6.6.2020 | 09:23
Hver er raunkostnaður við að skima einstakling?
Ég er ekki hissa á því að afbókanir séu farnar að streyma inn til Íslenskra ferðaþjónustuaðila. Gjald upp á 15.000 kr á hvern ferðamann er hátt.
Mín 4ja manna fjölskylda þyrfti t.d. að borga 45.000 kr. við komuna til landsins. Það munar vissulega um minna.
En hver er raunkostnaður við hverja skimun?
Það hafa heyrst alls kyns tölur. Í sjónvarpi talaði Kári Stefánsson um kostnað í kringum 4.000 kr., að mig minnir fyrir utan tækjabúnað. Síðan var talað um kostnað í kringum 50.000 kr. og aftur finnst mér ég hafa heyrt talað um kostnað upp á ríflega 22.000 kr. nýlega.
Það skiptir vissulega máli hver raunverulegur kostnaður er.
Í Eistlandi býðst að fara í skimun hjá einkafyrirtæki fyrir 78 euro. Það er rétt ríflega 11.500, en það er hjá fyrirtæki sem er rekið til að skila hagnaði.
Hjá sama fyrirtæki er boðið upp á mótefnamælingu fyrir 23. euro, eða í kringum 3.500 kr.
Opinbera heilbrigðiskerfið í samstarfi við fyrirtæki í einkageiranum hafa framkvæmt ríflega 89.000 skimanir í Eistlandi.
Meðalkostnaður á skimun, með öllum tilfallandi kostnaði er í kringum 45 euro, eða 6.700 kr. (þessi kostnaðartala er miðuð við fyrstu ca. 55.000 skimanirnar).
Megnið af skimunum (og megnið af kostnaðinum) hefur verið framkvæmdur af einkafyrirtækjum (hagnaðardrifnum) í verktöku fyrir hið opinbera.
Vissulega er launakostnaður á Íslandi mun hærri, en annar kostnaður ætti að vera sá sami.
Ef til vill væri best að bjóða skimunina út á Evrópska efnahagssvæðinu. :-)
En það er líka áríðandi að það komi fram hver raunkostnaður er og hvernig hann er samansettur.
Það getur verið hagkvæmt að niðurgreiða ferðalög til Íslands um einhverja þúsundkalla, en að borga á þriðja tug þúsunda er varla skynsamlegt.
En ef kostnðurinn er nær því sem Kári Stefánsson minntist á, getur niðurgreiðsla verið hagstæð leið til atvinnusköpunar.
En svo hafa læknar stigið fram og lýst efasemdum sínum um gagnsemi skimana við landamæri, og hafa fært ágæt rök fyrir þeim. Ísland virðist enda vera nær eina landið sem ætlar að fara slíka leið.
Hefði t.d. verið betra að opna fyrir færri lönd og sleppa skimunum?
Það er líka eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að hegðun erlendra ferðamanna hafi breyst á Íslandi, eða smithætta frá þeim? Fyrir fáum mánuðum þótti sérfræðingum engin ástæða til þess að þeir færu í sóttkví.
Afbókanir þegar byrjaðar að streyma inn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ferðalög, Heilbrigðismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hugsa að það hefði verið langskynsamlegast að opna fyrir þau lönd þar sem nýsmit eru lítil sem engin og sleppa þessum skimunum.
En varðandi kostnaðinn, þá verður ekki annað séð en að verið sé að telja með mikinn fastan kostnað sem er til staðar hvort sem er, og deila honum svo niður. Það er vitanlega kolröng aðferð. Rétta aðferðin er að taka jaðarkostnað, þ.e. þann kostnað sem bætist við vegna skimananna.
Inn í þessa "hagfræðilegu" greiningu vantar svo vitanlega ávinning ríkisins af því að losna við fólk af bótum. Hversu marga farþega þarf til að einn starfsmaður komist aftur í vinnu?
Auðvitað afbókar fólk ferðirnar þegar skyndilega bætist ofan á kostnaður sem nemur stórum hluta af flugfargjaldinu. Það segir sig sjálft. Hvað þá þegar hann bætist ofan á óþægindin af skimuninni sem munu vera umtalsverð.
Mér sýnist á öllu að hér sé um einhverja málamiðlunaraðgerð að ræða. Og þá verður niðurstaðan gjarna einhver vitleysa. Við sjáum það glöggt hér.
Þorsteinn Siglaugsson, 6.6.2020 kl. 10:29
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég get að ýmsu leiti tekið undir að það kynni að hafa verið betra að opna fyrir færri lönd án skimana.
Það að "opna fyrir alla" með síðan jafn háum "skatti" og talað er um virkar næstum því eins og þversögn.
Ef til vill mun "Saatchi" auglýsa: "Iceland open for those who can afford", eða eitthvað í þá áttina.
En hver er raunkostnaðurinn? Það væri fróðlegt að væri upplýst.
En hagfræðilegi ávinningurinn af ferðamönnum og hver áhrifin yrðu á atvinnuleysi eru vissulega nokkuð sem þarft er að hafa í huga þegar gjaldtaka er ákveðin.
En þó að 15.000 á einstakling sé ef til vill ekki risa stór partur af heildarkostnaði við ferð til Íslands, held ég að "sálrænu áhrifin" geti orðið gríðarleg og dregið úr áhuga á Íslandsferðum.
Það má aldrei vanmeta sálræna þáttinn.
G. Tómas Gunnarsson, 6.6.2020 kl. 12:01
Ég geri ráð fyrir að fyrst þessar skimanir verða á hendi hins opinbera hljóti þetta að vera í alla staði hið versta mál. Of dýrt, illa skipulagt, tilgangslaust.
En ef ÍE hefð verið fengin til verksins hefði þetta áreiðanlega verið hið besta mál, ódýrt og sjálfsögð krafa. Fyrirfram ljóst að vel yrði að verki staðið.
Alltaf í boltanum?
Kristján G. Arngrímsson, 6.6.2020 kl. 20:48
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það eru þín orð að skimanir af hendi hins opinbera verði lílega illa skipulagður og tilgangslausar.
En ég var að velta fyrir mér kostnaðargrunninum, hver væri raunkostnaður við hverja skimun.
Eins og kemur fram í færslunni eru mismunandi tölur á sveimi.
Ég vitna líka til kostnaðartalna frá Eistlandi. Þær eru til muna lægri en þær sem ég hef heyrt frá Íslandi (þrátt fyrir að vera hagnaðardrifnar) nema þær sem ég heyrði Kára minnast á.
Mér hefur skilist að ÍE muni koma að verkinu, alla vegna í upphafi, enda hafa allir verið sammála (svo að ég hafi heyrt) að án þeirra væri þetta óframkvæmanlegt. Það er því alls ekki svo að skimanirnar séu alfarið á hendi hins opinbera.
G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2020 kl. 10:03
Samkvæmt óformlegu kostnaðarmati stjórnvalda er talið að þetta kosti 160000000/14/500 = 22.857 kr. á mann fyrstu tvær vikurnar.
Væntanlega er í þeim tölum gert ráð fyrir stofnkostnaði.
Hvað tekur svo við eftir það er svo óskrifað blað.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2020 kl. 22:33
@Guðmdundur, þakka þér fyrir þetta. Ég hef heyrst minnst á svipaða upphæð sem kostnað við hverja skimun.
En hún segir lítið um raunkostnað, eða hvernig hann er byggður upp.
Mikið hefur verið talað um að nauðsyn sé að kaupa nýrri, betri og aukin tækjabúnað til að standa að skimuninni.
En Íslenska heilbrigðiskerfið þarf vissulega á slíkum búnaði að halda.
Er meiningin að ferðmenn greiði þann kostnað?
Það er mörgum spurningum ósvarað.
Eins og minnst er á í upphaflega pistlinum, er hægt að kaupa skimun hjá hagnaðardrifnu einkafyrirtæki í Eistlandi á rétt rúmar 11.000.
Hvernig getur kostnaður við fjöldskimum verið u.þ.b. tvöfallt hærra?
Eitthvað sem vissulega er vert að velta fyrir sér.
G. Tómas Gunnarsson, 9.6.2020 kl. 12:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.