11.1.2020 | 02:55
Stóra "lúðamálið" og "sósíal realísk" kvikmyndagerð
Mér fannst nokkuð gaman að lesa um "stóra lúðamálið". Sem gömlum "landsbyggðarlúða", sem breyst hefur í "sófistíkeraðan" stórborgarmann, er mér auðvitað málið skylt og þekki það af eigin raun. Frá báðum ef ekki fleiri hliðum.
Það er vissulega freistandi að taka upp þykkjuna fyrir "landsbyggðarlúðana", þó þykist hinn "sófistíkeraði" stórborgarbúi vita betur.
Það er nefnilega þetta með raunsæið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Það vill oft fara fyrir ofan garð og neðan.
Það kann auðvitað að koma mörgum á óvart að ungt fólk í New York býr ekki eða lifir eins og sést í "Friends", allra síst ef það er atvinnulaust eða með stopula vinnu. Það eru víst sömuleiðis býsna margir New York búar sem deila ekki lífsstíl með vinkonunum í "The Sex And The City".
Homer er ekki týpískur starfsmaður í Bandarísku kjarnorkuveri og ef við skellum okkur í sumarfrí til Torquay, þurfum við ekki að eiga von á svipuðum trakteringum og gerðust í "Fawlty Towers", þó að þeir þættir (eins og margir aðrir) séu reyndar byggðir á raunveruleikanum að hluta til.
Bandarískur lögreglumaður sem ég eyddi einu sinni smá tíma andspænis á bar, sagði mér í óspurðum að kleinuhringjaát þeirra í kvikmyndum væri ofgerð og leiðinleg steríótýpa.
Líklega eru rannsóknarlögreglumenn heldur ekki jafn einmanna, þunglyndir, drykkfelldir og fráskyldir og sýnt er í þáttum og kvikmyndum. Alla vegna ekki þeir sem ég hef kynnst, en þeir eru reyndar það fáir að þeir teljast ekki marktækt úrtak.
Ég leyfi mér sömuleiðis að efast um að þeir félagar Ólafur Ragnar og Georg séu týpískir starfsmenn á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ættu stéttarfélög ef til vill að fara að huga að "ímynd" félagsmanna sinna í kvikmyndum og sjónvarpi?
Þannig er það að oft velja sögu- og kvikmyndagerðarmenn að sýna okkur frekar ýkta, en skemmtilega/áhugaverða útgáfu af raunveruleikanum.
Oft eitthvað sem þeir teljs "söluvænlegt".
Það er engin ástæða til þess að taka það of hátíðlega, persónulega hef ég engan áhuga á því að taka undir einhver áköll um "sósíal realíska" kvikmyndagerð.
Kæfum ekki kvikmyndir eða önnur skáldverk með kröfum um um að þau endurspegli raunveruleikann.
Það er ekkert að því að einhver þeirra geri það, en alls ekki nauðsyn.
Meginflokkur: Sjónvarp | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Grín og glens | Breytt 12.1.2020 kl. 02:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.