13.5.2020 | 12:41
Er þetta ekki bara "sjó off"?
Það hefur verið "stöðug barátta" síðan ég man eftir mér við að styrkja og vernda Íslenskuna.
En hvað er verið að vernda?
Íslenskuna sem var töluð árið 1900? Árið 1950? Árið 1970?
Eða er eingöngu verið að vernda að til sé eitthvað sem er ber heitið Íslenska?
Það þarf ekki að hlusta lengi á Íslenskt útvarp til að heyra viðtöl sem eru svo enskuskotin að sá sem ekkert skildi í hinu engilsaxneska máli, næði ekki fullum skilningi á því sem rætt var um í viðtalinu.
Þannig finnst mér alveg nóg að segja að Íslenska sé opinbert tungumál Íslands.
Að ríkinu sé skylt "að styðja hana og vernda" er svo loðið og teyjanlegt að það hefur enga þýðingu.
Hvað þyrfti Íslenskunni að "hraka" mikið svo að augljóst væri að Íslensk stjórnvöld væru að brjóta stjórnarskránna, með því að standa sig ekki í stykkinu við að "vernda hana og styrkja"?
Perónulega er ég þeirrar skoðunar að best fari á að stjórnarskrá sé með frekar einföldum og skýrum hætti, forðast sé orðskrúð og "feel good" atriði eins og lagt er til hér.
Og fyrst að minnst er á þjóðkirkjuna í fréttinni á að mínu mati að fella þá grein niður.
Þar fækkar jafnt og þétt og lítill meirihluti þjóðarinnar á ekki að hafa stjórnarskrárvarinn rétt á kostnað minnihlutans.
Það er tímaskekkja í stjórnarskrá.
Ríkismálið íslenska í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:53 | Facebook
Athugasemdir
Sammála. Má líka nefna svokallað "stóra brottfall" á 14. öld - þá týndi íslenskan 5 af 13 sérhljóðum! Svona lagað gerist á meðan tungumálið er notað af einhverjum.
Eða hvernig fór ekki fyrir latínunni?
Kolbrún Hilmars, 13.5.2020 kl. 13:12
@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Það er nú rétt að taka það fram að mér þykir vænt um Íslenskuna og meginástæðan fyrir því að ég er að blogga hér er til að tjá mig á Íslensku og að halda henni við. Sömuleiðis er ég mikill aðdáandi Íslenskrar nafnahefðar og hef haldið mig við hana, þó að engin skylda hvíli á í þeim efnum. En börnin mín eru Tómasarbörn.
En Íslenskunni, eða Íslenskri nafnahefð verður ekki haldið við nema að Íslendingar vilji það og geri það óumbeðnir. Engin lög, engin stjórnarskrárákvæði munu tryggja vernd eða viðgang Íslenskunnar.
En það er heldur ekkert athugavert við að hún breytist og þróist eins og hún hefur alltaf gert.
G. Tómas Gunnarsson, 13.5.2020 kl. 16:14
Tungumal er lifandi og tekur breytingum, en verður ekki nýtt tungumál með reglulegu millibili.
Auðvitað er það sýndarmennska að ætla sér að "vernda" málið. Enginn lagabókstafur getur gert það frekar en að hefta vöxt barna eða farvegi lækja.
Íslenskan er hinsvegar brothætt og lítið tungumál sem seint og um siðir mun sennilega víkja fyrir enskunni. Skólar eru helsti staðurinn til að viðhalda málinu. Því miður eru þeir frekar slakir í því. Serstaklega æðri menntastofnanir. Ég hef ósjaldan fengið bréf frá sprengmenntuðu fólki með tvær og þrjár gráður sem kunna hvorki stafsetningu né hafa meiri orðaforða sex ára börn. Ég er ekki að ýkja það.
Oft er sagt að Íslenskan sé fágæt vegna þess að aðeins rúm 300 þúsund tala hana. Ég held því fram að það séru aðeins um 60-70 þusund, sem eru skrifandi og talandi á málið.
14 tungumál deyja út á hverjum degi samkvæmt minum upplýsingum. Það er því ekki spurning um hvort, heldur hvenær Íslenskan deyr út.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2020 kl. 17:07
Afsakið. Það deyr eitt tungumál út á 14 daga fresti.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2020 kl. 17:10
@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Það gæti vissulega gerst að Íslenskan hverfi, það er að segja ef engin kærir sig um hana.
En það er alls ekki gefið. Rétt eins og að á ca. 1000 árum hefur Íslenska, Danska, Norska, Sænska og Færeyska þróast úr sama tungumálinu, þá getur slíkt haldið áfram.
Enskumælandi fólk hefur á ýmsan hátt færst frá hvert öðru, þannig að að stundum má leyfa sér að efast um að Enskan sé eitt og sama tungumálið, þó að vissulega sé alltaf grunnur til staðar.
Að einhverju marki er Enska svo "bastarður" úr mörgum tungumálum s.s. Norrænu, Frönsku/latínu og eldri germönskum/frísneskum málum.
En Íslenskan er eins og önnur tungumál síbreytileg.
Það hefur t.d. komið vel í ljós þegar ég hef hitt Kanadabúa af Íslensku bergi brotna, sem hafa lært Íslensku af foreldrum sínum.
G. Tómas Gunnarsson, 13.5.2020 kl. 17:44
Ég hugssa að íslenskan hafi haldist nær upprunalegu horfi, eða frá víkingaöld en önnur germönsk mál. Það segir sig eiginlega sjálft í svona útnára svo langt frá heimsins vígaslóð.
Ég get þokkalega stautað mig í gegnum eddukvæðin og skilið það mesta í eldri texta. Norðmenn læra gammelnorsk, sem er sama fyrirbrigðið og þeir undruðust mjög að ég skildi þennan texta að mestu.
Mér segist hugur um að enskan hafi verið ansi nærri okkar talaða máli í den og og jafnvel má segja varðveisla íslenskunnar að öðrum germönum sé akkur í að viðhalda þessu. Að þetta sé máske ekki okkar einkamál.
Olde english á lítið skylt við nútímaensku og fyrir íslending má með góðum vilja stauta sig fram úr henni þótt hún sé hebreska fyrir flestum englendingum.
Hér er faðirvorið á olde english.
Fæder ure
ðu ðe eart on heofenum
si ðin nama gehalgod
to-becume ðin rice
geweorþe ðin willa on eorðan swa swa on heofenum.
Urne ge dæghwamlican hlaf syle us to-deag
and forgyf us ure gyltas
swa swa we forgifaþ urum gyltendum
ane ne gelæde ðu us on costnunge
ac alys us of yfle.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2020 kl. 18:36
Ég hélt að þingið hefði lofað að röfla ekki um neitt nema flensu og neyðarviðbrögðum við sínum eigin ákvörðunum þangað til það fer í sumarfrí. En það hefur greinilega ekki staðið við það frekar en neitt annað heldur koma nú aukaatriðin tvíefld fram á sjónarsviðið.
Hverju breytir það hvort íslenska er skilgreind sem "ríkismál" í stjórnarskrá? Hætti fólk einhvern tíma að tala hana verður þeirri skilgreiningu vitanlega bara breytt. Þetta er því ekkert annað en innihaldslaust orðagjálfur sem ekki skiptir nokkru einasta máli.
Þorsteinn Siglaugsson, 13.5.2020 kl. 20:12
... að því sögðu, og biðst afsökunar á að hafa gleymt því: Skiptir ekki máli fyrir neinn nema auðvitað nefndina sem verður að sjálfsögðu stofnuð út af þessu, og aldregi lögð niður, og pésana sem fá þann bitling að vera í henni.
Þorsteinn Siglaugsson, 13.5.2020 kl. 20:17
Mér skilst að innflytjendur hér á Íslandi telji mikilvægt að geta lært málið því að annars eigi þeir enga möguleika á að aðlagast samfélaginu. Af frumvarpsdrögunum að dæma er ekki síst markmiðið með þessari breytingu að skylda ríkið til að styðja við t.d. kennslu í íslensku fyrir innflytjendur, sem yfirleitt eru jaðarhópur í samfélaginu. Með því að þeir geti lært málið er dregið úr jaðarsetningu þeirra.
Þannig séð er þetta hið besta mál og æskilegt að innflytjendur geti fengið færi á að læra íslensku til að geta frekar fengið aðgang að samfélaginu. Ekki veitir af. Þetta getur því skipt máli fyrir fjölmarga og í þessu tilviki fólk sem er þarft að veita stuðning. Engin ástæða til annars en að gera það. Þetta gæti meira að segja orðið til þess að fjölga innflytjendum hérna, og ekki veitir af.
Spurningin um "hvaða íslensku" eigi að vernda er bara retorík. Bara þá íslensku sem er töluð hérna og við notum dagsdaglega. Ekki flókið.
Kristján G. Arngrímsson, 13.5.2020 kl. 21:36
Þannig að ég held að það sé misskilningur að markmiðið með þessu stjórnarskrárákvæði sé fyrst og fremst að vernda íslenskuna fyrir ensku eða reyna að sporna gegn breytingum á málinu. Eins og þú segir, Tommi, er málið alltaf að þróast - ekkert tungumál er lokað kerfi.
Ég held að þetta sé fyrst og fremst tilraun til að stjórnarskrárverja rétt allra til að geta notað íslensku sem samskiptatæki og þar með átt eðilegt líf í landinu.
Kristján G. Arngrímsson, 13.5.2020 kl. 21:52
Af hverju er nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til að kenna fólkinu íslensku Kristján? Er ekki alveg hægt að kenna fólkinu íslensku án þess að breyta stjórnarskránni? Það er mjög margt sem er hægt að kenna fólki án þess, og það gengur oft bara alveg ágætlega.
Þorsteinn Siglaugsson, 13.5.2020 kl. 22:59
@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Enskan er dulítill hrærigrautur. Mörg norræn orð eru þar að finna enn, s.s. "flask" og "stool", en merkingin hefur breyst örlítið, en þau eiga sér systurorð úr Frönsku "bottle" og "chair".
Svo má er í Skosku Enskunni orð eins og "bairn" og "ken"
Þannig að ef til vill er Enskan eingöngu að gjalda Íslenskunni rauðan belg fyrir gráan, með sínum seinni tíma áhrifum.
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég held að þetta verði nú ekki afgreitt á þessu þingi, en ég held að það sé ágætt að reyna að koma af stað umræðu á meðal þjóðarinnar um mál eins og þetta.
Persónulega er ég ekki mótfallinn því að það komi fram í stjórnarskrá að Íslenska sé opinbert mál á Íslandi.
En ég er algerlega mótfallinn að í stjórnarskrá sé ríkinu skylt að vernda hana og styrkja.
Ef það fylgir með, er ég á móti ákvæðinu í heild sinni.
Ég get þó að hluta til tekið undir að slíkt sé óþarfi, og í framtíðinni verði því breytt ef þurfa þykir. En slíkt stjórnarskrárákvæði gerir það örlítið flóknara og seinvirkara, þannig að næst þegar einhverjum "þingmannssnillingi" dettur í hug að leggja fram frumvarp um að Ísland verði tvítyngt, myndi slíkt krefjast mikils stuðnings og gengi ekki í gegn með minnsta meirihluta.
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Íslenskan er síbreytileg eins og flest tungumál. En þó eru til opinberar reglur, ekki síst um hvernig hún er kennd.
Fyrirsögnin mín á þessum pistli fengi líklega ekki háa einkunn víða. Ef unglingar skrifuðu ritgerðir með sinni daglegu orðnotkun, reikna ég með að rauði liturinn yrði býsna áberandi þegar þeir fengju hana til baka, alla vegna í mörgum tilfellum.
Það er engin ástæða til að binda réttindi innflytjenda um kennslu í stjórnarskrá.
Um það má ef vilji er til setja lög. Það eru alls kyns sérþarfir sem reynt er að sníða menntakerfi að, án þess að stjórnarskráin þurfi að koma til.
G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2020 kl. 06:52
Bara svo það sé á hreinu: ég hef hvergi talað um að binda í stjórnarskrá réttindi innflytjenda til að fá kennslu. Og það er ekki í þessu ákvæði sem tillagan er um. Það kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu (ef þið látið svo lítið að gá) sem eitt af því sem litið er til. Þið eruð því að leggja mér orð í munn og gagnrýna eitthvað sem ég sagði ekki.
Kristján G. Arngrímsson, 14.5.2020 kl. 07:16
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég leit yfir frumvarpið og greinargerðina. Gerði það reyndar hratt.
En þegar ákvæðið kemur til umræðu í framtíðinni, ef það yrði sett óbreytt í stjórnarskrá, yrði eðlilega litið til greinargerðarinnar sem með því fylgdi, væri það ekki eðilegt.
Ég legg þér (að mínu mati) hvergi orð í munn, heldur kem fram með þá staðhæfingu (mín skoðun) að :
"Það er engin ástæða til að binda réttindi innflytjenda um kennslu í stjórnarskrá.
Um það má ef vilji er til setja lög. Það eru alls kyns sérþarfir sem reynt er að sníða menntakerfi að, án þess að stjórnarskráin þurfi að koma til."
Hins vegar, þykir mér þessi orð, en ég biðst forláts ef það er misskilningur, benda til þess að þú lítir svo að að á meðal markmiða fyrirhugarðra breytinga sé að ríkið sé skylt að styðja Íslenskukennslu innflytjenda:
"Af frumvarpsdrögunum að dæma er ekki síst markmiðið með þessari breytingu að skylda ríkið til að styðja við t.d. kennslu í íslensku fyrir innflytjendur, sem yfirleitt eru jaðarhópur í samfélaginu. Með því að þeir geti lært málið er dregið úr jaðarsetningu þeirra."
Ef það er réttur skilningur, yrði réttur til slíkrar kennslu þá stjórnarskrárvarinn.
G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2020 kl. 07:32
Þú skilur mig alveg rétt, enda það sem ég skrifaði frekar afdráttarlaust. En ákvæðið sjálft er eitt og markmið þess annað, markmiðin geta breyst og náðst með ýmsum hætti. Þannig að þetta ákvæði skyldar eiginlega bara ríkið til að jafna tækifæri allra þegna sinna á að geta talað íslensku - sem er forsenda þess að geta aðlagast samfélaginu fyllilega (og það er held ég ekki bara mín fullyrðing heldur reynsla innflytjenda).
Annars velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki aðallega orðið RÍKIS sem fer fyrir brjóstið á fólki. Væri kannski heppilegra að tala um OPINBERT mál (sem merkir samt alveg það sama). Ríkis- forskeytið vekur kannski þá hugmynd hjá sumum að hið hataða ríki ætli sér að taka forræði yfir því hvað telst íslenska og hvað ekki og skipa opinbera nefnd til að skera úr í deilumálum (sbr. hina hötuðu mannanafnanefnd) og hefta þannig frelsi fólks til að tala eins og því sýnist. Ég fæ ekki séð að neitt af þessu sé markmið ákvæðis um ríkismál.
Þú segir í bloggfærslunni, Tommi, að nær væri að tala um opinbert mál. Já, það væri fínt. En tilgangur og markmið ákvæðisins gæti samt verið nákvæmlega sá sami. (Kannski maður leggi þetta til í samráðsgáttinni).
En það hljóta allir að vera sammála því að innflytjendur eigi að eiga rétt á að fá tækifæri til að læra íslensku ef þeir svo kjósa, óháð efnahag. Ég held að ef slíkt væri eiginlega stjórnarskrárvarinn réttur myndi það auka enn áhuga fólks á að flytjast hingað.
Kristján G. Arngrímsson, 14.5.2020 kl. 10:30
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þó að það sé ekki einhlýtt, þá tíðkast að líta til "vilja löggjafans" ef ágreiningsefni koma upp. Ef slík væri staðan yrði eðlilega litið til þeirra greinargerðar sem fylgir frumvarpinu.
Það er fyllilega óeðlilegt að stjórnarskrárverja rétt til þess að fá Íslenskukennslu.
Það er líka út í hött að jafna, eða tryggja rétt allra þegna til þess að tala Íslensku.
Þá gæti ég ekki betur séð en að það gæti flokkast undir stjórnarskárbrot ef einhver getur ekki t.d. pantað á Íslensku á veitingastað.
Hins vegar finnst mér vel koma til greina að skilgreina Íslensku sem opinbert tungumál.
Það er tungumálið sem hið opinbera talar og notar. Það þýðir ekki að ekki megi þýða opinbert efni á önnur tungumál, en Íslenskan er það tungumál sem gildir.
Ég hef verið innflytjandi í fleiri en einu landi. Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að varpa þeirri ábyrgð í fang ríkisins að ég læri tungumálið. En ég hef keypt mér kennslu í fleiru en einu tungumáli, án þess að njóta til þess ríkisaðstoðar.
Það er heldur enginn ástæða til að ýta undir það að innflytjendur komi til Íslanda, allra síst í því árferði sem ríkir nú.
Það er hins vegar alveg ljóst, að ef stjórnvöld bera til þess gæfu að skapa þannig umhverfi á Íslandi að þar verði atvinnu að hafa og sjá megi tækifæri, verður enginn skortur á fólki sem mun vilja flytja til Íslands.
Ég hef enga trú á því að það verði skortur á atvinnuleysi í Evrópusambandinu á næstu árum.
G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2020 kl. 12:51
Jæja Tommi minn, þú verður víst seint vændur um að vera óvarlega "generös" í túlkunum þínum á orðum viðmælenda.
Kristján G. Arngrímsson, 14.5.2020 kl. 15:12
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki einu sinni viss um að hvaða örlæti þú ert að leita eftir.
En það skiptir mig í sjálfu sér ekki meginmáli.
En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stjórnarskrá eigi að vera eins skýr og kostur er.
Það eru margvíslegir hlutir sem fer betur á að setja lög um en að troða þeim í stjórnarskrá.
Ég er líklega gamaldags í þeirri skoðun að "kjarni" stjórnarskrár eigi að vera það sem líklega mætti kalla, stjórnskipan og vald ríkisins og hvernig því eru sett takmörk.
En vissulega eru skiptar skoðanir um hvernig stjórnarskár eigi að vera og hvað megi vera í þeim.
Það hafa verið til stjórnarskrár sem banna heimila aðeins starfsemi eins flokks og eru líklega til enn.
Ef vilji er til þess að vera "generös" þá mætti halda því fram að 76. grein stjórnarskrárinnar tryggi þann rétt sem þú vilt að innflytjendur njóti.
Þar segir: Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
En hvað er almenn menntun og fræðsla við hæfi hvers og eins er líklega verulega teygjanlegt og spurning hvernig lögin sem sett hafa verið taka á slíku.
En réttur til einhvers er heldur ekki það sama og að það sé skaffað "gratís" svo að góð Íslenska sé notuð.
Svo er það líka spurningin um "óháð efnahag". Hvenær hefur maður efni á einhverju og hvenær ekki?
Hvenær ætti nám að vera "ókeypis" og hvenær væri t.d. lánað fyrir því?
Ég hef um margra ára skeið keypt auka nám handa krökkunum mínum. Stundum hef ég orðið málkunnugur öðrum foreldrum undir þeim kringumstæðum.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að mín upplífun sé vísindaleg niðurstaða, en það fólk sem ég hef hitt þar er einmitt eins og ég, innflytendur að lang stærstu leyti.
G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2020 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.