1.10.2017 | 14:17
Skammt stórra högga á milli
Það er með líflegra móti í Íslenskum stjórnmálum þessi misserin, skammt stórra högga á milli og ekki ólíklegt að ýmsum þyki full líflegt.
Flokkarnir á kjörseðlinum verða líklega í það minnsta 10 flokkar, og ekki ólíklegt að þeir verði 12 til 13, alla vegna í sumum kjördæmum.
Það er því erfitt að spá fyrir um úrslit komandi kosninga og má segja að spennan sé að mörgu leyti þríþætt.
Það er að segja hverjir verða stærstir (og hvor verður stærri Sjálfstæðisflokkur eða Vinstri græn), hverjir komast yfir 10% og hverjir ná ekki manni inn á þing.
Það má jafnvel segja að það sé að nokkru marki spennandi að sjá hverjir af flokkunum ná að skila inn fullgildum framboðslistum, ekki síst ef litið er til allra kjördæma.
En það er engin leið að segja annað að Íslensk stjórnmál séu sundruð, eða splundruð. Ef til vill er ekki síst spennandi að sjá hvort að það verði fleiri en tveir flokkar sem ná yfir 10% kjörfylgi.
Það er ekki gefið að það verði nema Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sem ná yfir þann "þröskuld" (og án efa ríflega það), þó mér þyki líklegt að það verði 3 til 4 flokkar.
En mér þykir því miður líklegt að skoðanakannanir eigi eftir að spila stærri rullu fyrir þessar kosningar en nokkru sinni fyrr.
Því fleiri flokkar sem eru í framboði, því meiri líkur eru á því að flokkar eigi eftir að vera "á nippinu" með það að koma mönnum á þing, eða vera undir því marki.
Því líklegra er að kjósendur sem hefur hugnast viðkomandi flokkur íhugi eða ákveði að kjósa annan flokk til að "kasta ekki atkvæði sínu á glæ".
Nú þegar bendir margt til þess að bæði Viðreisn og Björt framtíð eigi eftir að lenda í þessari "gildru" og hugsanlega fleiri flokkar.
Bæði getur það þýtt atkvæðamissi og svo hitt að stemmning deyr, sjálfboðaliðar láta ekki sjá sig og öll baráttan verður erfiðari.
Hvort að nokkur eftirsjá er svo af þessum flokkum af þingi er allt önnur saga, en það er rétt að velta fyrir sér áhrifum skoðanakannana.
Klofningur Framsóknarflokksins á eftir að hafa mikil áhrif, en það er ekki auðvelt að segja um hver þau verða. Vissulega er mikill fjöldi á leið úr flokknum, en á móti er einhver hópur á leið "heim" vegna klofningsins.
Einn kunningi minn vildi meina að þeir Framsóknarmenn sem ekki vildu styðja Sigmund Davíð í síðustu kosningum hefðu bjargað Samfylkingunni frá því að falla af þingi, með því að tryggja þeim kjördæmakjörinn mann í N-A. Sel það ekki dýrara en ég keypti, enda engin leið að fullyrða um slíkt.
En það má fullyrða að ef kjósendur fara að velta fyrir sér hvar engin hætta sé á því að atkvæði þeirra verði "ónýt", þá verði það fyrst og frems Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur sem hagnist á slíkum þankagangi. Þó án efa fyrst og fremst Vinstri græn, enda Sjálfstæðiflokkurinn einn á hægri væng Íslenskra stjórnmála, þó að deila megi um hvað langt hann nær þar.
En það má fullyrða að baráttan verður hörð, enda líklegt að stutt verði á milli feigs og ófeigs í þessum kosningum.
Hvernig þeim sem hafa svo lagt sig fram um að "ata hvern annan auri", gengur svo að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum, er nokkuð sem vert er að velta fyrir sér.
Þar gefur reynslan eftir síðustu kosningar ekki tilefni til bjartsýni.
Baráttan um botnsætin spennandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég mun kjósa Flokk fólksins eins og ég gerði í síðustu kosningum.
Þeir eru eini flokkurinn sem:
1. Berst fyrir bættum kjörum öryrkja og láglaunafólks. Ekki gera aðrir flokkar það.
2. Hafnar alfarið aðild að ESB. Eins og er þá er gamla Framsókn eini flokkurinn sem gerir það, meðan Sjálfstæðisflokkurinn sveiflast eins og hænurass í vindi hvað varðar aðild.
3. Vill stemma stigu við óheft innflæði gerviflóttamanna frá Asíu og Afríku sem kosta ríkissjóð og sveitarfélög tugir milljóna. Enginn flokkur á þingi hefur þá stefnu, þvert á móti vilja fjórir þeirra galopin landamærahlið og Framsókn er hlandvolg.
Ef xF fær yfir 10% atkvæða þá gæti flokkurinn orðið þunginn á vogarskálinni. Ekki er vitað hvort þeir þá muni ganga til liðs við vinstri- eða miðflokkana. Hins vegar get ég ekki séð fyrir mér 2ja flokka stjórn D og V þótt þeir fengju vel yfir 35% atkvæða. Þessir tveir flokkar eiga ekkert sameiginlegt. Og það hefur ekki gerzt oft í lýðveldissögunni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn með kommúnistum. Hins vegar myndaði Ólafur Thórs ríkisstjórn með Sósíalistaflokknum á hernámsárunum, en þá voru aðstæður aðrar.
Pétur D. (IP-tala skráð) 1.10.2017 kl. 17:46
Pétur. Þú ætlar semsagt að leggja traust þitt á Ólaf Ísleifsson hagfræðing, sem sagði að það versta væri afstaðið nokkrum dögum fyrir hrun og sat nefnd sem valdi Icesave sem viðskiptaundur ársins rett fyrir hrun. Sjálfstæðismaðurinn sem var efnahagsráðgjafi Þorsteins Pálssonar sem fokkaði upp gengismálum hér svo við erum enn að jafna okkur eftir ósköpin.
Þú ættir að geta tekið hinti um hvernig framhaldið verður þagar öll þessi flokksbrot nema tvö eru vinstri framboð, sem eru svo ósammala að þeim er ómögulegt að sameinast í vitrænt afl.
Þú ætlar semsagt að taka sjensinn á frekari upplausn og stjórnarkreppu. Vinstri sundrung sem hefur engum árangri náð undanfarin misseri öðrum en að sprengja ríkistjórnir út af smámálum, leggjast á sveif með vogunarsjóðum og erlendum kröfuhöfum og keyra í gegn vitfirrta stóriðjustefnu.
Upphlaup þeirra hafa kostað þjóðarbúið nóg. Fagurgali þeirra er innantómt hjal. Þeir hafa þegar gert það erfitt eða ómögulegt að bæta velferðarmálum þjóðarinnar, því þeim er meira annt um að koma í veg fyrir árangur hægri manna en að huga að velferð þjóðarinnar.
Verði þer að góðu.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2017 kl. 20:52
Í mínum eyrum hljómar þetta eins og þú sért að tala um landráðaflokkana tvo, VG og Samfylkinguna. Ég er enginn aðdándi Ólafs Ísleifssonar en hef mikla trú á Ingu Sædal og hinum í stjórn flokksins.
Athugaðu, að Flokkur fólksins er eini flokkurinn sem berst fyrir hag láglaunafólks og öryrkja. Ekki gera vinstri flokkarnir það og hægri flokkarnir því síður. Allir flokkarnir, sem nú eru á þingi hafa það eitt að markmiði að skara eld að eigin köku. Vinstri flokkarnir þrír plús BF og Viðreisn hafa það auk þess að markmiði að fá aðild að Fjórða ríkinu og opna landamærahliðin upp á gátt á meðan alþýðan þarf að borga fyrir það.
Hvað varðar IceSave, þá er það mér í fersku minni hvernig vingullinn Bjarni Ben greiddi atkvæði með Buchheit-samningnum eftir að Jóhönnustjórnin fjarlægði 8. gr., þannig að Bjarni og vinir hans yrðu stikkfrí. Þannig mun ég aldrei kjósa Sjálfstæðisflokkinn og hef aldrei gert, og ekki bara út af þessu atriði.
Góðar stundir.
Pétur D. (IP-tala skráð) 2.10.2017 kl. 15:18
Jón Steinar, auk þess ertu að ganga frá því vísu að ef xF verður þunginn á vogarskálinni, þá muni þeir taka þátt í vinstri stjórn. Það er alls ekki gefið.
Enginn af þingflokkunum hefur á stefnuskránni þessi meginatriði sem flokkurinn leggur áherzlu á, sízt af öllu vinstriflokkarnir. Og eins og þú veizt, þá snýst ríkisstjórnarsamstarf um að fá sem flest af sínum málum í stjórnarsáttmálann. Svo að hvort xF fari í vinstri- eða hægristjórn fer allt eftir því hvernig það gengur.
Persónulega sýti ég það ekki, að ríkisstjórn með þessar tvær ESB-botnlangatotur, Viðreisn og BF, í eftirdragi hafi fallið. Hvernig nokkur lifandi maður geti viljað aðild að einræðisríki, sem er að gliðna í sundur, er fyrir ofan minn skilning. Og ekki halda, að VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafi kveðið þennan draug niður innan sinna raða. Katrín er gallharður ESB-sinni, þótt klofin tunga hennar segi annað, enda undirlögð kommúnískri hugmyndafræði (ekki gleyma að hún vildi halda áfram aðlögunarviðræðunum), og Bjarni Ben var lengi á reiki um þetta mál fyrir nokkrum árum.
Pétur D. (IP-tala skráð) 8.10.2017 kl. 14:27
Auk þess að hafa komizt á þing með því að draga til sín ESB-sinna, þá fannst mér Benedikt Zoëga vera óttalega lélegur fjármálaráðherra. Hann vildi ekki vera með í 5 flokka vinstristjórn, en knúði fram vinstrivilluskatta- og forræðishyggjustefnu.
Pétur D. (IP-tala skráð) 8.10.2017 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.