2.3.2020 | 01:36
Góður sigur hjá Biden, Steyer og Buttigiege "henda inn handklæðinu".
Það er nokkuð merkileg staðreynd að Joe Biden hafi aldrei áður unnið í forvali nokkurs ríkis fyrr en nú (ekki hefur vantað tilraunirnar).
En ef til vill má segja að fyrsti sigurinn komi á góðum tíma, góður sigur sem endurræsir baráttu hans.
Nú þegar hafa Pete Buttigiege og Tom Steyer hafa þegar tilkynnt að þeir dragi sig í hlé. Það er líklegt að þeir muni lýsa yfir stuðningi við Biden.
Tom Steyer er reyndar fróðlegt dæmi, um að það er ekki nóg að hafa peninga í pólítík. Hann hefur eytt nokkur hundruð milljónum dollara af eigin fé, en hefur lítið sem ekkert upp úr krafsinu.
Vissulega er alltaf betra að hafa peninga en ekki, en kjörþokki og málefni verða að fylgja.
Síðan er það "ofur þriðjudagurinn" næstkomandi og þá fara línur líklega að skýrast að einhverju marki.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að milljónirnar hans Bloomberg dugi betur en milljónirnar hans Steyer (hann á reyndar all verulega meira af þeim).
Það verður líka fróðlegt að sjá hvort að Klobuchar muni draga sig í hlé áður en þriðjudagur rennur upp.
En það er auðvitað baráttan á milli Biden og Bernie sem allir munu fylgjast með. Bloomberg gæti hjálpað Bernie, því líklegt þykir að hann taki frekar atkvæði af Biden.
1344 fulltrúar eru í pottinum á þriðjudag, en í kringum 2000 fulltrúa þarf til að hljóta útnefningu. Kjörnir fulltrúar eru rétt fyrir 4000, en síðan bætast við tæplega 800 "super fulltrúar", sem eru þingmenn, ríkisstjórar, fyrrverandi forsetar og flokksleiðtogar.
Flesta kjörna fulltrúa hefur Kalífornía, 415.
En svo spilar 15% reglan stóra rullu, en þeir sem fá undir 15% stuðning fá enga fulltrúa. Nýleg skoðanakönnun í Kalíforníu sýndi einungis Sanders og Warren ná því marki.
En nú þegar keppinautarnir eru farnir að falla út, gæti það hjálpað Biden og líka Bloomberg, en Bloomberg er í skoðanakönnuninni í 3ja sæti með 12%, en Biden í því 5ta með 8%. En á milli þeirra var Buttigieg með 11%, þannig að augljóst er að það skiptir gríðarlegu máli hvert stuðningsmenn hans flytja sig.
En það verður fróðlegt að sjá hvort að einhver frambjóðandi nær afgerandi sigri, og hver þá?
Biden vann öruggan sigur í Suður-Karólínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.