18.12.2019 | 18:04
Breska kosningakerfið - skiptar skoðanir
Það má ganga nokkurn veginn að því sem vísu að eftir kosningar í Bretlandi upphefjist umræða um kosningakerfið.
Til dæmis segir Nigel Farage að það sé stærsta málið í Breskum stjórnmálum að breyta yfir í hlutfallskosningu (líklega þá eftir að Brexit hefur verið afgreitt :-). Líklega hafa fáir flokkar farið mikið verr út úr Breska kosningkerfinu, en UKIP, þar sem Farage var lengi leiðtogi.
Vissulega eru einmenningskjördæmi verulega umdeilanlegt fyrirkomulag, enda möguleiki á því að sigurvegarinn hafi ótrúlega lágt hlutfall atkvæða, allt eftir fjölda framboða og atkvæðadreifingu. En að er ekki óþekkt að vinna sæti með í kringum 30% atkvæða.
Þannig má vissulega segja að niðurstöðrnar endurpegli ekki vilja kjósenda heldur eingöngu stærsta hluta þeirra. Þetta þekkja Íslendingar vel frá niðurstöðum forsetakosninga, en flestum forsetum hefur þó tekist að verða að forsetum "allra kjósenda".
En það er varhugavert að yfirfæra niðurstöðu kosninga í einmenningskjördæmum yfir í hlutfallskosnigar.
Því eðlilega taka kjósendur, frambjóðendur og flokkar mið af því kerfi sem þeir starfa með.
Mjög líklegt er að kosninghegðunin hjá öllum þessum aðilum yrði önnur í Bretlandi ef um hlutfallskosningu væri að ræða.
En án nokkurra vísindalegra rannsókna, heldur eingöngu byggt á því sem ég hef lesið og heyrt, sem og skoðunum örfárra enskra kunningja, held ég að niðurstöðurnar í nýafstöðnum kosningum hefði orðið all nokkur önnur ef um hlutfallskosningu í nokkrum stærri kjördæmum hefði verið að ræða.
Í fyrsta lagi hefði flestir flokkar líklega ákveðið að bjóða fram í öllum kjördæmum. Brexit flokkurinn hefði aldrei dregið sig í hlé í stórum hluta þeirr, svo dæmi sé tekið.
Mér þykir líklegt að Íhaldsflokkurinn hefði fengið heldur lægra hlutfall atkvæða(og mun færri þingmenn), mér þykir sömuleiðis líklegt að tap Verkamannaflokksins hefði orðið mikið stærra.
Frjálslyndir demókratar hefði líklega orðið mun stærri og Brexit flokkurinnn hefði jafnvel getað náð á bilinu 12 til 20% fylgi. Brexit flokkurinn hafði t.d. yfir 25% fylgi í Hartlepool, en var samt í 3ja sæti.
Skoski þjóðarflokkurinn myndi síðan skreppa saman í fylgi að einhverju leyti, en líklega helmingast í þingmannafjölda.
Ekki er ólíklegt að tala framboða myndi marfaldast. Sömuleiðis þykir mér líklegt að kjörsókn hefði orðið meiri.
Þetta eru auðvitað hugleiðingar sem óþarfi er að taka hátíðlega, en það er staðreynd að flokkarnir haga kosningabaráttu sinni í samræmi við kerfið og eyða littlu púðri í kjördæmi sem þeir telja örugg.
En þar kemur þó einmitt að því sem margir telja kost einmenningskjördæmanna, nálægðin og þá staðreynd að fá ef nokkur sæti eru 100% örugg.
Því fékk leiðtogi Frjálslyndra demókrata að kynnast í nýafstöðnum kosningum, en hún náði ekki kjöri.
Það breytist í hlutfallskosningum með "löngum" listum.
Jafnvel tvær umferðir tryggja heldur ekki að meirihluta atkvæða þurfi til meirihluta á þingi. Þannig er t.d. staðan í Frakklandi (með sínar 2. umferðir í þingkosningum) að flokkur Macron forseta er með u.þ.b. 53% þingmanna með rétt ríflega 43% atkvæða. Fjöldi flokka hefur vissulega áhrif.
En mörg ríki (þar á meðal Ísland) hafa löggjöf sem settur er "þröskuldur", hugsaður til að draga úr "flokkakraðaki". Önnur ríki gefa "þingmannabónus", þeim flokki sem er stærstur. Í Grikklandi minnir mig að sá bónus sé 50 þingmenn, en á Ítalíu segir minni mitt mér að bónusinn sé 100 þingmenn.
Líklega væru ekki margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ánægðir með slíkt fyrirkomulag á Íslandi.
Þannig eru mismunandi kerfi notuð víða í lönd, og um þau ríkja mismunandi skoðanir. Það er eðlilegt.
Líklega verður seint breytt um kerfi í Bretlandi, enda hafa þrír stærstu (þing)flokkarnir, Íhaldsflokkurinn, Verkamannaflokkuring og Skoski þjóðarflokkurinn ótvíræða hagsmuni í af núverandi kerfi.
Það voru heldur ekki margir sem mótmæltu hlutskipti UKIP árið 2015, en þá var flokkurinn 3ji stærsti flokkurinn í atkvæðum, en hlaut aðeins 1. þingmann. Sigurinn hefði jafnvel getað orðið stærri i hlutfallskerfi, hver veit?
Ég gerði töflu eftir kosningarnar 2015, hvað varðar mismun á % hvað varðar atkvæði og þingmenn.
Líklega hefði stjórnmálasaga Breta orðið að einhverju leiti öðruvísi, ef eftir þessar kosningar hefði tekið við samsteypustjórn Íhaldsflokksins og UKIP, í stað meirihlutastjórnar þess fyrrnefnda.
P.S. Það er ýmislegt sem tíðkast í lýræðisríkjum sem skiptar skoðanir eru um. Ég er t.d. alfarið á móti því fyrirkomulagi sem tíðkast víða, t.d. á mörgum af Norðurlöndunum að þjóðhöfðingji geti ekki komið úr nema einni fjölskyldu. En þegnar viðkomandi landa virðast flestir vera ágætlega sáttir við fyrirkomulagið. Það fyrirkomulag helst því áfram.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 19.12.2019 kl. 15:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.