6.10.2017 | 11:53
Þær eru margar tilviljanirnar, eða hvað?
Oft hafa menn að orði að þeir trúi ekki á tilviljanir, ég er einn þeim.
En það þurfti engar innherjaupplýsingar eða misnotkun á trúnaði til þess að ákveða að innleysa eignir sínar í verðbréfasjóðum á Íslandi í byrjun október 2008. Í raun má segja að það væri skrýtið ef einstaklingar hafi ekki gert það, eða í það minnsta hugleitt slíkt.
Ríkið tók yfir Glitni þann 29. september, þannig að það þurfti ekkert sérstakt innsæi eða spádómsgáfu, hvað þá innherjaupplýsingar, til að sjá að það hrikti verulega í Íslenska bankakerfinu, fyrsti bankinn var fallinn, og N.B. ekki annar af þeim sem var einkavæddur 2003.
Það er því að sjálfsögðu ekki tilviljun að menn voru að innleysa eignir í hlutabréfasjóðum á þessum dögum.
Það var heilbrigð skynsemi.
En svo er líka heilbrigt að velta því fyrir sér hvort að það sé tilviljun að þessar "merku" upplýsingar skjóti allt í einu upp kollinum nú að segja má nákvæmlega 9 árum síðar?
Ég veit ekki hvaða "skjalfestingar" búa að baki en það er ótrúlegt að það sé tilviljun að þær séu á "boðstólum" nú.
Eða hafa "fjölmiðlar" ef til vill legið á þeim þangað til rétta stundin rann upp?
Það er vissulega stundum rétt að velta því fyrir sér hvort að fjölmiðlar bregði sér í hlutverk "geranda" frekar en sögumanns.
Það hefur gerst þörf æ oftar upp á síðkastið.
Ekkert sem bendir til lögbrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Saga, Viðskipti og fjármál, Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Af hverju var þetta ekki skandall á sínum tíma?
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/ossur-seldi-i-spron-og-hagnadist-um-30-milljonir-bjo-ekki-yfir-neinum-innherjaupplysingum
Eðlilegt og löglegt sögðu VG og samfó í kór. Enda var það það.
Hræsnin og doube standardinn vefst ekki fyrir þessu liði.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.10.2017 kl. 13:16
@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Össur hefur ekki "gripsvit" á fjármálum, það sagði hann sjálfur í rannsóknarskýrslunni "stóru". Samt náði hann að selja á nokkuð góðum tíma. Áður en hrunið byrjaði.
Bjarni Ben hafði verið í viðskiptum í mörg ár, áður en hann settist á þing. En "vinstri múgnum" finnst það tortryggilegt að hann vilji selja í sjóðum eftir að ríkið fékk Glitni í fangið.
Og allt í einu, 9 árum seinna má finna eitthvað skjalfest um að Bjarni hafi selt eftir að Glitnir í raun féll.
Þeir sem sjá ekki í gegn um þetta "skúbb" hafa líklega hvort eð er alltaf kosið "villtu vinstri vitleysingana". lol og broskall "ala" Jón Ásgeir.
G. Tómas Gunnarsson, 6.10.2017 kl. 13:27
Össur hefur það framyfir Bjarna að hann var ráðherra og hélt svo áfram að vera ráðherra í "byltingarstjórninni". Össur tók út sínar 30 millur, en Bjarni gerði ekkert annað en að færa fé milli sjóða, sem svo sat þar fast í fleiri ár. Innleysti ekki krónu.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.10.2017 kl. 15:29
@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Já, það er ekki hægt að neita því að það er nokkur "shanghæ" stíll á þessari upphlaupsfréttamennsku.
Í "útlöndunum" vilja margir meina að Rússarnir séu að baki svona "rugl" fréttamennsku sem sé ætlað að skapa úlfuð og sundrungu í samfélögunum.
En hjá Íslendingunum er þetta næsta víst "heimafenginn baggi".
En hann er þjóðinni ekki hollur.
G. Tómas Gunnarsson, 6.10.2017 kl. 15:58
Ef maður á að álykta um einhver "útlensk" plott þá finnst mér samtök Soros, erkióvinar rússa, vera að baki svona pólitískum terrorisma. Open Media samtök hans eru allavega beintengd Reykjavík media og aðgerðapólitík Pírata. Open borders samtök hans eru lika player í þessari viðleytni til að koma á pólitískri upplausn sem víðast.
Setji maður hinsvegar upp álpappírinn, þá má allt eins ætla að hagsmunaaðilar í uppgjöri bankanna hér, séu að ná hefndum og styrkja stöðu sína hér. Follow the money virkar allavega vel í samhengi árása þessara samtaka á Sigmund mitt í uppgjöri bankanna.
Vinstrimenn eru nytsamir sakleysingjar í að auka veg post crash bankstera og vogunarsjóða. Samfylkingin þar fremst meðal jafningja frá fyrsta degi.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.10.2017 kl. 05:08
Nýjasta skoðanakönnunin, sem mun hafa verið gerð áður en þetta "skúbb" kom fram í dagsljósið, bendir til að þetta komi kannski ekki til með skipta neinu. Það grefur hægt og örugglega undan Sjálfstæðisflokknum sem er á leið niður fyrir 20% fylgi. Hefur hann farið lægra? Þú veist það betur en ég, sem man aldrei neina statistík í pólitík.
Styrmir hefur áhyggjur af þessu:
http://styrmir.is/entry.html?entry_id=2203868
Kristján G. Arngrímsson, 7.10.2017 kl. 18:25
Og Framsóknarflokkurinn virðist hafa framið pólitískt harakírí með því að skera af sér Sigmund Davíð.
Kristján G. Arngrímsson, 7.10.2017 kl. 18:26
Stefnir allt í hreinræktaða ríkisstjórn vinstri-vitleysinga hérna ...
Kristján G. Arngrímsson, 7.10.2017 kl. 18:27
@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Persónulega lít ég á þetta sem "heimadæmi", enda upplýsingarnar líklegast ættaðar innan úr "þrotabúi", eða frá þeim sem hafa haft aðgang að þeim.
Persónulega skil ég ekki þátt Guardian í málinu, nema að þeim sé ætlað að ljá málinu "heimspressustimpil". Á bágt með að sjá hvað þeir hafa lagt til málanna.
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Staða Sjálfstæðisflokksins er auðvitað langt í frá að vera góð, en það má hafa í huga að hún var í sjálfu sér ekki mikið betra á sama tíma fyrir síðustu kosningar. Hvort að flokkurinn nái sama "kipp" og þá á svo eftir að koma í ljós. En hann hefur aldrei verið undir 20% svo gott sem ég man
Þá eins og nú stefndi allt í "vinstri stjórn" en það klúðraðist með eftirminnilegum hætti.
Að mínu mati er t.d. hætta á því að Píratar hreinlega detti af þingi, þó að um það sé ómögulegt að segja, en fylgishrun þeirra (gagnvart skoðanakönnunum" fyrir síðustu kosningar er eftirminnilegt. Ég held einnig að þeirra kjósendur sé meira "fair weather" en hjá mörgum öðrum flokkum, og ef flokkurinn heldur áfram að tap í könnunum, er óvíst að þeir mæti á kjörstað, nú eða fari annað.
Það eru margir sem hafa vanmetið Sigmund Davíð, ekki síst í Framsóknarflokknum, en einnig utan hans. Hann gæti átt eftir að koma skemmtilega á óvart í þessum kosningum.
Það sem gæti átt þátt í því að bæði Sigmundur og Sjálfstæðisflokkurinn komi á óvart í þessum kosningum, er sú staðreynd að mikill hamagangur í fjölmiðlum getur búið til "feimna" kjósendur eins og þeir eru stundum kallaðir.
Þá sem vilja ekki gefa sig upp vegna óvæginnar fjölmiðlaumfjöllunar, en skila sér heim til "föðurhúsanna" á kjördag.
Ég held að "upphlaupsstjórnmálin" virki í báðar áttir, það bæði gefi og taki af eins og stundum er sagt.
En ég held hins vegar að allt stefni í vinstri stjórn, illu heilli.
En "vitleysisstjórn" eins og sú sem er að fara frá bar lítið í sér nema feigðina. Ég gat aldrei séð að hún myndi endast.
G. Tómas Gunnarsson, 8.10.2017 kl. 12:30
Það verður ágætt að fá vinstristjórn. Vonandi verður þá gengið í að skrúfa fyrir allan einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og setja alvöru álögur á kvótaaðalinn, sem hefur farið ránshendi um almannaeignir í áratugi. Svo þarf að hækka verulega skatta á hátekjulýðinn.
Kristján G. Arngrímsson, 9.10.2017 kl. 13:51
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Ég held að margir muni sjá eftir atkvæði sínu þegar vinstri stjórnin "skellur á".
Og innihaldslausir frasar eins og að setja allt heilbrigðiskerfið í fangið á ríkinu, eru ekkert meira en það.
Margt má betur fara í bæði ríkisrekstri og einkarekstri, en ég held að margir átti sig ekki einu sinni á því hvað einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er, eða hvernig málum er háttað víða um lönd.
Heilbrigðiskerfið í Kanada þykir t.d. almennt gott og mín reynsla af því góð. Það má segja að það sé víðast hvar allt einkarekið.
Og auðvitað þarf að hækka skatta verulega á hátekjulýð eins og lækna og ríkisstarfsmenn, það segir sig sjálft.
Það er svo merkilegt líka með "kvótaaðalinn", að á meðan enginn var kvótinn minntist enginn á að almenningur ætti fiskinn í sjónum.
Enda borgaði almenningur gjarna með fiskvinnslu og útgerð þá dagana, og þótti næsta sjálfsagt.
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2017 kl. 14:23
Gott þú ert sammála mér um að hækka þurfi skatta á hátekjulýð. Mér finnst fáheyrt að bankastjórar í ríkisreknum bönkum séu með yfir milljón á mánuði. Það er ekki eins og þetta fólk vinni við eitthvað mikilvægt. Það er hinsvegar útþanið af mikilmennsku - en það er önnur og dapurlegri saga.
Og endalausar kauphækkunarkröfur lækna finnst mér eiginlega ógeðslegar. Þeir eru ekkert mikilvægari í heilbrigðisþjónustunni en t.d. hjúkrunarfræðingar, en samt vilja læknar alls ekki sjá að vera á sömu launum. Líka spurning um mikilmennsku. Dapurlega.
Það er alltaf þetta viðkvæði að ef maður er ekki sammála þá er maður sakaður um að vita ekki hvað maður er að tala um. Af hverju þetta yfirlæti? Og þú veist jafn vel og ég að heilbrigðiskerfið í Kanada er kostað af skattgreiðendum, ekki sjúklingunum sjálfum. Að kalla svoleiðis kerfi einkarekið er bara bullshit.
Skólinn sem ég kenni í er "einkarekinn" en fær samt allar sínar tekjur af þjónustusamningi við ríkið. Og vinnur samkvæmt lögum, reglum og samningum sem ríkið gerir (t.d. við Kennarasamband Íslands). Að kalla skólann einkarekinn er bara sýndarmennska.
Og skrítinn líka þessi undirlægjuháttur við kvótagreifana. Eða er þetta bara venjuleg þrælslund kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem eru jú hjörð?
Kristján G. Arngrímsson, 9.10.2017 kl. 15:21
Aðeins meira um skólann minn (MB). Hann gæti aldrei staðið undir sér sjálfur þótt hann fengi að innheimta skólagjöld. Til þess er einfaldlega ekki næg aðsókn að honum. Og hann er ekki nógu mikið í tísku til að laða að sér nemendur, eins og Verslunarskólinn.
Þannig að án peninga frá ríkinu væri skólinn ekki til. Honum er stjórnað alveg eins og venjulegum ríkisskólum, það eru gerðar sömu kröfur til nemenda og kennara - enda er skólinn bundinn af samningi um að vera i alla staði eins og venjulegir, ríkisreknir framhaldsskólar.
Að þetta sé "einkarekinn" skóli er því bara innihaldslaus frasi, til þess eins fallinn að lálta hlutina líta út fyrir að vera eitthvað. Semsagt bullshit.
Kristján G. Arngrímsson, 9.10.2017 kl. 15:37
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Hvað varðar heilbrigðiskerfið í Kanada þá er það að segja má allt einkarekið. Ég hef aldrei stigið inn í heilbrigðisstofnun sem er ríkisrekin þar. En eins og þú segir er megnið af heilbrigðiskerfinu þar greitt af hinu opinbera. En flestar heilbrigðisstofnanir í Kanada fá einnig fé (að mestu frjáls framlög) frá einstaklingum.
Á hverju ári var hringt í okkur og við beðin um að styðja sjúkrahúsið þar sem börnin okkar fæddust, og alltaf lét maður eitthvað af hendi rakna, enda fannst manni, við vera í ofurlítilli skuld við stofnunina.
Svo fóru börnin okkar í skóla, skólin var rekinn af hinu opinbera, í raun borginni. Á hverju ári "dóneituðum" við nokkur hundruð dollarum til skólans, þannig gerðust hlutirnir einfaldlega þar slóðir. Skólinn notaði peningana vel og vann vel með krökkunum. En það mátti skýrt finna að það var ætlast til að foreldrar "dóneituðu".
Í Eistlandi, sem hefur besta árangur allra Evrópuríkja í skólamálum (ef við tökum mark á PISA, sem má þó ekki líta á sem stóradóm) er blandað kerfi í skólamálum, skólar reknir fyrr opinbert fé, sjálfseignarstofnanir og einkaskólar. Allir fá þó framlag frá hinu opinbera. Rétt eins og þú talar um. En hinir opinberu skólar njóta þó sjálfstæði og skólastjórinn er í raun "forstjóri" og ræður miklu um hvernig hinu opinbera fé er ráðstafað.
Flestir skólar hafa einhver svæði sem þeir verða að þjónusta, en geta einnig boðið nemendum víðsvegar að.
En þetta tryggir ákveðna samkeppni. Og skólarnir eru flestir að segja má "einkareknir", þó að þeir séu ekki "einkagreiddir" (nema fáeinir). En þetta tryggir samkeppni og að foreldrar hafi ákveðið val.
Og það er einmitt það sem skiptir meginmáli, því skólarnir eiga ekki að vera reknir fyrir kennarana, heldur nemendurna og að vissu marki foreldrana.
Hvaða skóli er annars MB?
En hann er að mínu mati einkarekinn, þó að hann sé ekki "einkaskóli. Það er einmitt að sem gerir oft erfitt að ræða málin, er að hugtökin eru á reiki.
Margir sjá raut ef þeir sjá orðið "einkarekstur", en það er oft á tíðum til góða, þó að hið opinbera greiði kostnaðinn. Einkareksturinn einfaldlega tryggir samkeppni og fjölbreytni.
Og það er gríðarlega mikill einkarekstur í Íslensku heilbrigðiskerfi og ég er ekki viss um að almenningur vilji hann á brott.
Hitt er svo að með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins og reglugerðum og lögum þar tilheyrandi, þá eiga Íslendingar rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu um allt svæðið og því að Íslenska ríkið greiði fyrir hana, hvort sem hún er hjá ríkisreknum eða einkareknum heilbrigðisstofnunum. En ríkið þarf ekki að greiða meira en nemur kostnaði við sambærilega þjónustu á Íslandi.
Er þá eittvað að því að almenningur geti sótt sambærilega þjónustu hjá einkareknum heilbrigðisstofnunum á Íslandi?
Það er ekkert að því að innheimta auðlindagjald af "kvótagreifunum". En þá þarf einfaldlega að gera það með jöfnu kílógjaldi af öllum.
Einfaldlega að sjá sem vill borga mest fær að veiða. En það sem er nú "vinsælast" er að þeir sem græða mest eiga að borga. Sem sé, þeir sem eru hagkvæmastir.
En þeir sem ekki "græða" eiga ekki að borga jafn mikið.
En stjórnmálamenn vilja enn fá að úthluta "auðlindinni" til þeirra sem ekki geta borgað jafn mikið, út frá "öðrum forsendum".
Og talandi um kvótagreifa, er mér til efs að nokkur einstakur aðili hafi hagnast jafn mikið á kvótasölu og Akureyrarbær. Nokkur önnur sveitarfélög tóku líka mikinn "aur", en líklega engin jafn mikið og Akureyri.
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2017 kl. 17:53
Menntaskóli Borgarfjarðar er ekki í samkeppni við neinn. Að þetta sé einarekstur er bara sýndarmennska. Ríkið borgar laun kennaranna og annars starfsfólks. Hvað er það annað en ríkisrekstur?
Kristján G. Arngrímsson, 9.10.2017 kl. 22:20
Og skv. þessum skilningi á ríkisrekstri er sáralítill einkarekstur í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta er sumsé spurnimg um skilgreinimgu á hugtakinu ríkisrekstur.
Kristján G. Arngrímsson, 9.10.2017 kl. 22:23
@Það er eftir því sem mér skilst (ég hef ekki stúderað þetta né nota þjónustuna) þó nokkur einkarekstur í Íslensku heilbrigðiskerfi. Það er að segja reksturinn er í höndum einkaaðila, þó að ríkið borgi bróðurpart kostnaðar.
Slíkt þekkist að ég tel víða um lönd, eins og ég sagði áður held ég að almennt sé ekki óánægja með slíkt fyrirkomulag þar sem ég þekki til, s.s. í Kanada.
En svo er líka misjafnt hvað ríkið tekur þátt í og hveju ekki eftir löndum. Sumt af þeirri læknisþjónustu sem ég þurfti fyrir börnin þurfti ég að greiða sjálfur.
T.d. það sem drengurinn þurfti vegna fótanna og svo sumar bólusetningar. Læknirinn tók það allt af skýrt fram að hann mælti með þessum bólusetningum en ríkið teldi þær ekki nauðsynlegar.
Kunningjafólk mitt átti svo dreng sem þurfti örlitla talaðstoð, og þar greiddi ríkið ekkert.
Um slíka hluti má auðvitað endalaust deila, hvað á ríkið að greiða, hvað ekki o.s.frv. Í Ontario borgar hið opinbera ekkert í tannlækningum barna (hvað þá fullorðinna) nema um sérstaklega tekjulága foreldra sé að ræða.
Án þess að þekkja nokkuð til Menntaskóli Borgarfjarðar, ég man ekki eftir því að hafa heyrt á hann minnst (það heyrir upp á þig að koma honum á "kortið" lol) þá reikna ég með því að hann sé í óbeinni samkeppni við aðra skóla, þ.e.a.s. um nemendur. Hann má líklega ekki bjóða upp á mikið verri menntun en nálægir skólar, svo að hann fái nemendur. Nemendur og foreldrar vega líklega gæði menntunar á móti þægindum (nánd og slíku) og taka ákvarðanir út frá því.
Hvernig þjónustusamningurinn er veit ég auðvitað ekki, hvort hann byggir á stöðugildum, eða per haus ákvæði eða einhverju öðru.
En rekstur er vissulega mikið meira en bara launakostnaður.
G. Tómas Gunnarsson, 11.10.2017 kl. 09:21
Já, eins og ég sagði, þetta er spurning um hvernig maður skilur hugtakið "einkarekstur" - eða "ríkisrekstur". Í tilviki MB eru ALLAR tekjur skólans af þjónustusamningi við ríkið. En skólameistari og aðrir yfirmenn ráða auðvitað daglegum rekstri og hverju þeir mæla með fyrir nemendur, en þannig er það líka í ríkisreknum skólum.
Eins með heilsugæslu, eintaka læknar geta mælt með einhverju þótt þeir séu að storfum í ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu. Það á auðvitað ekki að skipta máli hver borgar lækninum laun uppá það hvernig hann hugsar um sjúklinga sína, er það? Sama á við um kennara, það skiptir engu máli hver borgar launin mín uppá það hvernig ég kenni og hugsa um nemendur. Og bæði læknar og kennarar eru jafn frjálsir og ófrjálsir að því sem þeir gera, hvort sem þeir þiggja laun frá ríki eða einkafyrirtæki.
Þess vegna finnst mér þetta fyrst og fremst vera spurning um hver borgar. þegar ríkið borgar, þá er um að ræða ríkisskóla. Þegar skólinn er þaraðauki bundinn af nákvæmlega sömu samningum við kennarasambandið og allir hinir skólarnir.
Að kalla svona stofnanir og fyrirtæki "einkarekin" held ég að sé bara orðaleikur til þess gerður að frjálshyggjusinnar geti látið eins og þeirra hugmyndafræði sé fylgt. Og til að þeir geti slegið um sig með frösum eins og að "samkeppni sé til góða" og alla hina orðaleppana sem tilheyra markaðsfrelsistali.
Í rauninni er þetta bara gamaldags ríkisrekstur. MB er meiraðsegja á fjárlögum (þ.e. með hinum framhaldsskólunum). Er hægt að vera meira "í fanginu á ríkinu"?
Kristján G. Arngrímsson, 11.10.2017 kl. 09:53
Það er ljóst að Bjarni var með innherjaupplýsingar.
Hann fundaði með Lárusi Welding tveim dögum áður en hann seldi hlutabréf í Glitni fyrir 119 milljónir í febrúar 2008. Sama má segja um söluna í Sjóði 9. Hann fór fram á og fékk reglulega fundi með Lárusi Welding.
Það er algjörlega óljóst hvort Bjarni hefði selt ef hann hefði ekki haft þessar innherjaupplýsingar. Hvers vegna hefði hann átt að selja frekar en allir þeir sem töpuðu sínum hlutabréfum eða töpuðu á Sjóði 9?
Bjarni á að víkja sem formaður og þótt fyrr hefði verið.
Ásmundur (IP-tala skráð) 11.10.2017 kl. 18:54
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Auðvitað eru misjafnir samningar um "einkarekstur". Ef rétt er staðið að málum á auðvitað að semja um ákveðna upphæð, fyrir ákveðna þjónustu, t.d. ákveðna upphæð á nemanda eða fyrir ákveðið verk í heilbrigðisþjónustu.
Þannig var það t.d. í Kanada að þegar við hjónin skráðum betri helmingin inn til þess að fæða dóttur okkar, að ég spurði innritarann og hvað kostar þetta? Hún leit eitt augnablik í tölvuna og sagði mér síðan upphæðin upp á cent. Þó borgaði ég ekki neitt. Svo spurði hún mig hvort ég vildi borga aukalega fyrir einkastofu, hvort ég vildi síma inn á stofuna o.s.frv.
En það er alveg rétt að það er ákveðin tilhneygjing til þess að falsa "einkarekstur", þar er ég ekki að fjalla um MB, vegna þess að ég þekki ekki þar til, og fleira þarf til skólareksturs en laun.
En besta dæmið um slíkt á seinni tímum, er líklega Vaðlaheiðargöng, sem Vinstri græn og Samfylkingin keyrðu í gegnum Alþingi (með dyggum stuðning allra þingmann N-A, ef ég man rétt).
Þar var "villta vinstrið" til í "einkarekstur", þó að fyrir öllum þeim sem höfðu heilbrigða skynsemi væri það ljóst að það þyrfti í það minnsta verulega bjartsýni, til þess að vonast til að slíkt gæti staðið fyrir sjálfu sér.
Það var ekki "blautur draumur" frjálshyggjumanna, heldur voru þeir sem börðust hvað harðast á móti slíku fyrirkomulagi.
P.S. Það að vera á fjárlögum, gerir ekkert að ríkisrekstri. Meira að segja Harpa er ekki ríkisrekstur, ef ég hef skilið málið rétt.
Ert þú ríkisstarfsmaður?
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Auðvitað veit ég ekki hvað Bjarna og Welding fór á milli á þessum fundum, en það þurfti engar innherjaupplýsingar til þess að vita að Íslenska bankakerfið var í verulegum vandræðum á þessu tímabili.
Sjálfur seldi ég öll Íslens verðbréf og aðar eigur á Íslandi all nokkru áður en Bjarni seldi í þessum sjóðum. Það var einfaldlega mitt mat eftir að hafa talað við þá sem ég þekkti og störfuðu í Íslenska fjármálakerfinu.
Vissulega missti ég af "ákveðnum toppi", en slapp vel frá bankahruninu, varð í raun fyrir engu tapi.
Í raun má segja að upplýsingarnar hafi legið fyrir allra augum, í það minnsta þeirra sem vildu sjá þær.
G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2017 kl. 16:20
G. Tómas, Bjarni seldi hlutabréfin í Glitni átta mánuðum fyrir hrun.
Á þeim tíma voru upplýsingarnar alls ekki fyrir allra augum. Bjarni var hins vegar í aðstöðu til að afla innherjaupplýsinga og jafnvel fá þær óumbeðið. Hann og Lárus hittust reglulega að beiðni Bjarna.
Almenningur var hins vegar hvattur til að kaupa. Meðal annars var hringt í ellilífeyrisþega og þeir hvattir til að innleysa eignir í ríkisbréfasjóðum og kaupa í staðinn í hlutabréfasjóðum þar sem bankarnir voru stór hluti eigna.
Ég þekki persónulega dæmi um einstakling sem var með sextíu milljónir sem hann þurfti að ráðstafa á öruggum stað. Ráðgjafi hans í bankanum mælti með kaupum í sama banka. Daginn eftir féllu bankarnir og 60 milljónir urðu að engu.
Nokkrum vikum seinna kom Davíð Oddsson fram í sjónvarpi í Bretlandi. Þar fullyrti hann blygðunarlaust að íslensku bankarnir væru afar traustir. Jákvæðar fréttir hér heima um nýja fjárfesta og nýja lánasamninga á góðum kjörum áttu að benda til slíks hins sama.
Hvers vegna hitti Bjarni Lárus reglulega? Var það ekki til að gæta eigin fjár og fá innherjaupplýsingar?
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.10.2017 kl. 16:47
Að nafninu til er ég ekki ríkisstarfsmaður, en í rauninni er ég það þar sem ég vinn og fæ laun (og eftirlaun) skv. kjarasamningum sem ríkið gerir við KÍ. Launin mín koma úr ríkissjóði - er ég þá ekki starfsmaður ríkisins?
Kristján G. Arngrímsson, 12.10.2017 kl. 20:28
@Ásmundur Það er sem sagt grunsamlegt að hafa selt eignir sínar í sjóðum, hvenær sem það er gert? Hvort sem það er "rétt fyrir hrun", eða löngu áður? Það eina sem fríar fólk frá því að vera "svindlarar" er að hafa tapað peningum.
Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að Bjarni hafi aflað sér upplýsinga sem þingmaður, sem hann hefði ekki getað aflað sér sem almennur borgari í þeim störfum sem hann var áður.
Þegar Samfylkingin er að afsaka hvað foringjar þeirra (s.s. í Bankamálaráðuneytinu) voru aðgerðalausir, er talað um að engu hafi verið hægt að bjarga eftir 2006. En ef einhver Sjálfstæðismaður sá teikn á lofti 2008 og seldi eignir, er það að sjálfsögðu svindl.
Sjálfur seldi ég allt sem ég átti löngu áður en Bjarni seldi, þurfti engar innherjaupplýsingar til. Ræddi við kunningja sem störfuðu í fjármálum og ákvörðunin var frekar auðveld.
Ef einhver hefur fjárfest í bönkunum daginn fyrir hrun þá var hann annaðhvort ekki með réttu ráði, eða afar áhættusækinn.
Vissulega er alltaf einhverjir sem vilja fjárfesta þegar hlutabréf eru á hraðri niðurleið, en það er ekki fyrir hvern sem er. Auðvitað er þetta alltaf eigin ákvörðun, hvað sem hvaða ráðgjafi segir.
Ekki man ég eftir því að Davíð hafi komið fram nokkrum vikum eftir hrun og sagt Íslensku bankana trausta, ég efast um að það hafi farið fram hjá mér.
En það er hins vegar alveg rétt að Íslensku bankarnir (þó ef til vill síst Glitnir) voru alveg jafn traustir og margir aðrir bankar í Evrópu og Bandaríkjunm sem stóðu af sér bankahrunið. Munurinn er einfaldlega sá að þeim var bjargað, ekki þeim Íslensku.
Þannig er það ljóst nú að Danske Bank hefði farið ef Bandaríski seðlabankinn hefði ekki bjargað honum, og taktu eftir að það var ekki Seðlabanki Evrópusambandsins sem þar var að verki.
Það sama má segja um fjölmarga aðra Evrópska banka.
Svo má auðvitað bæta því við sem Jón Steinar kemur inná á með Össur, engum finst skrýtið að einstaklingur, sem er ráðherra og segist ekki hafa "gripsvita" á fjármálum hafi selt alla eign sína í Sparisjóði. Engir frá Samfylkingunni eða Vinstri grænum hafa farið fram á rannsókn á því. Það hefðu þó líklega verið hæg heimatökin hjá Vinstri stjórninni, eða hvað?
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Stærsta spurningin er líklega, ertu í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna sem er tryggður fyrir öllum áföllum, burtséð frá því hvernig þeir gambla með aurinn, eða þarftu að sætta þig við að fá lífeyri, eftir því hvernig lífeyrissjóðnum þínum gengur?
En líklega ertu ekki ríkisstarfsmaður, ekki frekar en starfsmenn verktaka sem vinnur fyrir ríkið eru ríkisstarfsmenn.
G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2017 kl. 05:44
Jú, ég er í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Eins og ég segi, þessi skóli er að öllu leyti eins og ríkisskólarnir. Nema að nafninu til.
Kristján G. Arngrímsson, 16.10.2017 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.