29.1.2019 | 12:59
Er þörf fyrir "Sannleiksstofu"?
Það hefur mikið verið rætt um sannleikann, ja líklega eins lengi og nokkur getur munað, en ekki síst nýlega og þá oft í tengslum við "falskar fréttir".
En "falskar fréttir" eiga líklega jafn langa sögu og sannleikurinn, og "falskar" bækur hafa líka verið skrifaðar og hafa hlotið bæði lof og last, "gersk ævintýri" gerast enn í dag.
En líklega hafa "falskar fréttir" meiri möguleika í dag en oft áður, en þó ekki. Rétt eins og "Nígeríusvindlarar" hafa dreifendur "falskra frétta" meiri möguleika en nokkru sinni fyrr, en það hafa fréttaneytendur einnig.
Aldrei hefur verið auðveldara að leita á netinu og sjá "mismunandi" fréttir af sama atburðinum og jafnframt því að sjá á hvers kyns miðlum frétt hefur birst.
En um "falskar fréttir" gildir að miklu leyti það sama og um "Nígeríusvindlið" að það eru alltaf einhverjir sem trúa.
Þeim verður enda varla útrýmt frekar en svindlinu.
Og "fölsku fréttirnar" eru mismunandi, hið virta tímarít Der Spiegel varð fyrir stuttu að reka margverðlaunaðan blaðamann sinn, New York Times hefur oftar en einu sinni "lent" í því að birta "vitleysu".
Fréttastofa Stöðvar2/Bylgjunnar birti nýlega frétt sem virðist hafa verið hreinn uppspuni (hvers hef ég ekki vitneskju um) og hefur beðist afsökunar á því.
Sjónvarpsstöð á Íslandi varð uppvís að því að spyrja leiðtoga stjórnmálaflokks um hvern mætti finna sem væri "heppilegur" í umræður.
Því það er ekki eingöngu "falskar fréttir" sem eru varasamar lýðræðinu, heldur einnig sú viðleitni fjölmiðla að leiða "réttu" skoðanirnar og fréttirnar fram.
Slíkt er jafnvel enn "hættulegra", vegna þess að lymskulegar er staðið að verki.
En er eitthvað hægt að gera?
Vissulega er hægt að hvetja alla til þess að hafa varann á sér, leita sér frétta sem víðast og svo fram eftir götunum, en það er best að hafa allan vara á þegar opinberir aðilar ætla að fara að skilgreina "sannleikann", eða skilja kjarnann frá hisminu í fréttaflutningi.
Slíkt er í besta falli varasamt, í versta falli "stórslys" og mikil hætta á misnotkun og stundum er fín lína á milli "falskra frétta" og skoðana.
Það er hægt að setja fram alls kyns skoðanir og fullyrðingar, s.s. að miklar líkur séu á því að Rússar muni reyna að hafa áhrif á kosningar á Íslandi og svo til dæmis að kvótakerfið hafi rústað sjávarþorpum á landsbyggðinni.
Fyrra tel ég að hluta til rétt, þó að ekki sé ástæða til þess að hafa af því miklar áhyggjur. Það er þekkt að ríki reyna gjarna, yfirleitt með óbeinum hætti, að hafa áhrif á kosningar í öðrum ríkjum. Stundum þó hreinlega beinum. Ég man ekki betur en að Angela Merkel hafi t.d. lýst yfir stuðningi við Macron í síðustu forsetakosningum í Frakklandi.
Seinni fullyrðinguna tel ég ranga, en hana hefur oft mátt sjá í pólítískri umræðu á Íslandi undanfarna áratugi. Ef til vill má segja að hún sé í eðli sínu "popúlísk", en það skiptir ekki meginmáli.
Ýmsir hafa reynt að leiðrétta hana, en hún í sjálfu sér hverfur ekki, en það er heldur ekki ástæða til þess að hafa af slíku stórar áhyggjur.
Persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af því þegar stjórnvöld hafa uppi stór áform í verndun "sannleikans", mér sýnist þó að slíkt sé ekki í farvatninu á Íslandi.
"Sannleiksstofur" og aðrar slíkar stofnanir eru ekki lausnin, geta í besta falli veitt "falskt öryggi", en er allt eins líklegar til að verða "sannleikanum" og tjáningarfrelsi hættulegar.
Skólakerfið sporni við falsfréttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:00 | Facebook
Athugasemdir
Löngum hefur sannleikurinn vafist fyrir fólki. Flestir ef ekki allir eiga það til að "fegra" staðreyndir, nota "hvíta" lygi eða hreinlega segja ósatt vísvitandi en stundum gerir fólk það í góðri trú um að það sé að segja satt og rétt frá.
Einn er sá sem var og er sannleikans megin, Hann sagði Ég er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið, sá er Jesús Kristur.
Sá sem vill vera sannleikans megin fylgir Honum sem er Sannleikurinn.
Lygin er óvinur mannkynsins og faðir lyginnar er satan sjálfur. Þeir sem stunda lygina eru fylgjendur hans, en þeir sem stunda sannleikann eru fylgjendur Hans sem er Sannleikurinn.
Spyrja má, eru allir þeir sem segjast vera kristnir sannleikans megin, stunda þeir sannleikann. Svarið er því miður neitandi. Því miður reynist fólki erfitt að feta veg sannleikans því höfðingi þessa heims er sjálfur lygarinn og fólk flækist í lygavefjum hans.
Til þess að feta braut sannleikans þarf að verða hugarfarsbreyting í landinu, fólk þarf að leita Hans sem er Sannleikurinn og fylgja Honum. Jesús sagði, "...enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig". Hann sagði einnig "..ekki munu allir sem segja við mig herra, herra ganga inn í Himnaríki, heldur þeir sem gera vilja Föður míns".
Í Opinberunarbókinni 21.kafla segir: 8"En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."
Lygin er bölvaldur og hefur komið mörgum í klandur. Sannleikurinn gefur okkur frelsi. Í Jóhannesarguðspjalli 17.kafla segir Jesús: 3"En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist."
Sannleikurinn er sá að ef við leyfum Guðs Orði ekki að móta okkur og fylgjum ekki Honum sem er Sannleikurinn þá getum við ekki lifað í sannleikanum. Þess vegna þarf að snúa þeirri þróun við sem verið hefur í landi okkar og uppfræða fólk og ekki hvað síst börnin um Guðs Orð og Guðs vegu, kenna Biblíusögur og Kristinfræði í skólum og sækja samfélag trúaðra þar sem uppfræðsla í Guðs Orði fer fram.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 14:08
@Tómas, þakka þér fyrir þetta. Líklega er kristindómurinn einhver stærsta "falska frétt" sögunnar, ef ekki sú allra stærsta.
Enda hefur "guðs orð" tekið breytingum í gegnum tíðina eftir því hvað hefur þótt henta á hverjum tíma.
Það breytir því ekki að sjálfsögð réttindi eru að trúa, það er engin réttlæting fyrir því að hið opinbera blandi sér þar inn í og tilraunir til slíks hafa endað með ósköpum.
Né heldur réttlæting fyrir því að hinir trúuðu ætli sér að segja okkur hinum fyrir.
Það hefur engan tilgang að rífast um slíkt hér, né víðast hvar annars staðar.
Best fer á því að hver móti sér sína skoðun og afstöðu og virði hinna. Það þýðir ekki að ekki megi gera grín eða hæðast að skoðunum annarra, einfaldlega að virða eigi rétt þeirra til að hafa þær.
Þannig er þetta svo víða, lygi eins er sannleikur annars.
Og hver er þess umkominn að skera þar úr um?
G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2019 kl. 14:15
Kæri nafni, ekki dettur mér í hug að rífast við þig um trúmál né nokkuð annað, en ég verð þó að segja að Guðs Orð hefur alltaf staðið fyrir sínu, það hefur verið óbreytt frá upphafi. Ég tel að ólán okkar sem þjóðar og reyndar hinn vestræni heimur eins og hann leggur sig er að hafa snúið frá Orði lífsins og Honum sem lífið gefur, sem er Jesús Kristur.
Ég bið þér allrar Guðs blessunar.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 15:17
Er sjálfur að bíða eftir Stofustofu - stofnun sem heldur utanum allar þessar stofnanir.
En hvað um það - fréttir eru svolítið mikið skoðanir blaðamanna, og það sem þeir halda að gangi í fólk.
Sumt er beinlínis clickbait, td DV/pressan núna.
Held þetta hafi alltaf verið svona, en það sé meira nýtilkomið að menn hafi geta á auðveldan hátt borið saman og fact-checkað.
Ásgrímur Hartmannsson, 29.1.2019 kl. 15:42
@Tómas, þakka þér fyrir þetta. Ertu þá að segja að Bíblían (guðs orð) hafi ekkert breyst í gegnum tíðina? Að afstaða trúaðra (ekki allra, en margra trúarsöfnuða) hafi ekki breyst? Til samkynhneigðra, til "hórlífis", til kynlífs fyrir hjónaband, barna utan hjónabands o.s.frv.
Það er ekki langt síðan að litið var "hornauga" að þeir sem höfðu framið sjálfsvíg væru grafnir í "vígðri" mold.
Það er heldur ekki svo langt síðan að fjöldi einstaklinga var drepinn í nafni trúarinnar fyrir ímyndaða glæpi eins og "galdra" en allt er þetta í sjálfu sér aukaatriði, það sem skiptir máli er umburðarlyndið, bæði fyrir trúarbrögðum og hinu að standa utan þeirra.
Trúarbrögðin ættu að láta söfnuði sína duga og láta aðra í friði, bæði andlega og ekki síður fjárhagslega, en það er önnur saga.
@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Já þær eru margar "stofurnar" og ríkið hefur margar "vistarverur", ef svo má að orði komast.
Fullt af fréttum "dansa á línunni", og það eru oft þær sem vekja hvað mesta athygli. Ný "athugasemd" fjölgar síðan "klikkunum" og "fáranlegar" athugasemdir fjölga athugasemdunum, sem fjölgar svo "klikkunum" og þannig fóðrar "skrýmslið" sjálft sig.
Bráðum verður þetta svo líklega allt niðurgreitt af ríkinu, þá verður nú gaman að lifa, eða hvað?
G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2019 kl. 16:03
Guð Orð hefur ekki breyst, en það höfum við mennirnir. Skaparinn -Guð- hefur ekki skipt um skoðun, Hann er ávalt sá sami, Orð Hans breytist ekki, en það erum við mennirnir sem reynum að breyta því eftir "tíðarandanum" en sá andi er ekki Guðs andi.
Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að Guð er persónulegur, en Hann er ekki eins og við mennirnir sem flöktum til og frá, ein skoðun í dag og önnur á morgun, Hann er sá sami frá því áður en veröldin varð til. Þetta er kannski of flókið fyrir suma en þannig er það sem Orð Guðs kennir okkur og ég hef fengið að upplifa og reyna að Guð er sannur.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 16:27
@Tómas, þakka þér fyrir það. Þú ert þá að líklega að segja, ef ég hef skilið rétt, að orð guðs sé ekki að finna í bíblíunni, né heldur í einhverjum kirkjum eða fulltrúum þeirra.
Guð tali einfaldlega til hvers og eins.
Persónulega get ég borið fulla virðingu fyrir því, þó að persónulega finnist mér fátt hættulegra en þeir sem hafa fundið "sannleikann" með greini.
En það er ekkert að þessu, svo lengi sem ekki er krafist framlaga frá skattgreiðendum til að standa straum af því.
Það ætti enda að vera óþarfi, ef hver hefur sitt persónulega samband við guð.
Það er varla rukkað fyrir það, eða að það kosti nokkuð.
Þannig ættu allir að geta lifað nokkuð sáttir með sínu.
G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2019 kl. 16:38
Guðs Orð er í Biblíunni. Sannleikurinn er Jesús sem kom til að frelsa okkur frá syndum okkar sem leiða til eilífrar glötunar en Hann gefur eilíft líf sem þýðir eilíft samfélag við lifandi Guð.
Við erum eilífar verur og það skiptir okkur máli hvar við eyðum eilífðinni. Orð Jesú, líf Hans og starf og dauði Hans og upprisa er það sem skiptir hinn kristna mann máli.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 16:54
Þetta þarf ekki að vera svona flókið - ef frétt fjallar um eitthvað sem gerðist í raun og veru, eða eitthvað sem einhver sagði í raun og veru, þá er um að ræða sannleika í fréttinni. Ef frétt er skrifuð þar sem fullyrt er að eitthvað hafi gerst sem í rauninni gerðist ekki, þá er um að ræða fake news.
En hvaðan kemur þetta með "sannleiksstofuna"? Allar fréttir um slíkt hafa farið framhjá mér svo vinsamlegast útskýrðu nánar. (Þetta með að skólar eigi að kenna nemendum gagnrýna hugsun er ekkert nýtt, hefur verið talað um þetta öðru hvoru lengi - en því miður virðist ekki á hreinu hvað "gagnrýnin hugsun" er).
Kristján G. Arngrímsson, 29.1.2019 kl. 16:57
@Tómas, þakka þér fyrir þetta. Hef ég þá misskilið að bíblían hafi breyst í tímans rás? Allt annað sem þú segir hér hljómar fyrir mér eins og innhaldslaust froðusnakk í mörgum orðum sem segir ekki neitt. En það truflar mig í sjálfu sér ekki mikið.
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Mikið til í því sem þú segir, en málið er þó ekki alveg svona einfalt.
Rétt eins og kom í ljós með "Verðlaunablaðamanninn" hjá Spiegel. Og hann er ekki einsdæmi, því miður.
Og það eru vissulega fleiri dæmi. KGB sem að ýmsu leyti "skrifaði bókina" um "falskar fréttir", kunnu, langt fyrir tíma internetsins að "spinna þráðinn". Þar var t.d. birt "frétt" í einhverju litlu tímariti í einhverju litlu landi. Síðan gátu önnur tímarit eða dagblöð vitnað í þá grein og svo koll af kolli. Vitnað í "heimildir", og auðvitað var KGB ekki eini aðilinn sem kunni svona.
Viltu þá meina að allar fréttir sem nefna til sögunnar "ónafngreinda heimildamenn" séu í það minnsta ígildi falskra frétta því ekki sé hægt að færa sönnur á að þær hafi gerst, eða nokkur hafi sagt það? Það ku víst vera til dæmi um bæði.
"Sannleiksstofan" er ekki eitthvað sem ég á von á því að sjá á Íslandi, og vona svo sannarlega að slíkt verði ekki upp á teningnum.
Ég segi enda í bloggfærslunni: "Persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af því þegar stjórnvöld hafa uppi stór áform í verndun "sannleikans", mér sýnist þó að slíkt sé ekki í farvatninu á Íslandi."
En hér og þar hafa stjórnmálamenn stór áform um að "vernda sannleikann" og vilja eyða til þess stórum fjárhæðum.
https://www.msn.com/en-us/news/world/eu-steps-up-fake-news-fight-ahead-of-elections/ar-BBQxno2
https://www.csmonitor.com/World/Passcode/2017/0109/Germany-s-plan-to-fight-fake-news
https://apnews.com/1e826f96f0974176b788e89dfe1fde97
Að tala um "Sannleiksstofu", var meira örlítið grín vegna hinna mörgu "stofumyndanna" á Íslandi.
En eins og ég sagði í bloggfærslunni, er falskur "fréttaflutningur" ekki nýr af nálinni.
Heldur þú að það hefði farið betur á því að Íslenska ríkið hefði látið "staðreyndatjékka" Gerska ævintýrið og ef til vill sektað Halldór fyrir rangfærslur?
En þetta með skólanna þá verð ég að viðurkenna að ég hef enga trú á því að þeir séu hæfir til að kenna gagnrýna hugsun, því miður. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég þekki ekki vel til Íslenskra skóla, en því miður virðist "trendið" vera víða vera frekar í þá áttina að nemendur eigi frekar rétt á því að vera lausir við allt sem þeim kynni að þykja óþægilegt heldur en að efla gagnrýna hugsun.
Mér sýnist sú "snjókornahugsun" reyndar eiga sér býsna marga fylgjendur, líka á Alþingi Íslendinga.
G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2019 kl. 17:59
Biblían hefur aldrei breyst, allar þýðingar byggja á frumritum sem til eru, það eru síðan þýðingar sem menn taka að sér að snúa yfir á hin ýmsu tungumál. Nú á tímum hættir mönnum til að reyna að gera ritninguna "nútímalegri" og setja inn hugtök sem falla betur að almannaálitinu og tekst þeim mis vel að túlka það sem frumtextinn segir, en þannig var það ekki áður fyrr, eða allavega ekki í sama mæli og nú er.
Grunnatriði ritningarinnar og kristinnar trúar er að við mennirnir erum syndarar sem þurfum á fyrirgefningu og náð Guðs að halda, hana fáum við fyrir trú okkar og samfélag við Jesú Krist. Í Jesú Kristi gerðist Guð maður og vísaði okkur leiðina til lífsins, en við þurfum að trúa og koma til hans í veikleika okkar, játa syndir okkar og gefast Honum. Hann elskar alla menn og vill ekki að nokkur maður glatist.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 19:04
@Tómas, þakka þér fyrir þetta. Hefur þú lesið biblíuna á "frummálinu" og treystir þér til að segja um með vissu um "frumtextann".
Hver er "frumtextinn"? Er hann "geymdur" einhversstaðar?
Er hægt að fá aðgang að honum til þýðinga?
Er biblían í hinum "nútímalegu" útgáfum orðin "falskar fréttir" af orði guðs?
Ég vil vinsamlegast biðja þig að halda froðusnakkinu frá þessu bloggi eins og mögulegt er, frekar að halda þig eins og mögulegt er við efnið, þó að þú vissulega hafir farið frekað langt frá því.
En sannleiksgildi biblíunnar má þó vissulega segja að sé tengt.
G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2019 kl. 19:43
Þýðendur hafa haft aðgang að frumtextum Biblíunnar. Gamla Testamentið er á Hebresku og Nýja Testamentið á Grísku. Ég hef ekki lesið frumtextann þar sem ég hvorki les Hebresku né Grísku. Biblíur á öðrum tungumálum en íslensku eru samhljóma íslensku Biblíunni sem segir mér að þýðendur hafa aðgang að sömu gögnum. Biblían eru ekki falskar fréttir heldur flytur Biblían góðar fréttir sem stendur öllum til boða.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.1.2019 kl. 20:07
@Tómas, þakka þér fyrir þetta. Ekki get ég talist bíblíusérfræðingur, en man þó eftir að hafa t.d. séð gamla útgáfu af bíblíunni, þar sem stóð á kápusíðu: Bíblían - endurskoðuð útgáfa.
Var ekki bíblían sem var gefin út 2007 (er það ekki rétt ártal) breytt og "aukin" útgáfa? Eða misskildi ég það eitthvað?
Hver ritaði frumtexta? Hvar eru þeir geymdir og hversu áreiðanlegir eru þeir. Hvaða ár voru þeir ritaðir?
Það er gömul saga og ný að deilt hefur verið um hvað ætti að vera í biblíunni og mismunandi fylkingar kristinna manna hefur átt hörðum deilum um slíkt.
"Kristilegur kærleikur" enda verið býsna fjarlægur oft á tíðum í samskiptum á milli "söfnuða" og sitt sýnst hverjum, stundum stutt í "sverðið".
Mismunandi túlkun á trúarritum, þar með talinni bíblíunni stundum helsta orsök þess.
Ef ég hef skilið rétt, þá voru gyðingar um langa hríð ekki samstíga um hvað væri í gamla textamentinu heldur, veit ekki hvernig staðan er á því nú.
Sannleikurinn er sjaldnast einn.
G. Tómas Gunnarsson, 30.1.2019 kl. 05:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.