Steingrímur "allsherjar" hleypir engum öðrum að

Persónulega finnst mér kosningabaráttan vera orðin full PC, eða "politically correct". Stjórnmálamenn hanga á orðfæri og óvarkárni í orðavali andstæðinganna og gera eins mikið og mögulegt er úr því.

Afsökunarbeiðnir í kosningabaráttunni eru þegar orðnar fleiri en tölu verður á kastað og einn formaður hefur þegar lotið í mold.

Líklega má segja að að þetta sé leiðinleg en rökrétt þróun, því þeir sem einu sinni hafa fundið svipuhögg hins "pólítíska rétttrúnaðar" á baki sínu, láta slíkt varla fram hjá sér fara, ef tækifæri gefst til að beina slíku til andstæðinga.

En nú er Steingrímur búinn að biðjast afsökunar, nokkuð sem ekki hefur að ég man áður sést í Íslenskri pólítík, og hefur Steingrímur þó líklega áður haft ríkari ástæðu til þess að biðjast afsökunar, bæði á orðbragði og ekki síður þegar hann hefur gerst "full líkamlegur" í þingsal.

En einn kunningi minn sem býr í NorðAusturkjördæmi, létt sér fátt um finnast þó að Steingrímur hefði tekið vitleysislega til orða, við slíku þyrfti almenningur að búast við hjá stjórnmálamönnum.

En hann vildi meina að annað vekti athygli almennings í kjördæminu.  Það væri sú staðreynd að Steingrímur hleypti engum öðrum að í baráttunni að heitið gæti.

Þannig hefði það verið á fundum sem væru ætlaðir ungu fólki, s.s. í Mennta- og Háskólanum á Akureyri.  Þar hefðu margir aðrir flokkar teflt fram yngra fólki, en ekki Vinstri grænir.

Þar eins og á aðra fundi mætti Steingrímur, hleypti engum öðrum að og væri frekar önugur í bragði.

Vildi þessi kunningi minn meina að það sýndi að Steingrímur ætlaði alls ekki að losa um tök sín á flokknum, hann vildi sýna að hann væri enn "flokkseigandinn".

"Líklega endar hann sem fjármálaráðherra, ef fylgi Vinstri grænna heldur þeim hæðum það sem það er í nú", endaði kunningi minn á að segja.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn „fatlaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég vona reyndar að hann taki alveg sviðið í þessari kosningabaráttu. Það hressir kannski upp á minni kjósenda. :)

Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2017 kl. 15:13

2 identicon

Steingrímur er afar klár og mjög ósérhlífinn. Hann vann mikið afrek við að reisa landið við eftir hrunið.

Dugnaður hans stingur í stúf við sjálfstæðismenn sem hafa engan metnað nema til að skara eld að eigin köku. Þar fyrir utan líta þeir á þingstörfin sem þægilega og vel borgaða innivinnu.

Að sjálfsögðu fer metnaður og hugsjónir manna eins og Steingríms óendalega mikið í taugarnar á þeim sem hafa ekki af neinu slíku að státa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.10.2017 kl. 16:59

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Steingrímur er ljóngáfaður og enginn ásakar hann um að skara eld að eigin köku.  En hvað svo?  Hvar er metnaður hans og hugsjón? Undir pilsfaldi flokksformanns hans?

Kolbrún Hilmars, 12.10.2017 kl. 19:58

4 identicon

Merkilegt var að heyra Steingrím í umræðum flokkanna á RÚV í dag, lofsyngja Vaðlaheiðagangaframkvæmdina þar sem hún væri sér fyrirtæki þá kæmi hún ekki niður á framlögum ríkisins við aðrar vegaframkvæmdir á svæðinu, semsagt einkavæðing. 

Greinilega ekki langt á milli viltra drauma Jóns Gunnarssonar og einhverra sjálfstæðismanna um vegtolla og svo einkavæðingaránægju Steingríms J og V.G.

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 13.10.2017 kl. 00:55

5 identicon

Bæði Steingrímur J. og Benedikt Z. voru ömurlegir fjármálaráðherrar. En á meðan Benedikt náði ekki á sínum stutta ferli að gera mikinn skaða, þá verður hið sama ekki sagt um Steingrím. Hann og Jóhanna kepptust hvort sem betur gat að viðhalda kreppunni og sliga ríkiskassann. Sem betur fer tók þjóðin í taumana, hafnaði ríkisábyrgð á IceSave og myndi hafna ESB-aðild og henti vinstristjórninni á öskuhaugana.

Það byrjaði ekki að rofa til fyrr en BD stjórnin hafði verið virk í eitt ár eða svo við að reisa þjóðfélagið úr öskunni þar sem hin svikula og duglausa vinstristjórn skildi það eftir eins og hálfdautt hræ. Ef það eru einhverjir flokkar sem eru fatlaðir, þá eru það VG og Samfylkingin. Og forystumenn þessara flokka hafa ekkert lært af mistökum sínum.

Steingrímur á ekkert erindi í pólítík, það hefur sannazt að hann er allur í kjaftinum, en ekkert vit á ríkisfjármálum né hagstjórn. Það kom skelfilega í ljós á myrkratímabilinu 2009-2013. Hann er eins og íslenzkur Jeremy Corbyn, sem er einn fyrirlitnasti þingmaður Bretlands. Corbyn er vinur hryðjuverkamanna og ætlar sér að koma á sósíalisma/kommúnisma í Bretlandi samhliða islamvæðingunni sem er að drepa brezka þjóðfélagið.

Reyndar á Bensi heldur ekki mikið erindi á þing heldur, þar eð hann nánast yfirtók stefnumál Samfylkingarinnar og við vitum vel hversu skaðleg sú stefna er fyrir land og þjóð.

Pétur D. (IP-tala skráð) 13.10.2017 kl. 01:40

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Ég reikna með því að það sé heit ósk margra þeirra sem eru andstæðir Vinstri grænum.

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Í ýmsu stóð ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sig þokkalega, en í öðru afleitlega.  Því gera sér flestir grein fyrir, það sama má líklega segja um flestar ríkisstjórnir.

Það frýr enginn Steingrími vits, alla vegna hefur það ekki verið gert í mín eyru. En það sem oft er kallað vinnusemi og ósérhlífni, er oft gott dæmi um ákveðna tegund af maníu, þar sem viðkomandi treystir engum til að gera neitt, nema sjálfum sér.  Hefur takmarkaða stjórnunarhæfileika og á erfitt með að deila út verkefnum og vera drifkraftur starfsins.   Í raun svipað og kunningi minn lýsti kosningabaráttu VG í N-A.

En það voru mörg mistökin hjá Vinstristjórninni og líklega ekki tilviljun að hjúpa þurfti þau lengri leyndarhjúp en áður hefur þekkst á Íslandi.

Hvernig stendur á því að þeir sem hæst hafa um gegnsæi og vilja berjast gegn "leynarhyggju", sammælast ekki um að aflétta gögn leynd af öllum skjölum um hrunið og eftirleik þess?

Þá fyrst væri hægt fyrir Íslensku þjóðina að gera að fullu "upp" bankahrunið og eftirleik þess.

@Kolbrún Þakka þér fyrir þetta.  Ég held að engum sem fylgist með Íslenskum stjórnmálum sé metnaður Steingríms hulinn.

En hugsjón? Það er önnur saga.

@Bjarni  Þakka þér fyrir þetta.  Já "einkavæðing" þvælist ekki fyrir vinstri mönnunum, þegar það hentar þeim. En eins og oft áður er hugtakið þeim svolítið framandi og þeir trauðla skilja það til fulls.

@Pétur Þakka þér fyrir þetta. Steingrímur býr ekki við neina "fötlun" þegar kemur að því að leggja á skatta

En hann hefur líka verið manna duglegastur að byggja upp leynd, vildi að þingmenn greiddu atkvæði um IceSave I samninginn án þess að fá að sjá hann og hefur lengri "leyndarhjúp" en áður hefur þekkst.

Í raun ættu þingmenn að koma sér saman um að aflétta þeirri leynd, enda nauðsynlegt fyrir þjóðina að gera þessi mál upp.

En þau afglöp eru líklega það sem Steingríms verður fyrst og fremst minnst fyrir og svo óvenjulega þaulsetni á þingi.

G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2017 kl. 06:07

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hef grun um að það sem við almenningur köllum „leynd“ kalli stjórnmálamenn „trúnað“ og þess vegna verði leyndinni seint létt. Formannsskiptin í Viðreisn eru glögglega til merkis um að sá flokkur sé orðinn að gamaldags flokki og öll orð um breytta vinnuhætti og aðra hugsun er fokin útí veður og vind. 

Það er nú svo að í pólitík hafa orð og hugtök oftast eilítið aðra merkingu en í daglegu tali. Til dæmis er merking orðanna loforð og kosningaloforð ekki alveg sú sama, er það?

Annars yrði gaman að sjá Steingrím Joð verða að ráðherra í næstu ríkisstjórn. Hann er skemmtilegri en flestir af yngri kynslóðunum sem kunna ekki annað en að vera politically correct. Gamalt brýni. Þau eru best.

Kristján G. Arngrímsson, 13.10.2017 kl. 12:05

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Magnað: blog.is tekur ekki við íslenskum gæsalöppum.

Kristján G. Arngrímsson, 13.10.2017 kl. 12:08

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það verða að sjálfsögðu alltaf til mál sem trúnaður eða "leynd" verður að ríkja um, í það minnst í ákveðinn tíma.  Öðruvísi gengur sumt í stjórnkerfinu trauðla upp.

En það tímabil ætti auðvitað að vera eins stutt og kostur er.

Það er líka með eindæmum þegar Steingrímur J. og vinstri stjórnin ætlaði að keyra IceSave I samninginn í geng um þingið án þess að þingmenn ættu á fá að kynna sér hann.

Þingræðið hefur líklega ekki orðið fyrir verri árás um langa hríð.

En sem betur fer lak einhver samningnum.

Persónulega sé ég ekki skemmtilegheitin í Steingrími, hann er gjarna frekar þjösnalegur, en hins vegar má hann eiga það að í flestum tilfellum vita menn hvar þeir hafa hann.

En svo getur hann líka komið á óvart, eins og með "einkaframkvæmdina" á Vaðlaheiðargöngunum, þó að ég haldi að hann hafi nú ekki verið "smiður" þeirra "lausnar".

G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2017 kl. 12:27

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hugsa að ef Steingrímur væri í Sjálfstæðisflokknum myndirðu líta á hann sem öflugan leiðtoga og kraftmikinn stjórnmálamann. Og finna aðrar ástæður til að réttlæta það sem hann gerir.

Þannig er nú pólitíkin. Hún mótar jú fyrirfram skilning manns á málum og fólki.

Kristján G. Arngrímsson, 13.10.2017 kl. 12:39

11 identicon

Það væri bara ömurlegt ef aðalmál þessara kosninga heldur áfram að vera tilfinningalíf þolenda kynferðisofbeldis. Þá fáum við nú marga "rétt" trúnaðarsinna á þing

Grímur (IP-tala skráð) 13.10.2017 kl. 13:40

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta.  Auðvitað spilar lífsýn alltaf inn í skoðanir, það segir sig næsta sjálft og algert hlutleysi varla eða ekki mögulegt.

Ég lít þó ekki á mig sem Sjálfstæðismann í dag, en ég er vissulega hægri sinnaður.  Hvort að Sjálfstæðisflokkurinn er það enn leikur nokkur vafi á.  En hann er þó líklega sá flokkur sem kemst næst mínum skoðunum.

En ég er býsna hrifinn af stjórnmálamönnum sem tala tæpitungulaust, ef svo má að orði komast. En ég er ekki hrifinn af stjórnmálamönnum sem telja það best að nota sem "stærst" orð og hef oft haft orð á því hér á blogginu mínu.

Enn síður er ég hrifinn af stjórnmálamönnum sem gerast "líkamlegir" (physical). Því miður hefur Steingrímur gerst "brotlegur" í báðum þessum málaflokkum.  En það breytir því ekki að hann "var" eða "er" öflugur leiðtogi síns flokks og stofnaði hann og kom honum vel á legg.

Að því leyti hefði "góður biti farið í hundskjaft", ef hann hefði bara gengið í Framsóknarflokkinn, eins og stefndi víst í, þegar Alþýðubandalagið var að leysast upp.

En nú biðst Steingrímur afsökunar, persónulega hefði ég talið að hann hefði haft ríkari ástæðu til þess að áður.  En ef til vill er það merki um að "PC" liðið í VG er meira að segja búið að "temja" Steingrím.

@Grímur Þakka þér fyrir þetta.  Ég get nú ekki séð eins og ég fylgist með að það sé aðalmál komandi kosninga, en að sjálfsögðu eru kynferðisbrot í umræðunni og ekkert út á það að setja.

Þar er ég sammála og ósammála því sem kemur fram eins og gengur, en það þarf að ræða öll mál og þau verða vissuleg mis fyrirferðarmikil, en það er eins og gengur.

G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2017 kl. 13:55

13 identicon

Ég vil ekki sjá Steingrím J. í næstu ríkisstjórn. Fyrir utan það að hugmyndafræðin sem hann vinnur út frá er úrelt (dó með falli sovézka heimsveldisins eftir að það sannaðist að örbirgð fylgir marxisma), þá er pólítíski rétttrúnaðurinn alveg að drepa Steingrím og alla hina í VG, t.d. í sambandi við loftslagshlýnunarsvindlið og innflutninginn af siðblindu fólki.

En í raun á þetta við um alla flokka á þingi að þeir eru ginnkeyptir fyrir svindlinu sem Al Gore kom á fót til að hann og vinir hans gætu þénað tugi milljóna. Nú í dag var Bjarni Ben að taka undir með þessu rugli á Arctic Circle Assembly í staðinn fyrir að gera það sem rétt er: Að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu. Ísinn á Norðurpólnum er ekkert að hverfa, hann er þarna ennþá minnkar aðeins á sumrin og eykst á veturna, svona hefur það verið undanfarin fleiri þúsund ár og þannig verður það næstu árþúsundin. Enginn virðist hengja sig við að Al Gore staðhæfði að árið 2014 yrði ísinn horfinn. Enginn staldrar við og segir: Heyrðu, þetta var lygi ísinn er þarna ennþá og er ekkert á förum.

Hálfvitarnir í pólítíkinni notfæra sér yfirgang erlendra embættismanna til að skella á fleiri grænum sköttum meðan þeir gera mikið úr veðrinu sem alltaf hefur verið til staðar en nefna aldrei hlýnunarskeiðin sem komu á undan iðnbyltingunni. Hinir sem vita sannleikann um hvernig NOAH, NASA og IPCC falsa gögn fljóta með straumnum og þora ekki að malda í móinn því að þeir verða bara fyrir aðkasti.

Þeir sem ekki vilja að Ísland verði undirlagt sharia-lögum eins og Bretland, Þýzkaland og Svíþjóð eru umsvifalaust kallaðir rasistar, þótt múslímar séu ekki kynþáttur. Svona er rétttrúnaðurinn orðinn mikill og hann er hvergi meiri en í VG og hjá hinum vinstrivitleysingaflokkunum.

Pétur D. (IP-tala skráð) 13.10.2017 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband