Lítið hrós til dómsmálaráðherra

Ekki ætla ég að dæma um hvernig tekst til með skipanir í Hæstarétt, almennt séð eru aðrir mörgum sinnum betur til þess fallnir en ég.

Það er eðlilegt að um slíkt séu stundum skiptar skoðanir og sjálfsagt hefur misjafnlega til tekist í áranna rás.

Slíkt gildir um flest kerfi sem mennirnir smíða.  Hvort að hægt sé að "útrýma mannlega þættinum"; eða það sé æskilegt er líklega hægt að rífast um sömuleiðis.

En það er ekki það sem ég skrifa um hér, heldur langar mig til að hrósa dómsmálaráðherra fyrir orðnotkun.

Birt er, í viðhengdri frétt, skjáskot af færslu hennar þar sem segir m.a.: „Hér er verið að stíga mikilvægt skref í jafnræðisátt þar sem nú verða 3 af 7 dómurum við réttinn konur.

En mér þykir í tilfellum sem þessum rétt að tala um "jafnræði" frekar "jafnrétti".  Það hefur vantað upp á að jafnræði væri á milli kynjanna í Hæstarétti.  Það hefur hins vegar ekkert vantað upp á jafnan rétt kynjana til að sitja, eða taka sæti í réttinum.

Svo má aftur deila um hvort að hvort að jafnræði með kynjunum eigi að vera rétthærra en önnur sjónarmið þegar skipað er í dómstóla eða önnur embætti. Það er enn önnur rökræða.

En mig langaði til hrósa dómsmálaráðherra fyrir að nota orðið "jafnræði" í stað "jafnrétti" í þessu samhengi.

Vonandi verður slík orðnotkun ofan á.

 

 


mbl.is Aldrei jafn margar konur skipaðar í Hæstarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er víst endalaust hægt að rífast um hvaða sjónarmið eigi að ráða sbr.landsréttarskipunina. En það er allavega til fordæmi fyrir því að ráðherra skipi dómara með tilliti til þess sem hann telur best fyrir réttinn frekar en þann sem kannski myndi mælast hæfastur.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/749892/

ls (IP-tala skráð) 17.11.2020 kl. 19:54

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Breyting á hæfismatinu gerði dómsmálaráðherra kleift að ganga fram hjá langsamlegasta hæfasta umsækjandanum (sem er karlmaður).

Guðmundur Ásgeirsson, 17.11.2020 kl. 20:50

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta.  Ég vona að þú hafir ekki miskilið mig.  Ég er alls ekki ósáttur við þessa skipan.  Eiginlega frekar ánægður með hana.  En það er rétt að um slíkar skipanir má alltaf deila.

Ég er fyrst og fremst yfir mig ánægður með að talað skuli um "jafnræði" en ekki "jafnrétti.

Ég er t.d. þeirra skoðunar að jafnrétti kynjanna til háskólanáms sé til staðar á Íslandi.  En marg oft hefur komið fram að þar ríkir ekki jafnræði á milli kynjanna.  Er það verulegt áhyggjuefni?  Ég er alls ekki viss um það.

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta. Ég hef enga skoðun á því hver umsækjenda um stöðurnar hafi verið hæfastur.

Persónulega held ég að það sé erfitt að setja upp í "excel" hver er besti lögmaðurinn eða dómarinn.  Að sumu leyti ekki ósvipað eins og það er erfitt að setja það upp í "excel" hver er besti tónlistarmaður, eða besti íþróttamaðurinn. 

Þess vegna er það oftar en ekki að val á slíkum veldur deilum.

Svo er hitt hvort að besti lögfræðingurinn verði besti dómarinn, besti stærðfræðingurinn besti stærðfræðikennarinn, eða besti hljóðfæraleikarinn besti tónlistarmaðurinn?

Og hvernig á að meta þetta allt saman?

Ég er alltaf efins þegar talað er um einhvern sem "langbestan"; alveg í sama hvaða samhengi það er.

Ég er reyndar þeirra skoðunar að öll slík kerfi sem reynt er að smíða hafa svipaða mannlega galla innbyggða, það er mannlegt gildismat.

En við vitum auðvitað að Georg er langhæfastur allra umsækjenda, enda með 5. háskólagráður, nema auðvitað að einhver með 6 sæki um.

Þess vegna stjórnaði hann "bensínstöðinni".

G. Tómas Gunnarsson, 17.11.2020 kl. 23:52

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er alveg rétt hjá þér að varla er hægt að setja upp excel skjal sem eitthvað endanlegt mat á því hver sé "bestur".

Það sem ég er hinsvegar að vísa til er að einn umsækjenda er sá eini sem hefur verið dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Sami maður hefur gefið út ógrynni fræðirita og greina sem njóta mikillar virðingar í samfélagi lögfræðinnar. Þetta þykir mér vega þyngra en þeir mörgu ágætu kostir sem aðrir umsækjendur höfðu fram að færa. Það er að sjálfsögðu mín skoðun og öðrum er frjálst að hafa ólíka skoðun á því.

Punkturinn er sá að ef hæfismatinu hefði ekki verið breytt á miðri leið eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, þá hefði sá karl sem um ræðir og kona líklegast orðið fyrir valinu. Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir um að tilnefna tvær konur hefði verið mun fjarlægari. Þess vegna vaknar sú spurning óhjákvæmilega hvort einhver kynjapólitík kunni að hafa spilað inn í niðurstöðu hæfisnefndar, sem ætti alls ekki að gera.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.11.2020 kl. 00:05

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta.  Ég skil alveg 100% "hvaðan þú ert að koma".  Get tekið undir það sem þú segir að hluta o.s.frv.

Það er vissulega svo að "everópulög" og "Mannréttindadómstóllinn" hafa haft vaxandi áhrif á Íslenskt réttarfar.

En hvort að "leikmaður í Þýskalandi", sé nauðsynlega "betri" en sá sem "spilar heima", er eins og allt annað háð mati.

Svo má auðvitað velta fyrir sér hvor að "kynjaðir dómstólar" séu ekki rökrétt skref á eftir "kynjaðri hagstjórn", "kynjuðum fjárlögum" o.s.frv.  :-)  Margir virðast berjast fyrir "kynjuðum fjölmiðlum" og "kynjuðum fréttum".

En stundum verður "Vöggur litlu feginn" og ég gleðst yfir því að dómsmmálaráðherra skuli nota orðalagið "jafnræði", en ekki "jafnrétti" sem ég tel engan veginn tilhlýðilegt við þetta tækifæri.

Hitt er einnig vert að hafa í huga, að ef við viljum að ráðherrar beri einverja "ábyrgð", verða þeir einnig að hafa eitthvað að segja um ákvarðanirnar.

G. Tómas Gunnarsson, 18.11.2020 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband