29.3.2020 | 08:46
Undarlegir en breyttir tímar
Nú er hin nýja kórónaveira frá Wuhan búinn að vera með okkur í rétt um 3. mánuði, svona eins og við vitum en allt eins líklegt er að sameiginleg saga okkar sé eitthvað lengri.
Á þessum mánuðum hefur margt breyst og efast má um að hlutirnir verði eins og þeir voru áður.
Það er líklegt að breytingarnar, í það minnst margar þeirra, verði varanlegar, ja alla vegna þangað til þegar "ráðandi kynslóðir" nú, verða áhrifalittlar og þessi faraldur hefur fallið í gleymskunnar dá, rétt eins og fyrri faraldrar.
Þannig ganga hlutirnir oft fyrir sig.
Það er svo gott sem enginn á lífi sem man eftir síðasta alvarlega heimsfaraldri, enda eru rétt rúmlega 100 ár síðan "Spænska veikin" geysaði.
Og ríki heims virðast að mestu hafa verið alls óundirbúin undir þennan faraldur. Flestir virðast hafa átt von á "minni háttar" veseni, svona svipað og varð þegar SARS og MERS skutu upp kollinum fyrr á öldinni.
Svona eitthvað sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af í Evrópu eða N-Ameríku.
En það gerist líka að allt í einu er að svo gott sem hvert land fyrir sig. Undir svona kringumstæðum vill enginn senda mikilvægan búnað eða lækningatæki til annarra landa, því enginn veit hvenær þörf er á slíku heimafyrir. Sem betur fer hafa þó verið einhverjar undantekningar slíkum hugsunarhætti, en þær eru ekki margar.
Þannig er auðvitað sjálfsagt að setja lög þar sem bannað er að selja lyf úr landi, en jafnframt brugðist hart við ef önnur ríki setja sambærileg lög.
Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við slíkt, enda hefur áður komið í ljós í kreppum (þó frekar efnahagslegum en á heilbrigðissviðinu) að hver er sjálfum sér næstur og að ríki eiga sér hagmuni, frekar en vini.
Það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart og kom einnig vel í ljós í efnahagskreppunni 2008.
Það er líka umhugsunarvert að ýmsir kaupmenn og "braskarar" virðast hafa verið mun fljótari að átta sig á því en yfirvöld víða um heim, að gríðarleg eftirspurn yrði eftir hlífðargrímum og ýmsum öðrum varningi.
En það er líklegt að efnahagsáhrifin muni vara mun lengur en veiran sjálf verður á kreiki.
Það er ef til vill lýsandi að fyrir mánuði síðan voru flestir með áhyggjur yfir því að vörur og íhlutir bærust ekki frá Kína.
Nú þegar Kínverskar verksmiðjur eru hægt og rólega að komast í gang aftur sjá þær fram á verkefnaskort, vegna þess að Vestrænir viðskiptavinir eru að afpanta vörur og íhluti.
Bara það að Evrópumóti í knattspyrnu og Olympíuleikum hafi verið frestað, þýðir að þörfin fyrir varning fyrir milljarða gufar upp. Ekki bara í Kína, heldur um allan heim.
Það er einnig næsta víst að margir munu endurskoða aðfangalínur sínar.
Það er líklegt að fram komi kröfur um að ríki verði í auknum mæli fær um að fullnægja grunnþörfum sínum hvað varðar heilbrigðismál.
En nú búa æ fleiri þjóðir við neyðarástand og þurfa að taka risa ákvarðanir, oft með littlum fyrirvara.
Það gildir bæði um heilbrigðismál og efnahaginn.
Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkar ákvarðanir séu gagnrýndar og ræddar, en mikilvægt að það sé gert bæði af kurteisi og yfirvegun.
Það er líka rétt að hafa það í huga að það er við aðstæður sem þessar sem jafnvel röng ákvörðun í dag, getur verið betri en hárrétt ákvörðun sem er tekin eftir viku.
Að sjálfsögðu mun verða farið yfir öll viðbrögð og aðgerðir og vonandi dreginn lærdómur af þeim.
En nú, í storminum miðjum, er áríðandi að fylgja fyrirmælum og tilmælum hvort sem við erum sammála þeim eður ei.
P.S. Ég sjálfur fékk einhverja pesti og hef verið meira og minna veikur í 10 daga eða svo. Ég held að ég hafi ekki verið "krýndur", heldur aðeins verið með slæma "venjulega" flensu. En það er í raun ómögulegt að segja til um slíkt, enda einkennin æði svipuð.
En ég er við fína heilsu nú en hreyfi mig lítið út úr húsi.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.