4.1.2017 | 18:19
Niðurlæging Sjálfstæðisflokksins?
Ég verð að viðurkenna að mér líst engan veginn á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar taki við völdum á Íslandi.
Ekki síst ef marka má þá "leka" sem heyrst hafa af viðræðunum.
Ef marka má það sem heyrst hefur felur stjórnarmyndunin í sér niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins, sem virðist teygja sig alltof langt til að mynda stjórn sem á sér takmarkaða möguleika til að sitja út kjörtímabilið.
Stjórn sem er ekki sammála um atriði eins og t.d. sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, peningakerfi, afstöðu til Evrópusambandsins og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu þar um og hefur aðeins eins þingmanns meirihluta virkar einfaldlega eins og að hún sé ekki á vetur setjandi.
Gefi Sjálfstæðisflokkurinn of mikið eftir í þessum málaflokkum er það einfaldlega niðurlæging fyrir hann og formanns hans.
Það getur varla gengið að mynda stjórn um pólítískan ómöguleika, eða hvað?
Sé það jafnframt rétt að Sjálfstæðisflokkurinn fái einungis helming ráðuneyti í sinn hlut, 5 á móti 5, þrátt fyrir að hafa 2/3 þeirra alþingismanna sem stæðu að baki slíkri ríkisstjórn, er það enn frekari niðurlæging.
Réttari skipting væri að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að lágmarki 6 af 10 ráðherrum, nema að skiptingin væri sú að í hans hlut kæmi Forsætisráðuneytið, Fjármálaráðuneytið og Utanríkisráðuneytið.
Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé í feigðarför með myndun slíkrar ríkisstjórnar.
Funda áfram um stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2017 kl. 12:35 | Facebook
Athugasemdir
Sammála. Þetta er ávísun á kosningar í vor. Bjarna hefði verið nær að taka tilboði Sigurðar Inga og Kötu litlu, sem voru að leggja net sín út eftir honum. Það segir líka í fréttum, og Styrmir tekur það upp í sinni bloggfærslu hér, að margir þingmenn séu tortryggnir á þetta stjórnarsamstarf. Það hefði því verið vitið meira af Bjarna hálfu að snúa sér að Sigurði Inga og Kötu. Það hefði verið farsælla samstarf, held ég, en þetta verður. Bjarni virðist vera harður á að ekki verði kosið um ESB, sem Viðreisn og BF vilja endilega, en hversu lengi hann getur haldið við sinn keip í þessum efnum er spurning, þegar á reynir. Þetta samstarf getur aldrei orðið farsælt. Það búast líka flestir við kosningum í vor, þeim kosningum, sem áttu réttilega að fara fram þá. Það er kannske heldur ekki það versta svo sem. Ég skil heldur ekkert í þeim flokkum, sem vilja endilega ana með okkur, gagnstætt vilja þjóðarinnar, inní brennandi kofaskrifli ESB. Svo er þetta sama fólk að tala um, að það sé hlegið að Íslendingum erlendis og gert grín að þeim. Er það nokkur furða, þótt gert sé grín að fólki, sem vill endilega fara inn í brennandi kofaskrifli ESB á sama tíma og aðildarþjóðirnar eru að þinga um það, hvernig þeir eiga að fylgja í kjölfar Breta út úr sambandinu? Ég bara spyr. Það er eins og sumir hér á landi séu bæði sjónlausir, heyrnarlausir og vita skynlausir á það, sem er að gerast í kringum þá í heiminum, og vilji ekki skilja eða vita neitt af ástandinu ytra, og haga sér eins og þeir lifi á 19. öldinni, þegar engin voru fréttablöðin, og fréttir að utan komu bara með haust- og vorskipum. Alveg er þetta dæmalaust, hvernig þetta fólk hugsar, og að nokkur skuli vilja vera í stjórn með slíku fólki með slík skilyrði, sem það setur. Það getur aldrei farið nema illa. Svo mikið er víst. Mál er að linni þessarri vitleysu, og fólk fari að nota heilann eitthvað.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2017 kl. 18:52
Þetta blog hjá G.Tómasi og athugasemnd Guðbjargar Snótar dekkar allt.
Ég hef enu við að bæta. Takk fyrir
Snorri Hansson, 5.1.2017 kl. 01:19
Ég er sammála þessu hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar eins og segir í síðustu línu.
Halldór Jónsson, 5.1.2017 kl. 11:33
Voðalega eru menn allt í einu farnir að taka mikið mark á Fréttablaðinu!
Varðandi ráðherraskipti hefur það alltaf tíðkast að smærri flokkarnir hafa fengið hlutfallslega fleiri ráðherra, stærri flokkarnir hins vegar oft meira af feitari bitunum.
ls (IP-tala skráð) 5.1.2017 kl. 13:35
G.Tómas,
ég er ekki sammála þessu hjá þér, mér finnst einmitt Bjarni Ben vax sem formaður ef þetta gengur eftir, mér finnst hann einmitt sýna kjark og þor að standa gegn eignarhaldsfélagi SjálfstæðisFLokksins að taka þennan stjórnarmyndunarslag.
Ef Bjarni ætti að fara eftir því sem þið viljið, þá gerist ekkert, þið viljið með öðrum orðum að SjálfstæðisFLokkurinn gefi ekkert eftir og sé hellst með öll ráðaneytin, máli sig alveg út í horn, pólitískt, og vilji taka upp miðaldar stjórnarhætti og miðaldarlifnaðarhætti, það náttúrulega gengur ekki.
Þarna finnst mér Bjarni vera að reyna að hrista af sér eimreyðarklíkuna og með þessum skrefum er hann loksins, að taka sjálfstæðar ákvarðanir sem formaður flokks, sem virkilega þarf að fara horfa framá við,
Góðar stundir.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 5.1.2017 kl. 15:40
@Guðbjörg Þakka þér fyrir þetta. Það eru vissulega verulegar líkur á því að kosningar yrðu áður en kjörtímabilinu lyki. Það eitt ætti að duga til að fá alla til að hugsa sig um tvisvar, ef ekki oftar, áður en slík ríkisstjórn yrði mynduð.
@Snorri Þakka þér fyrir innlitið.
@Halldór Þakka þér innleggið.
@ls Þakka þér fyrir þetta. Persónulega hef ég alltaf varann á hvað varðar Fréttablaðið. En þú ert þó varla að halda því fram að íslenskir fjölmiðlar séu fullir af "fölskum fréttum"? :-)
En að öllu gamni slepptu bera þessar fréttir nokkurn keim af því að verið sé að reyna að "móta atburðarásina" og ætti það eitt of sér að auka vantraust á milli aðila sem standa í slíkum viðræðum, varla er á slíkt bætandi. Því ættu slíkar fréttir ef þær eru ekki réttar að minnka líkurnar á því að slík ríkisstjórn yrði komið á laggirnar og jafnframt að vera vísbending um að hún muni ekki endast.
Hvað varðar skiptingu ráðherraembætta er það vissulega rétt að smærri flokkar fá oft hlutfallslega stærri hlut, sérstaklega þegar um 2. flokka er að ræða, sem er ekki í þessu tilfelli. Svo væri einnig þó að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 6 ráðherra. En eins og ég nefni í pistlinum, þá vega ráðuneytin líka misjafnlega þungt.
@Helgi Þakka þér fyrir þetta. Það er fyllilega eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um þetta eins og flest annað.
En persónulega finnst mér hvorki Bjarni né Sjálfstæðisflokkurinn vaxa við þetta, ef af verður. Og það er morgunljóst að hvorki Bjarni né flokkurinn mun vaxa við þetta ef ríkisstjórnin lifir ekki út kjörtímabilið. Þá þætti mér ekki ólíklegt að það kostaði Sjálfstæðisflokkinn mikið fylgi og Bjarna formannsembættið.
Hvort að Bjarni vilji svo eiga það undir hópi fólks sem hefur ítrekað stungið hann í bakið á undanförnum árum er síðan nokkuð sem hann verður að gera upp við sig (og bera undir þingflokkinn).
Það má svo ef til vill bæta við að þegar flokkurinn hefur í raun klofnað vegna ágreinings, er ef til vill ekki besta leiðin að púkka undir þá sem fóru, en gera þá sem eftir voru óánægða.
En það gefst oft betur að hlusta á þá sem styðja flokkinn.
G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2017 kl. 06:10
Kannski er Bjarni Ben eftir alltsaman að reyna að feta nýjar slóðir í pólitík og hverfa frá þeim gamla hugsunarhætti að það sé niðurlæging fyrir stjórnmálaflokk og -foringja að þurfa að gefa eftir. Kannski er hann meira að segja til í að hverfa frá þeirri hugmynd að því meiru sem Sjálfstæðisflokkurinn fái ráðið á Íslandi því betra sé það fyrir land og þjóð.
Annars er ég sosum sammála þér um að þetta verði ekki góð ríkisstjórn. Og hallærislegt hvað Viðreisn er til í að gefa mikið eftir til að komast að kjötkötlunum - atkvæðagreiðsla um aðildarviðræður? Nei, það er alveg óþarfi.
Og Björt framtíð virðist vera svona nútímaútgáfa af Framsóknarflokknum, til í að láta hinn bara ráða.
Kristján G. Arngrímsson, 9.1.2017 kl. 13:35
@Kristján Þakka þér fyrir þetta Ég veit ekki hversu nýjar slóðir þetta eru sem Bjarni er að feta sig inn á, en ég hygg að þær séu varasamar.
Það þurfa allir að gefa eftir í fjölflokkastjórn, það segir sig eiginlega sjálft. En það getur vissulega orðið niðulæging, ef eftirgjöfin er of mikil og einnig eftir því á hvaða sviðum hún er.
Leiðtogi stjórnmálaflokks sem trúir ekki því að þjóðinni farnist betur eftir því sem flokkur hans hefur meiri völd og áhrif, ætti að segja af sér. Ef hann hefur ekki trú á þeim stefnumálum sem flokksmenn hafa samþykkt og fylkt sér um, er einhver annar flokksmanna betur fallinn til að leiða.
Þetta gildir um alla, ekki eingöngu Bjarna. Hitt er svo eins og áður sagði að það þarf að vega og meta hvað getur verið nauðsynlegt að gefa eftir eða "útþynna" til að mynda ríkisstjórn.
Viðreisn náði eftirtektarverðum árangri í kosningunum, en er samt aðeins 5. stærsti flokkurinn á Alþingi. Flokkurinn þarf að stilla kröfum sínum í samræmi við það. Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð stjórnarsáttmálann þá þykir mér Viðreisn hafa komið árum (pun intended) sínum býsna vel um borð.
Björt framtíð er að mörgu leyti skrýtinn flokkur, en ég hef ekki séð það til Framsóknarflokksins á meðan ég hef fylgst með pólítík að "hann sé til í að láta hinn ráða".
En það sem stendur upp úr að mínu mati er eins manns meirihluti. Springi ríkisstjórnin áður en kjörtímabilið er úti, er verr af stað farið en heima setið.
Með alla "árana" (úr öllum flokkum) um borð er þó nokkur hætta á því.
G. Tómas Gunnarsson, 10.1.2017 kl. 06:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.