Kostar Netflix Eurovision á Íslandi?

Ef marka má fréttir sem ég hef séð frá Íslandi, mun Netflix kosta útsendingu Eurovision á Íslandi í vor.

Flest sem ég hef heyrt sagt um málið er neikvætt í garð RUV og þessarar kostunar.  Talað er um að þetta sýni slæmt siðferði RUV, það sé óviðeigandi að Netflix kosti slíka útsedingu.

Netflix sé ógn við Íslenska fjölmiðla og menningu og því eigi RUV ekki að vera í samstarfi við slíkan aðila.

Síðan er því gjarna bætt við að Netflix greiði enga skatta á Íslandi og sé á meðal þess sem gerir Íslenskum fjölmiðlum erfitt fyrir.

Ég get vel skilið að þetta samstarf veki athygli, en ég sé ekki raunverulegar ástæður til þess að amast við því.

Það væri fyrst orðið umdeilanlegt ef RUV væri ætlað að hafna þeim sem vilja auglýsa hjá stofnuninni eða kosta dagskrárliði, eftir einhverji siðferðismati um starfsemina.

Öll fyrirtæki ættu að hafa jafnan aðgang að auglýsingum og þess háttar, svo lengi sem löglegt er að auglýsa viðkomandi vöru.

Annað gengur hreinlega ekki upp að mínu mati.

Það má hins vegar rökræða lengi um hvort að auglýsingar og kostanir eigi að vera á RUV, hvort að skylduáskrift sé rétt, hvaða markmið séu með rekstri RUV og hvort að það eigi að setja rekstri þess einhverjar skorður.

En að RUV fari að flokka auglýsendur/kostunaraðila í æskilega og óæskilega er alger fjarstæða að mínu mati.

P.S. Viðbætt hér 18. janúar.  Mér barst tölvupóstur með þeim upplýsingum að Netflix borgi að sjálfsögðu virðisaukaskatt af áskriftum á Íslandi.  Fannst rétt að það komi fram.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Án þess að ég ætli að fella neinn dóm um stóra Netflixmálið (sem ég hafði ekki heyrt um fyrr en ég las færsluna þína) þá er auðvitað ekkert athugavert við að sá sem selur þjónustu, t.d. Rúv að selja auglýsingar eða þiggja kostun, hafni viðskiptum við fyrirtæki á siðferðislegum forsendum. Af hverju ætti Rúv - eða hvaða annað fyrirtæki sem er - ekki að mega gera það?

Kristján G. Arngrímsson, 16.1.2020 kl. 21:06

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki sammála þér að ríkisfyrirtæki eins og RUV geti leyft sér að hafna því að að fyrirtæki geti auglýst hjá þeim af siðferðisástæðum, að reksturinn sé á einhvern hátt "ósiðlegur".  Ef það er löglegt að auglýsa vöruna, þá hlýtur fyrirtækið að eiga rétt á því að ríkisfyrirtæki meðhöndli það með sama hætti og önnur fyrirtæki.

Þannig myndi ég segja að ef t.d. væri leyft að auglýsa veðmálastarfsemi, þá ættu slík fyrirtæki rétt á að ríkisfyrirtæki taki á móti þeim eins og öðrum fyrirtækjum.

Rétt eins og stofnunum á ríkisframfæri er (að mínu mati) ekki stætt á því t.d. að neita að gefa saman einstaklinga t.d. út af kynhneigð.  Skiptir ekki máli (að mínu mati) hvort stofnunin telur það siðferðislega rangt eða ekki.

Það er einfaldlega ekki ríkisfyrirtækja að flokka fyrirtæki í siðferðislega rétt eða röng, öll fyrirtæki á Íslandi greiða til ríkisútvarpsins, hvort sem þau eru siðferðislega "rétt" eða "röng" og eðlilegt að ríkisstofnunin þjónusti þau á sama grunni.

G. Tómas Gunnarsson, 16.1.2020 kl. 21:49

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er ekki norski olíusjóðurinn "ríkisfyrirtæki"? Hann hefur hætt fjárfestingum á siðferðilegum forsendum. Man nú ekki nákvæmlega hvernig það var, þe. hvaða fjárfestingar hann dró til baka og af hvaða ástæðum. En það þótti almennt held ég bara jákvætt að þetta var gert. Hvað ef t.d. nýnasistar vilja kosta Eurovision? (Ég er alls ekki að bendla Netflix við nýnasisma!) Ég held að Rúv yrði illa stætt á að þiggja slíkt tilboð. 

Kristján G. Arngrímsson, 16.1.2020 kl. 22:02

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég tek fram að í fljótu bragði sé ég ekki hvers vegna Netflix ætti ekki að mega kosta Eurovision á Íslandi.

Kristján G. Arngrímsson, 16.1.2020 kl. 22:04

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ef nýnasistar vilja auglýsa á RUV get ég ekki séð hvernig RUV á að geta bannað þeim það, nema að nasismi sé bannaður á Íslandi, en mér er ekki kunnugt um það, þó að ég geti ekki útilokað það.

Það er ekki Ríkisútvarpsins að ákveða hvaða stjórnmálaskoðanir eru "þóknanlegar" og hverjar ekki.

Hvað varðar Norska olíusjóðinn, þá man ég að Norska fjármálaráðuneytið ákvað að hann skyldi ekki fjárfesta í tóbaksfyrirtækjum.

Það var í raun pólítísk ákvörðun tekin af stjórnmálamönnum, ekki ríkisfyrirtækinu, og gilti um öll tóbaksfyrirtæki.

Ekki eitt þeirra.

Síðan ákvað sjóðurinn að minnka hlut sinn í kolageiranum, en jók í staðinn hlut olíu og gasfyrirtækja.

Auðvitað myndu margir segja að Norski olíusjóðurinn sé byggður á "ósiðlegri" starfsemi, en að er önnur saga.

Ég er ekki frá því, þó ég vilji ekki fullyrða neitt, að ef RUV neitaði Netflix um að auglýsa stangaðist það á við samnninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem ríkisfyrirtæki væri að styðja við innlend fjölmiðlafyrirtæki (sem fá að auglýsa á RUV) og styrkja stöðu þeirra.

Það er jú meiningin að vörur og þjónusta fái að fara hindrunarlaust yfir landamæri.

G. Tómas Gunnarsson, 16.1.2020 kl. 22:19

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má svo bæta við að RUV  hefur verið og er fjármagnað af áfengisframleiðendum og dreifingaraðilum, sígarettuheildsölum, nikótínpúðadreifendum, strippstöðum, byssusölum, og svo framvegis.

Því allir þessir aðilar greiða gjald til RUV.

Ætti að undanskilja þá af "siðferðisástæðum"?

G. Tómas Gunnarsson, 16.1.2020 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband