Sundrar Evrópusambandið aðildarríkjum sínum? Sambandsríki sambandsríkja?

Það er dapurlegt að lesa fréttir frá Spáni. Eins og oft er hafa báðir aðilar eitthvað til síns máls, en mín samúð og stuðningur liggur þó hjá "sjálfstæðissinnum" í þessu máli.

Ímyndum okkur að Danska þingið hefði á einhverjum tíma samþykkt stjórnarskrá sem kvæði á um að Ísland, Grænland og Færeyjar væru órjúfanlegur hluti Danska ríkisins, ekkert gæti breytt því.

Hefðu þjóðir þessara landa tekið því með þögninni?  Myndi sú þögn ríkja enn?

Það á einfaldlega að vera eðlileg réttindi þjóða og héraða (eða annarra vel skilgreindra og afmarkaðra landsvæða) að íbúar greiði atkvæði um hugsanlegt sjálfstæði.

Hvort að mikil fjölgun smáríkja sé æskileg þróun er svo allt annað mál, og sjálfsagt um það skiptar skoðanir. 

Það sama má líklega segja um Íslensk stjórnmál, en það þýðir ekki að við bönnum nýja flokka.

En það má velta því fyrir sér hvers vegna svo margar óskir og vangaveltur eru um sjálfstæði ríkja, landsvæða eða landshluta í Evrópu nú um stundir.

Ég held að það sé ekki hvað síst vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á Evrópusambandinu á undanförnum árum og þeim breytingum sem margir tala og sjá fyrir á komandi árum.

Evrópusambandið sýnir nú þegar sum einkenni sambandsríkis og margir sjá fyrir sér að það muni aðeins aukast á komandi árum.

Það verður til þess að mörgum finnst stjórnkerfið vera orðið í mörgum lögum.

Þannig má segja um Katalóníu að hún sé hluti af sambandsríki (Spánn er í raun sambandsríki).  Það sambandsríki er svo aðili að öðru sambandsríki (eða þangað liggur stefnan).

Það þarf því engum að undra að mörgum finnist það rökrétt að Katalónía eigi beina og milliliðalausa aðild að Evrópusambandinu. 

Sama gildir um Skota og svo aftur ríkin í Belgíska ríkjasambandinu.

Stjórnkerfið er einfaldlega orðið með of mörg lög og of umsvifamikið.

Líklega mun þessi þróun halda áfram samfara því að æ meiri völd færast til "Brussel".

Það er hins vegar vonandi að sátt náist í þessu máli

Eins og staðan er nú er nauðsynlegt að atkvæðagreiðsla fari fram í Katalóníu, á friðsaman og lýðræðislegan máta.

Því miður hygg ég að Spænska ríkisstjórnin hafi stórskaðað málstað sinn í þeirri kosningu með framgöngu sinni nú.

Evrópusambandið gengur einnig með laskað orðspor frá helginni og mátti líklega síst við því að vera einn einu sinni hinm megin "girðingar" við lýðræði.

 


mbl.is Lítil gagnrýni leiðtoga Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Áhugaverðar pælingar. Ef Íslendingar hefðu einfaldlega tekið upp dönsku stjórnarskrána frá 1848 óbreytta (Grundloven), hefði það gjörbreytt stöðu landsins í ríkinu (sbr. deilurnar endalausu um Stöðulögin/ Om Islands Stilling i Riget).

Nú vill svo til að haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla á Spáni árið 1978 um lýðræðislega stjórnarskrá sem batt enda á fasisma Franco-tímans. Hún var samþykkt með 92% atkvæði í landinu öllu en með 96% í Katalóníu"! Héraðsstjórn sem virðir að vettugi stjórnarskrá landsins og ákvörðun stjórnlagadómsstóls er að vanvirða þessa ákvörðun katalónskra og spænskra kjósenda!

Öll umgjörð þessara "kosninga" er síðan ekki aðeins ólögleg, heldur líka ósanngjörn gagnvart andstæðingum aðskilnaðar sem ekki hafa fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Enda voru kosningarnar ekki viðurkenndar af alþjóðlegum stofnunum.

Hvort rétt sé að veita Katalóníufylki meiri sjálfstjórn eða jafnvel sjálfstæði er svo annað mál. Ég kann betur við að menn setjist saman og semji frekar en að fara í hart með þessu móti.

Sæmundur G. Halldórsson , 2.10.2017 kl. 10:00

2 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

https://en.wikipedia.org/wiki/Spanish_constitutional_referendum,_1978

Sæmundur G. Halldórsson , 2.10.2017 kl. 10:01

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Sæmundur Þakka þér fyrir þetta. Þó að Katalóníubúar hafi samþykkt stjórnarskránna árið 1978, þýðir það ekki (að mínu mati) að þeir geti ekki gert kröfu um að fá að halda atkvæðagreiðslu um sjálfstæði nú.

Enda er það svo (sömuleiðis að mínu mati) að þó að svo færi að sjálfstæði væri samþykkt, þýðir að ekki að Katalónía ætti að verða sjálfstætt daginn eftir, og vonandi fer það ekki svo að viðskilnaður, ef af yrði, yrði á illum nótum.

Hins vegar ef það yrði samþykkt að Katalónía ætti að sækjast eftir sjálfstæði þyrfti að sjálfsögðu að hefja viðræður við stjórnina í Madrid hvernig sá viðskilnaður færi fram.  Allt á vinsamlegum og lýðræðislegum forsendum vonandi.

Er eitthvað í Spænsku stjórnarskránni sem bannar að halda atkvæðagreiðslu um það hvort "hérað" sækist eftir sjálfstæði?

Ég hef alltaf skilið það svo að sjálfstæðisyfirlýsing þar að lútandi yrði ólögleg, en varla atkvæðagreiðsla um hvort að stefna bæri að sjálfstæði.

Þess vegna er Spænska stjórnin á hálum ís þegar hún beitir ofbeldi til þess að hindra atkvæðagreiðsluna.

En ég er alveg sammála því, eins og ég  minnist á hér að ofan að það er nauðsynlegt að þetta fari fram með viðræðum og á þokkalega vinsamlegum nótum.

En slíkar viðræður gætu aldrei hafist án þess að atkvæðagreiðsla hefði farið fram, alla vegna ekki að mínu mati.

G. Tómas Gunnarsson, 2.10.2017 kl. 10:10

4 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Vissulega geta menn skipt um skoðun þegar aðstæður breytast. En það sem ríkisstjórnin í Madríd og stjórnlagadómstóll landsins vísa til er sú klausa í stjórnarskránni þar sem fram kemur að landið sé eitt og ódeilanlegt! Þess vegna segir Rajoy að ef menn vilji breyta þessu þurfi að láta alla Spánverja kjósa um það. Flest ríki Evrópu hafa samskonar klausur í sínum stjórnarskrám. Frægust er sú franska, þar sem stendur að "la République est une et indivisible". Fordæmi er fyrir því að breytt sé frá þessu. Það var þegar Mitterand lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu í öllu Frakklandi um Nouméa-samkomulagið. Samkvæmt því fékk samfélag Kanaka á Nýju Kaledóníu ekki aðeins aukna sjálfsstjórn heldur voru réttindi aðfluttra franskra ríkisborgara á eyjunum takmörkuð (sem eru þó 60% íbúa) og opnað á síðara sjálfstæði. Þetta var nauðsynlegt þar sem það snerti réttindi allra franskra borgara á "frönsku" landsvæði. Ég veit ekki betur en að menn hafi talið þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vera til fyrirmyndar varðandi lýðræði og sanngirni. Rajoy lagði fram svipaða tillögu í vikunni varðandi Katalóníu. Þar er þó um meira að tefla: 20 prósent þjóðartekna er aflað í héraðinu.

Sæmundur G. Halldórsson , 2.10.2017 kl. 11:41

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Sæmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég veit um þessa klásúlu, en hún gerir atkvæðagreiðslur í raun ekki ólöglegar og réttlætir ekki þá valdbeitingu varð, alla vegna ekki að mínu mati.

Hins vegar er það einnig svo að þetta sýnir í raun fáfengi slíkra ákvæða í stjórnarskrá.

Það meirihluti Spánverja eigi að geta haldið Katalóníubúum í "fangelsi" og notað þá sem "mjólkurkú", getur ekki talist sérlega lýðræðislegt.

Sjálfsagt myndu margir vilja halda því fram á sama hátt að allir íbúar Sovétríkjanna hefðu átt að fá að greiða atkvæði um hvort að Ukraína fengi sjálfstæði. Sama hefði sjálfsagt átt að gilda um Kákasusríkin.

Allir þegnar Bretlands hefðu þá átt að greiða atkvæði um sjálfstæði Skotlands o.s.frv.

Stóra spurningin er hvert sjónarhornið er á sjálfákvörðunarrétt íbúa.  Þar tel ég að Katalóníubúar eigi fullan rétt á sjálfstæði.

Ég tel hins vegar að það væri miður fyrir báða málsaðila ef þeir kysu svo, en það er allt önnur saga.

Það er sömuleiðis allt annar handleggur ef kjósa á um takmörkuð réttindi annara íbúa, s.s. eins og að Íslendingar þyrftu sérstakt leyfi til að flytja til Vestmannaeyja.

G. Tómas Gunnarsson, 2.10.2017 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband