1.5.2020 | 08:30
Er hættulegt að fólk fari yfir landamæri?
Kórónuveiran hefur vissulega breytt heiminum. En eins og oft gerist í storminum miðjum koma upp alls konar skoðanir sem í raun er erfitt að sjá séu rökréttar.
En hvað er rökrétta samhengið og hvaða mælistikur á að nota?
Hversu hættuleg er Kórónuveiran? Hvaðan kemur hættan? Er óhætt að einstaklingar ferðist á milli landa?
Tölfræðilega má líklega segja að Vestmannaeyar og Vestfirðir hafi verið með sýktustu svæðum í heimi, miðað við hina margfrægu höfðatölu.
Hins vegar hafa smit á Norðausturlandi og Austurlandi verið afar fá.
Má þá ekki segja að meiri ástæða hafi verið til þess að vernda íbúa Austurlands á ákveðnum tímapunkti gegn komu Vestfirðinga og Vestmanneyinga, en því að einhverjir Norðmenn, Danir eða Þjóðverjar komi með ferju til Seyðisfjarðar?
Hvort voru hærri tölfræðilegar líkur til að smitast af Dana, eða Vestfirðingi eða Vestmanneyjabúa?
Þessum skrifum er ekki ætlað að virka sem hvatningu til þess að setja hefði átt alla Vestfirðinga og Vestmanneyinga í einangrun, loka þjóðvegum og leggja Herjólfi.
En tölfræðilega er ekki hægt að segja að það sé marktækt meiri munur á hættunni af því að smitast af t.d. Norðmanni en af Íslendingi.
Það sama gildir t.d. um Pólverja, sem eru með lægra dánarhlutfall/íbúa en Íslendingar.
Svipað gildir um Finna, Eistlendinga, Letta og Litháa, svo nokkur lönd sem við þekkjum ágætlega til séu nefnd.
En næstu vikur munu skipta miklu máli og munu líklega sýna hvar á "kúrfunni" lönd eru stödd.
En það er líklegt að skynsamlegt sé að "aftengja" Schengen um all nokkurn tíma, gera hins vegar samninga við einstök lönd, sem byggðist þá á nýgengi smita og hvaða ráðstafanir þær myndu gera á flugvöllum.
Einnig þyrfti að fara varlega varðandi farþega frá "þriðja" landi og fá mun meiri upplýsingar en nú tíðkast.
Meira að segja Austurríki sem hefur fengið á sig "pestarbælisstimpil", þar Kórónuveiran er sögð hafa grasserað óhindrað all nokkra hríð er með ótrúlegar lágar tölur, bæði um andlát/milljón íbúa, eða 65 og virk smit undir 2000. En þeir gætu vissulega hafa staðið betur í skimunum (eru þó með þokkalega háa tölu/á milljón), en það gildir um ótal þjóðir.
Það er rétt að taka fram að auðvitað þarf alltaf að taka tölulegum upplýsingum með fyrirvara, en samt komust við oft ekki hjá því að byggja á þeim við ákvarðanatöku.
En í heild sinni er engin ástæða til þess að trúa því að meiri hætta sé á því að smitast af útlendingum en Íslendingum, nema þeir komi frá svæðum þar sem smit eru mjög útbreidd.
Ekki frekar en ástæða er til að trúa því að minni hætta sé á smiti í strætó en á öðrum fjölförnum stöðum.
P.S. Allar tölur sem nefndar eru í pistlinum eru fengnar frá Worldometers.
Vitum ekki hvort botninum sé náð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Evrópumál, Ferðalög | Facebook
Athugasemdir
Væntanlega er minnst hætta á að smitast af fólki frá svæðum þar sem ónæmi er mikið. Mesta hættan væntanlega gagnvart svæðum þar sem veiran er í mikilli og hraðri útbreiðslu.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.5.2020 kl. 12:17
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Þar sem veiran er í hraðri útbreiðslu verða að sjálfsögðu mestu áhættu svæðin.
En svæðin sem eru með mest ónæmi, kæra sig líklega ekki mikið um ferðalanga frá löndum sem veiran náði lítið að breiðast út. Þeir ferðalangar eru mikil hætta fyrir þá sem ekki hafa smitast.
En til þess að flokka hverjir eru "hugsanlegir smitberar" þarf þá mótefnaskírteini. En einstaklingar með slík skírteini yrðu líklega velkomnir hvar sem er.
En ef hlutfallið á milli tveggja landa er svipað, er ekki meiri hætta á því að smitast af útlendingum en heimafólki, tölfræðilega séð.
Nema síður sé, ef tekið mið er af fullyrðingum sóttvarnarlæknis um að ferðamenn hafi öðruvísi samskipti við heimamenn en heimamenn sjálfir.
En þetta er ekki einfalt mál að reikna.
G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 13:11
Bæti því við hér að ef Kórónuvírusinn geysar, þá kysi ég frekar að fljúga en að sitja í strætó.
En heilbrigðisráðherra er augljóslega ekki á sama máli.
G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 13:12
Hmm. Svæði þar sem ónæmi er mikið þurfa litlar áhyggjur að hafa af eigin íbúum þótt smitaðir ferðamenn komi, svo framarlega sem ekki þurfi unnvörpum að meðhöndla hina smituðu ferðamenn í landinu.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.5.2020 kl. 13:34
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Það sem ég var að reyna að koma til skila gildir fyrst og fremst um gagnvirka "opnunarsamninga" eins og hafa verið svolítið í umræðunni, en þó einnig um "almennar opnanir". En ég ef til vill hef ég ekki staðið mig vel í því að útskýra. Þessar vangaveltur gera enn fremur ráð fyrir því að veiran "malli" áfram.
Ef hægt er að meta það svo að lönd séu á svipuðum stað á kúrfunni, svipað hlutfall landsmanna hafi smitast, vel sé staðið að málum og svo framvegis eykst áhættan ekkert þó að landsmenn þeirra tveggja ríkja ferðist til hvors annars.
En hjarðónæmi gildir aðeins innan "þinnar hjarðar" ef svo má að orði komast. Þó að 62% íbúa eins lands hafi smitast, þýðir það að 38% eiga það enn á hættu að smitast.
Ef opnað er á ferðalög á milli landa þar sem aðeins 8% íbúa hafa smitast, aukast líkurnar á því að "þín" 38% smitist. Því þá hefur hlutfall "smitaðra" lækkað af heildarsummunni.
Auðvitað þyrfti að taka með í reikninginn stærð "hjarða" o.s.frv.
Frá landi sem hefur 62% smitaðra má segja að að möguleikinn sé 38/100 að einstaklingurinn geti hugsanlega borið smit.
Frá landi sem hefur aðeins 8% smit, er hugsanlegi möguleikinn 92/100.
En auðvitað þarf að taka fleiri breytur með í jöfnuna, nýengni o.s.frv.
En ég ef bæði ríkin eru á svipuðum stað, aukast líkurnar ekki. Hjörðin er vissulegs stærri, en tölfræðin breytist ekki.
Vona að þetta útskýri betur það sem ég var að reyna að koma til skila.
Ef þú, eða aðrir telja mig vera á algerum villigötum, hef ég aldrei neitt á móti því að vera leiðréttur.
G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.