoðanir sínar, og einstaklingurinn þarf að vera búinn undir "heiftarlegar árásir" á sig persónulega.
Það þarf heldur ekkert að fara víða um heim bloggs/athugasemda/samfélagsmiðla til að finna slíkt og ég held að flestir kannist við það.
Þó að ég hafi nú haft takmarkaðan tíma til að kynna mér "CNN hlerunina", sýnist mér að slíkt nái inn í "virðulega" fjölmiðla einnig.
En persónulega er ég þeirrar skoðunar að allir eigi rétt á því að setja fram skoðanir sínar.
Ef "við nennum" ekki að blanda okkur í umræðu þeirra, látum "við" "þeim" hana einfaldlega eftir.
Því "umræðan" er yfirleitt þess eðlis að hún hverfur ekki.
En vissulega sneyði ég hjá "ákveðinni umræðu" vegna þess að hún höfðar ekki til mín.
Það verða þá vonandi einhverjir aðrir til þess að taka hana.
En persónulega tel ég að Íslensk stjórnmálaumræða væri mun fátæklegri ef Brynjars nyti ekki við.
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2020 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.